21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (3002)

75. mál, bifreiðaskattur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg tók það fram síðast, að þessi skattur væri að nokkru leyti atvinnuskattur, og að nokkru leyti „luxus“-skattur. Átti jeg þar við eins og tveggja manna bifreiðarnar, sem nú er farið að nota hjer. Jeg hefi ekkert á móti því, að þetta frv. sje vel athugað, og því hefi jeg persónulega ekkert á móti því, að málið fari til samgöngumálanefndar, en jeg get ekkert sagt um skoðanir annara nefndarmanna á þessu. Hvað það snertir, að þetta er nýmæli, þá sje jeg ekki, að það, út af fyrir sig, geti verið ástæða gegn þessu frv., því að það getur haft við alveg næg rök að styðjast fyrir því. Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) nefndi í sambandi við þetta frv. skattinn, sem einu sinni var í ráði að lagður yrði á þá, er færu um Ölfusárbrú. Jeg skal í þessu sambandi láta þess getið, að mjer er kunnugt um, að ýmsir Árnesingar eru því hlyntir, að lagður sje brúarskattur einmitt á þessa brú, án þess að jeg ætli þó að mæla með því, heldur læt jeg þessa getið til þess að sýna, að hjer er um enga fjarstæðu að ræða. Það er aldrei nema rjettlátt, að bifreiðarnar leggi eitthvað af mörkum til veganna, og jeg veit ekki betur en að þær fari altaf í sama farið, eins og vagnarnir. Þá held jeg þá ekki of góða til að borga þetta, sem nota bifreiðarnar, allra síst það fólk, sem mest notar bifreiðarnar hjer í bænum. Það eru helst strákar og stelpur, er aldrei sjást annars og enginn þekkir nein deili á; ekur þessi lýður um bæinn, er nátta tekur, með allskonar ærslum. Jeg hafði nokkur kynni af þessu, er jeg var settur bæjarfógeti. Var tekinn drengur, er komist hafði ólöglega yfir 800 kr. Er farið var að rannsaka, hvað hann hafði gert af fje þessu, kom það í ljós, að hann hafði eytt því að mestu í bifreiðaakstur. Það kveður jafnvel svo mikið að óhófinu í notkun bifreiða, að sumu fólki finst sjálfsagt að aka heim til sín af kvikmyndahúsunum.

Það getur verið heppilegt að leggja hátt innflutningsgjald á bifreiðar, en jeg held, að það kæmi engu síður niður á notendum bifreiða, því að bifreiðastjórarnir mundu leggja á aksturinn það sem innflutningsgjaldinu svaraði. Auk þess yrði þetta gjald ekki annað en verndartollur fyrir þær bifreiðar, sem komnar eru. Á það get jeg fallist, að rjett muni vera að taka fleiri bifreiðar undan en hjer er gert. Jeg átti nýlega tal við mann, er á bifreið, sem hann notar næstum eingöngu í embættiserindum; hann var mjög gramur yfir þessum skatti, og finst mjer ekkert á móti að gera undantekningar með þess háttar bifreiðar. Getur nefndin sem fær þetta mál í hendur, athugað það.