05.09.1919
Efri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (3044)

75. mál, bifreiðaskattur

Eggert Pálsson:

Ef bifreiðar væru óþarfar hjer á landi, þá væri sjálfsagt að skatta þær, en jeg lít svo á, að svo sje ekki, og jeg held, að enginn fari fram á að skatta sjerstaklega sem flutningstæki t. d. flutningsbát, ferju eða hest. — Það er að vísu skattað sem eign lágum skatti, eins og ýmislegt annað lausafje. En sjerstakan skatt hefir engum til hugar komið að leggja á þessa farkosti. Jeg sje því enga ástæðu til þess að skatta þetta flutningstæki sjerstaklega, frekar en annað, nema ef litið væri svo á, sem það væri með öllu óþarft. En það væri mjög rangt að líta svo á, eftir því sem högum er hjer varið.

Í mörgum tilfellum eru bifreiðar mjög hentug flutningstæki, og með hverju ári verður verra og verra að nota hesta til vöru- eða mannflutninga, og stundum illkleift. Það má heita, að það sje ógerningur orðið að koma með hesta til Reykjavíkur, því það er ómögulegt að koma þeim hjer fyrir til hagagöngu eða heygjafar. Það verður að senda með þá í aðrar sveitir í því skyni, á meðan við er staðið, hvort sem það er lengur eða skemur. Og af því, hversu bifreiðarnar eru hentugar, hentugri en áður notuð farartæki, hefir það verið, að vöxtur þeirra og viðgangur hefir orðið svo ör. Þegar um svo þörf flutningstæki er að ræða, er ekki rjett að skattskylda þau með ársskatti, og síst svo háum, sem hjer er farið fram á.

Því hefir verið haldið fram, að bifreiðaeigendur þyldu vel að greiða skattinn. Það er nú svo. Það er eins og menn gæti ekki að því, að skatturinn lendir ekki á þeim, heldur einvörðungu á þeim, sem ferðast með bifreiðunum. Afleiðing þessarar skattálögu yrði vitanlega engin önnur en sú, að taxtinn yrði hækkaður, og bifreiðaeigendur biðu því engan skaða. En mjer finst það óþarfi að gera sjer leik að því að hækka taxtann frá því, sem nú er.

Eins og nú er, verður t. d. sá, er þarf að skreppa austur í Rangárvallasýslu, að greiða í fargjald 50–100 kr., ef hann er svo heppinn, að hann getur náð í samferðamenn, en ef það tekst ekki, verður hann að greiða 250 kr. Mjer sýnist fargjaldið vera nógu hátt, og það væri miklu sæmra fyrir Alþingi að stuðla að því, að fastar bifreiðaferðir kæmust á dag hvern austur í sýslur, þar sem menn gætu fengið farmiða með hæfilegu verði, heldur en að fara að hækka gjaldið fyrir þá, sem þessa leið þurfa að fara, frá því, sem nú er, Sú stefna væri óneitanlega samboðnari þinginu, og í raun rjettri ekki nema sjálfsögð í samanburði við tilkostnað landssjóðs við strandferðirnar, því ekki njóta Árnesingar eða Rangvellingar strandferðanna; það vita allir.

Eins og frv. er, eru ýmsir agnúar á því, er mundu gera það sem lög lítt framkvæmanlegt. Hverjir eiga t. d. að dæma um það, hvort bifreið sje ónýt eða ekki? Á dómur eigandans um það að nægja? Eða ef bifreiðin er ónýt í svip, en verður síðar gert við hana, hvernig á þá að meta málið? Er hún skattfrjáls, ef hún var ónýt þegar skatttakan fór fram, enda þótt hún komi rjett á eftir til fullrar notkunar? Um slíkt eru engin ákvæði. Af þessu mundi frv. verða erfitt til framkvæmda, og hætt við allskonar vafningum og vífilengjum við innheimtuna.

Þegar frv. var til fyrstu umræðu, ljet jeg það í ljós, að jeg gæti ekki felt mig við það, en yrði á móti því. Síðan hefir skatturinn að vísu verið lækkaður um 50 kr. fyrir manninn, úr 150 kr. í 100 kr., en það gerir ekki þann mun, að jeg geti fylgt frv., því jeg tel það bygt á ramskökkum grundvelli. Það væri öðru máli að gegna, ef skatturinn væri að eins greiddur í eitt skifti fyrir öll af hverri bifreið, sem inn væri flutt, eins og hv. þm. Ísaf. (M. T.) tók fram, og sagði að ætti sjer stað í Noregi. Við það gæti jeg miklu fremur felt mig heldur en slíkan árlegan skatt, sem hjer er um að ræða.