21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (3006)

75. mál, bifreiðaskattur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það gleður mig, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) skuli leggja þessu frv. lið, úr því að það hefir sætt mótmælum hjer í hv. deild.

Jeg vil benda hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) á það, að ef vegagerð landssjóðs fer að nota bifreiðar við vegalagningu, þá gerir skatturinn henni ekkert, því hann rennur þá bara úr einum vasa ríkissjóðs í hinn. En finnist mönnum þetta óþarfa krókaleið, þá má hæglega taka þær bifreiðar undan. Jeg álít, að þetta mál sje aðallega fjármál, sem heima eigi í fjárhagsnefnd, en jeg hefi þó ekki persónulega á móti því, að því verði vísað til samgöngumálanefndar.

Jeg gat ekki sannfærst af orðum hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) um, að skattur þessi sje eigi á rökum bygður. Það er alls eigi nýtt að skattleggja farartæki, sbr. t. d. lausafjárskatt af hestum og skipum. Hjer er því um enga nýja stefnu í skattamálum að ræða, eins og haldið hefir verið fram.