21.07.1919
Neðri deild: 12. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (3009)

75. mál, bifreiðaskattur

Hákon Kristófersson:

Jeg á ekki frumkvæði að frv. þessu, þótt það sje komið frá nefnd, sem jeg á sæti í. En mjer kemur það kynlega fyrir, að nokkur skuli geta verið móti öðru eins frv. og þessu. Það er gagnstætt afstöðu manna til annara tekjuaukafrv., því að þeim hefir öllum verið tekið tveim höndum hjer í hv. deild, og það eins, þótt mjög hafi leikið á tveim tungum, hve rjettlát þau væru. Einkanleka virðist mjer fjarri öllum sanni að vilja vísa málinu til samgöngumálanefndar. Sú uppástunga virðist algerlega óþörf, nema ef hún á að skiljast sem vantraust gagnvart fjárhagsnefnd. En jeg gæti hugsað mjer, að fjárhagsnefnd vildi taka málið aftur til íhugunar, og þá að sjálfsögðu taka allar þær bendingar, er fram hafa komið við umr. málsins, til greina.

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) bar bifreiðarnar saman við flóabátana. Jeg hefði síst búist við, að honum, jafnviðsýnum og vitrum manni, gæti komið til hugar að jafna slíkum farartækjum saman. Þess ber að gæta, að styrkur til flóabáta er veittur vegna þess, að gert er ráð fyrir, að þeir fari ferðir, sem svari ekki kostnaði. En veit nokkur til þess, að bifreiðar fari nokkurn tíma ferðir án þess að taka fult endurgjald? Um hin svo kölluðu bifhjól, sem sumir kalla biftíkur, er það að segja, að vart mun nein samgöngubót að þeim, og jeg veit þá ekki, hvað á skilið að vera skattað, ef ekki slík óþarfaáhöld, sem að eins ríkir menn geta leyft sjer að eiga.

Jeg geri ráð fyrir, að vel geti komið til mála, að nefndin vildi íhuga, hvort ekki mætti lækka skattinn, því satt að segja hefi jeg talið hann, og tel, óhæfilega háan. Jeg get ekki fallist á, að skattur á bifreiðum sje að nokkru leyti órjettlátur. Hitt getur verið dálítið vafamál, hversu skatturinn á að vera hár, og vel get jeg á það fallist, að með skatti þessum, sem hjer er ákveðinn, sje alt of langt gengið. Jeg ber ekki brigður á, að bifreiðar skemmi vegi meira en vagnar. Þeir skemma ekki vegina að verulegum mun, nema þar sem blautt er undir.

Jeg vil enda mál mitt á því, að lýsa yfir því, að jeg er algerlega mótfallinn þeirri uppástungu, að málinu sje vísað til samgöngumálanefndar.