05.09.1919
Efri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (3054)

75. mál, bifreiðaskattur

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg hefi ekki miklu við að bæta það, er jeg tók fram við fyrri hluta þessarar umr.

Það var slegið hjer fram staðhæfingum um tekjur bifreiðanna, og það gerði það að verkum, að hv. þm. Snæf. (H. St.) snerist í málinu, og þykir mjer það merkilegt, að hann skyldi snúast við slíkar Gróusögur. Jeg hefi síðan aflað sjer upplýsinga um þetta atriði og veit, að þær eru ábyggilegar.

Jeg geri ráð fyrir, að þessar 20,000 kr. árstekjur, sem þá var talað um, sjeu brúttótekjur, en það nær ekki nokkurri átt að miða við þær. Það er alveg sama, hvort brúttótekjur eru 100 þús. eða 20 þús. Það er mest um vert, hver útgjöldin eru, og ef útgjöldin eru yfir 100 þús., þá nægja 100 þús. brúttótekjur ekki fyrir útgjöldum. Það mun víst, að 20 þús. kr. tekjur hefir enginn haft; ef til vill hefir einn maður komist nærri því, en þegar litið er á, að hann þarf laun, og þau má ekki ætla minni en 4 þús. kr. á ári, þá kemur þar strax frádráttur, og svo eru skemdir altaf miklar, auk þess sem sumar bifreiðar verða alónýtar eftir fá ár. Vegirnir eru slæmir, og þær skemmast mjög á þeim og þurfa mikla og nákvæma hirðingu.

Einn maður hjer mun eiga fimm bifreiðar, og stýrir hann sjálfur einni þeirra, og hann telur, að um veturinn sje ekki hægt að láta þær ganga, svo hagnaður sje að. Af þessum fimm bifreiðum mun hann hafa haft eina í gangi síðasta vetur, og gerir hann það ekki fyrir hagnaðar sakir, heldur vegna viðskiftamanna sinna; þykir hart að neita þeim alfarið þá um bifreiðar, og græðir það á þeim að sumrinu. Og það er víst, að þeir, sem hafa verið óheppnir, hafa beðið skaða á þeim.

Jeg kom nýlega til Magnúsar Blöndahls stórkaupmanns; hann á flutningabifreið og „privat“-bifreið. Hann hefir haft bifreiðarstjóra, er hefir keypt sjer bifreið og sagt upp starfi sínu; varð hann því að fá sjer annan í hans stað, en sá var svo hygginn að krefjast þess, að bifreiðin væri öll tekin í sundur, og þegar það var gert, kom í ljós, að hún var stórkostlega eyðilögð, af því að hún hafði eigi verið smurð nógu oft og vel. Koparstykki, er kostar um 300 kr., var etið í sundur, og Blöndahl sagði mjer, að bein útgjöld við aðgerðina mundu verða um 1000 kr. Bifreið þessi var nýleg og átti að fara að sækja hey austur í Arnarbælisforir; nú liggur heyið þar og verður að bíða viðgerðarinnar eða annara farartækja. Allir sjá skaðann af því, að láta það rigna þar niður.

Það mun satt vera, að bifreiðarnar fái eins slæm áföll og mótorbátarnir, og skelli þá, er þeir fá, þekkja allir, — auk óbeina skaðans.

Jeg hefi og átt tal um þetta við mann, sem áður var bifreiðarstjóri, en selur nú alt, er að þeim lýtur, og hann tjáði mjer, að meira en helmingur allra bifreiðaeigenda mundi ekkert græða á þeim. Þetta veit hann vel, því að hann útvegar þeim oft stykki þau, er bila. Þessar upplýsingar tel jeg sannar og rjettar, og miklu betra fyrir hv. þm. að byggja á þeim en sögusögnum þeim, er hv. þm. Snæf. (H. St.) var að flytja hjer.

Jeg vona, að þeir hv. þm., sem hafa verið á móti frv., eða hafa gefið það í skyn, verði það áfram, því frv. er síst aðgengilegra en það var áður.