21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (3005)

75. mál, bifreiðaskattur

Forsætisráðherra (J. M.):

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) er ekki viðstaddur, og mjer er ekki kunnugt um, hvernig hann muni taka þessu frv., en mjer þykir vænt um, að hv. fjárhagsnefnd skuli hafa komið með það, því að jeg tel það fullkomlega rjettmætt að leggja skatt á þessa farkosti. Hvort skattur frv. er ekki of hár, um það skal jeg ekki dæma; má vera, að hann sje of hár. Jeg veit ekki, hvort háttv. fjárhagsnefnd hefir athugað, hversu miklar tekjur eru af einni bifreið yfir árið, en það þyrfti að athuga, og ákveða svo skattinn eftir því.

Jeg álít fyrir mitt leyti, að bifreiðar hjer sjeu alt of margar orðnar, og væri því rjett að taka til athugunar till. hv. 1. þm. G.-K. (B. K.), að leggja hátt innflutningsgjald á bifreiðar, en að það var ekki gert löngu áður kemur af því, að jeg held, að engum hafi dottið í hug, að þær mundu á skömmum tíma verða svona margar.