10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (2996)

56. mál, skipun læknishéraða o.fl. (Árnessýsla)

Frsm. meiri hl. (Pjetur Ottesen):

Að eins athugasemd. Satt að segja ætlaði jeg ekki að fara út í það, sem gerst hefir í nefndinni í þessu máli, en af því að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) legst svo harðlega móti öllu nú, vil jeg geta þess, að við háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) vorum í upphafi sammála um að leggja á móti öllum þessum læknafrv. En þar sem ekki gat orðið samkomulag um það, að nefndin öll fjellist á þessa uppástungu okkar, skildust leiðir, og sem reyndar eðlilegt var gat háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) þá ekki lagst móti sínu eigin frumvarpi. En hann gerði meira. Hann tók það eitt út úr, en var á móti öllum hinum, þótt ýmsar ástæður mæltu meira með því, að settur væri læknir í þau, sum að minsta kosti.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að segja fleira um þetta mál. En þar sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) sagði, að Árnesingar væru brjóstgóðir við umrenninga, skal jeg á engan hátt mótmæla því. Og það því síður, sem hann dæmir þar um af eigin reynd.