05.09.1919
Efri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (3052)

75. mál, bifreiðaskattur

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Ólafsson):

Það eru að eins nokkur atriði, sem jeg gleymdi að svara, er jeg tók til máls í seinna sinn í þessu máli.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) hafði það eftir bændahöfðingjum austur í sýslum, að þeir sæju sjer ekki fært að ráðast í að kaupa bifreiðar til aðdrátta, og skal jeg ekki rengja þann frjettaburð hans.

Þá mintist bæði hann og hv. 1. þm. Rang. (E. P.) á það, að 1. gr. frv. væri svo orðuð, að vöruflutningabifreiðar myndu falla undir hana, þar sem þær væru jafnframt mannflutningabifreiðar. Þetta hygg jeg að sje ekki rjett. — Mannflutningabifreiðar eru þær bifreiðar einar, sem eingöngu eða aðallega eru notaðar til mannflutninga. Vöruflutningabifreiðar verða ekki frekar taldar mannflutningabifreiðar, þótt sæti það, er ætlað er bifreiðarstjóra, sje svo stórt, að annar maður geti setið við hlið hans, en uppskipunarbátar geta talist mannflutningabátar, þótt maður geti setið við hlið ráðrarmannanna á þóftunum.

Ræða hv. 1. þm. Rang. (E. P.) gekk aðallega í þá átt að lýsa, hve afskaplega kostnaðarsamt flutningstæki bifreiðarnar væru, og þótt hann hefði ekki nefnt nema helming af þeim tölum, er hann nefndi, virðist mjer, sem flutningstæki þessi ættu helst ekki að sjást og best væri að útrýma þeim tafarlaust sökum þess, hve dýr flutningur er með þeim.

Hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) mintist á, að nefndin hefði haft mál þetta til meðferðar annaðhvort of stutt eða of lengi. Kvað hann jafnvel afstöðu deildarinnar hafa verið þannig við 1. umr., að sýnilegt hefði verið, að því hefði verið vísað til nefndarinnar í þeim tilgangi einum, að það væri svæft þar.

Jeg álít, að þetta sje ekki rjett. — Af þeim, sem tóku til máls við 1. umr., voru að eins tveir eða þrír menn mótfallnir frv., og þótt þessi hv. deild sje ekki mannfleiri en hún er, eru 2 eða 3 menn þó ekki meiri hl. hennar. — Nefndin taldi það skyldu sína að athuga jafnt þetta mál sem önnur, sem til hennar er vísað, og koma fram með það álit um þau, sem hún telur heppilegast.

Þá mintist sami hv. þm. (K. D.) á „ofsóknir“ í sambandi við þetta frv. Ef skattur sá, sem fjárhagsnefnd hefir lagt til að lagður verði á bifreiðar, er hæfilegur — og það er hann að áliti hennar — er ekki fremur ástæða til að nefna þennan skatt „ofsókn“ en allar aðrar skattaálögur. Annars hefði þessi hv. þm. (K. D.) ekki átt að minnast á, að mál þetta vekti hneyksli í deildinni, því að lakari dæmi mun mega benda á í því efni, ef hv. þm. óskar þess.

Það hefir verið fundið að 2. gr. frv., að hún sje óskýr, og hefi jeg ekki haft tíma til að athuga, meðan á umr. hefir staðið, hvort það hefir við rök að styðjast, og sama er að segja um hinn hv. samnefndarmann minn, sem er sömu skoðunar og jeg um frv. þetta. — Vil jeg því, fyrir hönd meiri hl. fjárhagsnefndar, mælast til þess við hæstv. forseta, að hann taki málið af dagskrá að þessu sinni.