21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (3008)

75. mál, bifreiðaskattur

Benedikt Sveinsson:

Mjer finst það ekki eins mikil fjarstæða og hv. þm. Dala. (B. J.), þótt málið fari nú til samgöngumálan. Hjer er um merkilegt atriði í samgöngumálum landsins að ræða, og ekki nema rjett, að það verði vel athugað, einmitt af samgöngumálanefnd, hvort rjett sje að skattleggja sum farartæki, þegar landssjóður leggur stórfje til annara. Fjárhagsnefnd lítur að eins á það eitt, að með þessum hætti fáist fje í landssjóð.

Alþingi hefir áður þótt svo miklu skifta, hvort bifreiðar reyndust nothæfar á Íslandi, að það hefir veitt fje til þess að kaupa hingað bifreið, meðan þær voru hjer óþektar. Síðan hefir reynslan sannað, að þær eru ágætur „fararskjóti“. Skattur þessi fer því algerlega í bága við þá stefnu, sem hefir ríkt í þinginu gagnvart þessu samgöngutæki og yfir höfuð í samgöngumálum. Menn tala að vísu um, að sumar bifreiðar sjeu óþarfar og sje rjett að skattleggja þær — en er ekki eins um suma reiðhesta, sem kaupstaðarbúar eiga, að þeir sjeu óþarfir? Á þá líka að greiða skatt af þeim? (E. A.: Eins og af óþörfum hundum). Það kemur mjer kynlega fyrir sjónir, að þingið, sem veitir fje til annara samgöngutækja, t. d. flóabáta og vjelbáta, skuli vilja skattskylda bifreiðar. Menn fara margar óþarfaferðir með bátum og skipum, ekki síður en bifreiðum. — Eða hvaða vit er t. d. í að skattleggja bifreiðar, sem ganga til Keflavíkur, en greiða styrk til vjelbáta fyrir að annast ferðir sömu leið. Það er eins og sumir ætli, að bifreiðar sjeu einhverskonar skaðræðsgripir, en gæta þess ekki, að þær eru menningartæki, fólki til mikilla þæginda. Forsætisráðherra (J. M.) virðist leggja megináherslu á það, að bifreiðarnar sjeu orðnar alt of margar. En stjórnin hefir nú reynt að stemma stigu fyrir þeirri fjölgun með hinum þarflega flutningstaxta sínum. Sú ráðstöfun var nauðsynleg til þess að fyrirgirða, að okrað væri á bifreiðunum og þær fluttar inn meir en góðu hófi gengdi.

Enn fremur vil jeg benda á, að það getur verið erfiðleikum bundið að heimta inn gjald þetta, því að bifreiðar ganga fljótt af sjer og liggja einatt tímum saman í lamasessi. Og virðist það vera harla hart aðgöngu að heimta skatt af bifreiðum, sem ganga að eins einn eða tvo mánuði ársins, eins og þær gengju alt árið. Hjer er á margt að líta, og vona jeg, að hv. þingdeild verði því ekki mótfallin, að málinu sje vísað til samgöngumálanefndar.