31.07.1919
Efri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (3033)

75. mál, bifreiðaskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg tók það fram í háttv. Nd., að þessi skattur sje alt of hár, og er jeg enn á þeirri skoðun. Hins vegar sje jeg ekkert því til fyrirstöðu, að lítill skattur sje lagður á bifreiðar. Það er ekkert principbrot á skattalöggjöfinni, þó að lagt sje á þetta samgöngutæki, því á skipum er einnig skattur, svo sem vitagjald og lestagjald, og auk þess eru þau talin til tíundar.

Jeg játa það, að þessi samgöngutæki eru mjög nauðsynleg, og við því verður ekki gert, þó að þau sjeu misbrúkuð og notuð í margar óþarflegar ferðir. En þar sem víst er, að á þeim hefir græðst mikið fje, þá sje jeg ekkert því til fyrirstöðu, að leggja á þau lágan skatt.

Jeg skal annars ekki deila um þetta, því að jeg þykist sjá, hver forlög muni ætluð frv. En jeg vildi þó mælast til þess, að frv. verði látið ganga til 2. umr., svo að háttv. fjárhagsnefnd fái tækifæri til að athuga það.