05.09.1919
Efri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (3043)

75. mál, bifreiðaskattur

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg þarf ekki að vera fjölorður um frv., en af því að það er komin fram brtt., er lækkar gjaldið, og hugsanlegt er, að hún hafi einhver áhrif á málið, þá vil jeg segja nokkur orð, þótt jeg sje raunar ekki svo smátækur, að jeg samþykki það, sem jeg tel ósanngirni, þótt hver liður lækki um 50 krónur.

Jeg lít svo á, sem þessi skattur sje þungur og komi órjettlátlega niður. Jeg vænti þess, að það komi fastar reglur á ferðir bifreiðanna, þannig að vissar bifreiðar fari fastar ferðir með fastákveðnu fargjaldi, og þá ætti skattur af þeim að vera lægri en hinum. Það kann að vera, að taxti þeirra sje nú nokkuð hár, en stjórnarráðið setti þeim taxta í sumar, og ef því er nokkur alvara um það, þá er hægðarleikur fyrir það að sjá um, að honum sje hlýtt.

Þá finst mjer það ósanngjarnt, að einstakir menn, er hafa bifreiðar til eigin notkunar og selja þær aldrei á leigu, eigi að greiða 100–200 kr. ársskatt fyrir það; mjer finst það vera ranglátur skattur. Og um skatt á bifreiðum, sem selja farmiða, er það ljóst, að skatturinn kemur einvörðungu niður á þeim, er nota þær, og er harla einkennilegt, ef þeir eiga fremur að greiða slíkt vegagjald en aðrir, er ferðast um vegina.

Það var ekki margt nje merkilegt, er hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.), framsm. að nafnbót, tók fram með frv.; eiginlega ekkert, nema hann hafði veitt því athygli, að ef frv. yrði samþ., þá yrðu tekjur ríkissjóðs meiri. En þótt þessi niðurstaða hans beri vott um mikla og djúpsetta skarpskygni, þá ber að líta á það, að skatturinn allur yrði eins og dropi í hafinu, og því munaði lítið um þetta örlitla brot, er kynni að lenda hjá vegunum.