28.07.1919
Efri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

33. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vildi skjóta því til hv. frsm. (G.Ó.), að hækkunin á tóbakstollinum muni nema fyrir landssjóð einum 116 þús. kr., og er þó varlega áætlað. Hækkunin verður að öllum líkindum meiri. Satt að segja get jeg ekki fundið, að frsm. hafi haft tilefni til að beina þeim orðum að mjer, að jeg teldi vera orðið fullhátt í ríkissjóði. Framsm. (G. Ó.) mintist á, að jeg væri á móti brenslusprittstollinum. Jeg verð að halda fast við þá skoðun mína, að óviðeigandi sje að leggja háan toll á vöru, sem fátæklingar nota jafnalment, og það af brýnustu nauðsyn. Aftur er jeg hálfhissa á, hvað menn tala með mikilli andakt um tóbakið. Það hefir jafnvel verið sagt, að menn vildu heldur vera svangir en tóbakslausir. (K. D.: Og svo er það). Það er þó vitanlegt, að án tóbaks geta menn lifað, og það góðu lífi, en án matar alls ekki. Svo það þarf ekki að eyða orðum að því, hvort sje betra, að vera án matar eða tóbaks. Hv. þm. Snæf. (H. St.) bjóst við því, að tóbakstollshækkunin gæti orðið til þess að fátæklingar hættu að neyta tóbaks, en hinir ríku mundu halda áfram. Það væri óskandi, að hann hefði þessar afleiðingar fyrir fátæklingana. Þeim mundi líða betur eftir en áður. Jeg er satt að segja hissa á, að lækni skuli þykja tóbakið svona nauðsynlegt.

Þá sagði hv. þm. Snæf. (H. St.), að sjer kæmi kynlega fyrir sjónir, að skattar á víni, sem notað er til meðala, skuli vera auknir. Fyrir það fyrsta, eins og jeg mun hafa tekið fram hjer áður, þá er lítið um það, að efnaminni menn brúki vín til lækninga, en í öðru lagi er óhugsandi, að alt þetta vín, sem flutt er inn undir yfirskini lækninganna, fari til þeirra hluta.

Það hljóta að vera ýmsir alheilbrigðir, sem fá töluvert vín til drykkjar. Jeg efast um, að tollur yrði ýkjamikill af því víni, sem brýn nauðsyn er á til lækninga.

Jeg vona, að hv. deild leyfi frv. að ganga fram óbreyttu. Einkum er það von mín, að ekki verði hreyft við tóbakstollsákvæðunum. Það er algerlega óþarfi að halda langar ræður um, að ómögulegt sje að vera án tóbaks. Menn mundu hafa gott af að venjast af því. Þetta tala jeg af eigin reynslu. Mjer hefir altaf liðið betur, þegar jeg hefi hætt að reykja. (E. P.: En hví var hæstv. fjármálaráðherra þá að byrja aftur?). Mannlegur breyskleiki, prestur minn!