21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (3001)

75. mál, bifreiðaskattur

Björn Kristjánsson:

Mjer þykir það óviðkunnanlegt, þar sem um svo mikið nýmæli er að ræða sem þetta, að enginn skuli taka til orða, nema háttv. frsm. (M. G.).

Því verður ekki neitað, að mál þetta er algert nýmæli. Að minsta kosti man jeg ekki eftir því, síðan jeg kom á þing, að komið hafi til tals fyr að leggja skaft á umferð. Jeg minnist þess, að þegar Ölfusárbrúin var bygð, var mikið um það rætt að leggja skatt á hana eða umferð um hana. Ástæðan fyrir því mun hafa verið sú, að þá lögðust niður ferjugjöldin, en það hefir þótt eðlilegt, að slík gjöld hjeldust, þótt þau þægindi fylgdu brúnni, að hægt var að fara viðstöðulaust ferða sinna. Jeg man ekki, hvort það gjald komst á, en hafi svo verið, hefir það ekki staðið lengi. (E. J.: Það komst aldrei á). Það mun rjett vera, en jeg man, að mikið var um það mál rætt.

Annars er ekki gott að átta sig á því, hverskonar tollur þetta á að vera, hvort heldur atvinnutollur eða tollur af óþarfa, eða hvað. Atvinnutollur getur það þó ekki talist, þar sem það legst eins á þá menn, sem hafa farartæki þessi að eins fyrir sjálfan sig, eins og í stað reiðhests, og þeir aðrir sem gjaldið greiða, taka það ekki úr sínum eigin vasa, heldur kemur það niður á þeim, sem þeir flytja. Þetta gjald hlýtur því að hvíla á fólki sem umferðagjald. En slíkt hefir ekki þekst hjer áður. En það verður að teljast óeðlilegt að leggja það að eins á þann litla flokk manna, sem í bifreiðum ferðast, en undanskilja allan fjöldann, sem ferðast bæði ríðandi, akandi og á skipum. Auk þess ber þess að gæta, að bifreiðar eru oft notaðar í neyð, bæði til að flytja sjúklinga, leita læknis, og einnig í þarfir lögreglunnar. — Tökum til dæmis, ef bráðliggur á að sækja lækni til sængurkonu, er það þá ekki dálítið einkennilegt, að læknirinn skuli þurfa að greiða sjerstakan skatt fyrir það að ferðast í bifreið og vera miklu fljótari í ferðum, og ef til vill bjarga mannslífum fyrir þá sök? En vera skattfrjáls, ef hann notar reiðhestinn sinn og er miklu lengur á leiðinni. Það er fljótsjeð, að hjer er um slíkt nýmæli að ræða, að ekki má láta undir höfuð leggjast að athuga það vandlega. Og ef það yrði ofan á, að slíkur umferðaskattur kæmist á, hví þá ekki að leggja hann á alla, sem eitthvað ferðast, hvort heldur er akandi, ríðandi eða á skipsfjöl?

Háttv. frsm. (M. G.) skýrði frá því, hvernig stæði á þessu frv. Væri orsökin aðallega sú, hversu mjög bifreiðar skemdu vegina. Jeg átti nýlega tal við merkan og greindan bónda, sem býr fyrir austan fjall; hann skýrði mjer frá því, að þær skemdu lítið meira vegina heldur en almennar kerrur. Er þetta líka skiljanlegt. Hjól kerranna eru mjórri og skerast því dýpra niður í veginn heldur en hjól bifreiðanna, sem eru breiðari. þegar maður er á ferð með marga vagna og hefir þá hvern aftan í öðrum, þá renna hjólin öll í sama farinu og mynda djúp vagnför í þá. Hjól bifreiða og bifhjóla eru aftur miklu betur löguð til að bæta vegina heldur en til af rífa þá upp. Það er aftur á móti rjett, að þegar þurkar eru, rýkur meira upp úr veginum undan bifreiðum en kerrum, en það ryk fýkur fljótlega burtu, ef nokkuð kular, þá ber og þess að gæta, að áður en bifreiðarnar komu voru vegirnir austur yfir fjall altaf í ólagi. Þeir voru í upphafi svo illa gerðir, að þeir þoldu ekki kerrurnar. Jeg veit, að menn, sem fóru austur, muna eftir því að hafa sjeð vagna, sem farið höfðu niður í holur á veginum, liggja mölbrotna fyrir utan veginn. Þessi ástæða hv. frsm. (M. G.) virðist mjer því vera harla veigalítil.

Önnur ástæða hv. frsm. (M. G.) var sú, að bifreiðum hefði fjölgað um of og of ört hjer á landi. Þetta er að vísu rjett hjá hv. frsm. (M. G.), en þessi aðferð, sem bent er á í frv. þessu, er ekki nægileg til þess að ráða bót á þessu. Þetta gjald lendir sem sje ekki á bifreiðastjórunum, heldur á þeim, er bifreiðarnar nota. Ráðið við of skjótri fjölgun hefði miklu fremur verið að leggja gífurlegt innflutningsgjald á bifreiðarnar.

Jeg held rjettast að vísa málinu til nefndar, enda þótt það sje komið úr nefnd, og jeg leyfi mjer að gera það að till. minni, að málinu verði vísað til samgöngumálanefndar, og vona, að fjárhagsnefnd hafi ekkert á móti því. Slíkt mál sem þetta ætti að sjálfsögðu að athugast af þeirri nefnd.