27.08.1919
Neðri deild: 47. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í C-deild Alþingistíðinda. (2985)

53. mál, læknishérað í Ólafsfirði

Stefán Stefánsson:

Háttv. framsm. (E. J.) áleit, að enginn læknir mundi fást í þetta hjerað, þótt stofnað yrði, fremur en önnur útkjálkahjeruð. Ef svo fer, þá nær það ekki lengra, og veldur engum útgjöldum fyrir ríkissjóðinn, en eins og jeg gat um í fyrri ræðu minni, má búast við, að læknum fjölgi brátt, og að auðveldara verði hjer eftir að fá lækna í slík hjeruð, ef launakjör þeirra batna, eins og nú er útlit fyrir, og þótt frv. þetta verði að lögum, hefir það þá fyrst kostnað í för með sjer, þegar nýr læknir fæst í hjeraðið, því að þangað til heldur læknirinn, sem nú hefir það, áfram að þjóna því á sama hátt og nú er. Viðvíkjandi því, að Ólafsfjarðarlæknirinn mundi draga frá öðrum, og ef til vill gera ólífvænlegt fyrir lækni í Hofsóshjeraði, þá sýnist þetta í fljótu bragði hafa við nokkur rök að styðjast. En þess er að gæta, að Stýflubúar og Austur-Fljótamenn leita að líkindum tiltölulega mjög sjaldan læknis í Hofsós, nema í brýnustu nauðsyn, vegna þess að svo langt og erfitt er að ná í lækni þangað. Það má jafnvel undarlegt heita, að Stýfla og Austur-Fljót skuli ekki þegar frá upphafi hafa verið látin heyra til Siglufjarðarumdæmis fremur en Hofsóss, því að skemra er fyrir þá að ná í lækni á Siglufirði en í Hofsós. Öll afstaða bendir á, að þeir mundu nota lækni mikið, ef hann sæti í Ólafsfirði, væri hann hinum jafnsnjall, og þótt hann væri það ekki.

Það er eðlilegt, að þeir, sem ekki hafa komið á þessar stöðvar, geti ekki til fullnustu gert sjer grein fyrir málinu, nje erfiðleikum þeim, sem Ólafsfirðingar eiga við að búa með læknissóknir; en hart er það, ef málið á að stranda að eins á ókunnugleika þingmanna.