18.09.1919
Neðri deild: 67. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (3070)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Jeg skal nú ekki tefja tímann lengi að þessu sinni. Mjer láðist við fyrri umr. að taka ljósar fram en gert er í nál. mínu, að frv., eins og það liggur fyrir, er sumpart ónákvæmt um það, sem þurfti að vera tekið fram, og sumpart svo óljóst, að ilt er að skilja og framkvæma; gallar, sem að sjálfsögðu verður að lagfæra, ef frv. á að ganga fram. Jeg álít frv. hættulegt vegna þess valds, sem lagt er í hendur ábyrgðarlauss vatnastjóra. Hann getur komið því til leiðar, að sjerleyfisgjaldið geti orðið ekkert, því það veltur á till. hans, hvort það verður fært upp eða ekki að 25 árunum fyrstu loknum, og jafnvel getur hann ráðið því, að gjaldið verði felt með öllu niður, ef þá ekki áskilið sjálfum sjer alt gjaldið. Þetta þarf að lagfæra, ef á að samþ. svona frv.

Í öðru lagi er það vöntun í frv., að það gerir ekki nokkursstaðar ráð fyrir heilbrigðisráðstöfunum vegna innflutnings eða hjá verkalýðnum eða hjeruðum umhverfis iðjuverin. Þetta var þó sjálfsögð ráðstöfun, því að ekki er það sjaldgæft, að fólk með vafasamri heilsu og siðferði sæki að þessum iðjuhverfingum. Einmitt á þessu sviði hafa Norðmenn gætt sjerstakrar varúðar. Enn fremur vantar í þetta frv. trygginguna fyrir því, að sjerleyfishafi skuli sjá verkamönnum sínum og skylduliði þeirra fyrir fræðslu, sem og að hann sjái verkalýðnum fyrir þeim bókakosti, er sje við hans hæfi, og yfirleitt hlúi svo að fólkinu andlega og líkamlega, að ekki verði það að hreinum trantaralýð. Fleira skal jeg ekki telja af þessu tæi, þótt margt mætti telja, sem athuga þarf við frv.

Jeg ætlaði að víkja dálítið að háttv. þm. Dala. (B. J.), en það er altaf svo, að þegar hann er búinn að tala, þá flýr hann úr deildinni. Hann talaði í hermdarrómi, og er það að vonum, því að ekki hefir byrlega blásið fyrir hans frægu — nei — alræmdu vatnsránskenningu. Hann er víst orðinn fremur vonlítill um sigur kenningarinnar og hræddur um, að þetta „bjargráð“ hans við ríkið ætli ekki að duga til að fá honum bjargvættarnafnið, og kemur honum þá í hug að nota það eins og skopnafn við mig. Þetta er reyndar afsakanleg afbrýðissemi. Hann hafði gert sjer svo háar hugmyndir um þann glæsilega sigur, sem vatnsránsuppfundning hans mundi vinna, og frægðina, sem hann mundi af hljóta, er ránsfengurinn frá landeigendunum væri kominn í hendur þessa alvitra vatnastjóra, að vonbrigðin hlutu að verða afskapleg, þegar þingdeildin og stjórnin marghrasað á móti. Jeg skil vel, að skapið hefir úfnað óvenjulega hjá háttv. þm., enda eru þessi umskifti eigi ólík því, að fara úr glaðasólskini inn í ramma eldhúspælu.

Atkvæðagreiðslan í fyrradag um ránstill. um Sogið bendir óneitanlega á það, að fleiri en jeg líti fremur en hitt smáum augum á kenningar hv. þm. Dala. (B. J.) og röksemdir hans, og mun hann þurfa víða við að koma, ef hann á að jafna um þá alla. En það er ekki nauðsynlegt að ræða þetta hjer, það liggur ekki fyrir. Hitt er verkefnið að þessu sinni, að komast að nýtilegri niðurstöðu um vatnsorkusjerleyfi, og þarf til þess annað fremur en skæting háttv. þm. (B. J.). Hann er í raun og veru oftast utan við efnið þegar að þessu kemur, með óðagoti, eins og hann hefði gleypt brunnklukku úr illa fenginni lækjarsprænu, og heitast við þá, sem ekki vilja fallast á eignarrjett ríkisins á vatni í löndum einstakra manna. Hv. þm. (B. J.) læst muni birta á prenti með viðeigandi formála nöfn okkar allra og lætur á sjer skilja, að lítill muni vegur okkar verða, er slík skýrsla birtist. Hann dregur ekki dulur á, að við munum vera talsmenn útlendra fjárprangara, líklega leigðir eða keyptir, eins og hann svo oft hefir dróttað að mjer, að jeg væri.

Reyndar býst jeg við því, að hv. þm. (B. J.) veiti erfitt að telja almenningi trú um, að við sjeum þeir landráðamenn, sem hann vill telja okkur, en jeg þykist vita, að hann sje búinn að endurtaka þessi ósannindi svo oft fyrir sjálfum sjer, að sjálfur trúi hann þeim. En undarlegur er sá fitonsandi hjá hv. þm. (B. J.), að reiðast þeim, sem brostu að niðurstöðu atkvgr. í fyrradag og röksemdum hans fyrir vatnsráninu.

Háttv. þm. (B. J.) telur skipun vatnastjóra eina trygga ráðið til að verjast útlendu hættunni af vatnsiðju. Telur hann stjórninni eigi trúandi fyrir samningu sjerleyfis, en einvöldum og ábyrgðarlausum vatnastjóranum trúir hann fyrir öllum vandanum; um samviskusemi þess manns þarf þá ekki að efast.

En af því að hv. þm. (B. J.) hefir verið svo ör á getsökum við mig, mætti jeg líklega varpa fram þeirri spurningu, hvort einvaldi og ábyrgðarlausi vatnastjórinn, sem hv. þm. berst fyrir, muni ekki geta með lagi dorgað útúr leyfisumsækjendunum dálitlar sárabætur handa þeim, sem hafa strítt svo mikið fyrir hann og af einskærri föðurlandsást(!) fórnað áliti sínu fyrir vatnsránskenninguna. Hafi nokkur maður tækifæri til að gleðja vini sína, þá ætti þessi konunglegi vatnamálaráðherra að hafa það.

Jeg býst reyndar við, að þetta vatnamál sje að mestu í strand komið að þessu sinni, og geti háttv. þm. Dala. (B. J.) því varpað af sjer áhyggjum vegna vatnastjórans að sinni. Hv. þm. (B. J.) hefir átt sinn mikla þátt og ógleymanlegan í að spjalla þetta mál frá upphafi og spilla góðum árangri með sinni fáránlegu vatnsránskenningu.

Af því að nú er orðið of skuggsýnt til að sjá, hvað jeg hefi skrifað hjá mjer af vjefregnum hv. þm. Dala. (B. J.) í síðustu ræðu hans, skal jeg láta hjer út talað.