19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í C-deild Alþingistíðinda. (3072)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Sigurður Sigurðsson:

Háttv. þm. Dala. (B. J.) var í vondu skapi í gær. Hann ljet gremju sína bitna á mjer og brtt. mínum, og öðrum þeim, sem ekki geta litið eins ranghverfum augum á þetta mál og hann. Hann hjelt eina af þessum alþektu stóryrðaræðum sínum, sem eiga að verða til þess, að hefja sjálfan hann til skýjanna og gera hann að þjóðhetju og stórmenni í augum þeirra, sem ekki þekkja hann. En hann villir ekki heimildir á sjer fyrir þeim, sem þekkja hann. Og því skil jeg ekki, hvers vegna hann heldur slíka ræðu í þessari háttv. deild, úr því á að hætta að prenta þingræður manna.

Háttv. þm. (B. J.) vildi telja mönnum trú um, að jeg hefði eingöngu átt við útlenda menn eða fjelög, þegar jeg talaði um væntanlega sjerleyfishafa, og hann bjó til þennan útúrsnúning til þess að fá tækifæri til að drótta því að mjer, að jeg ræki erindi útlendra auðfjelaga. Jeg get vel hugsað mjer það, að innlend fjelög eða einstakir menn sæki um þetta sjerleyfi. En jeg lagði áherslu á það, að lögin væru ekki gerð svo úr garði, að þau útilokuðu einstaka menn eða fjelög, er vildu sækja um slík sjerleyfi, hvort sem þau væru útlend eða innlend.

Þá kem jeg að lífakkeri hv. þm. (B. J.), vatnastjóra. Margt hefir verið um hann rætt, og þarf jeg ekki að bæta miklu við, en jeg tel hann viðsjárverðan. Hann getur orðið þröskuldur í vegi þess, að leyfi verði veitt. En það er ekki meining laganna að útiloka slíkt með öllu. Hann getur líka orðið versti fossaprangarinn, sem til hefir verið. Hann á hægra með það eftir frv. en nokkur annar.

Háttv. þm. (B. J.) spurði oft, í hvers þágu lengja ætti sjerleyfistímann úr 55 árum í 65 ár.

Ef þetta gæti stutt að því, að einhver sækti um leyfi og byrjaði virkjun, þá er lenging tímans í landsins þágu. Enginn hefir prjedikað meir um þann miljónagróða, sem af stóriðju stafaði, en háttv. þm. (B. J.). Ef gróðinn yrði svo mikill, og hver sem hann yrði, þá yrði landið hans aðnjótandi á margan hátt. Ef þessi iðnaður er svo arðvænn, sem hv. þm. Dala. (B. J.) vill láta í veðri vaka, þá er illa gert að útiloka hann. Það er ekki í þágu landsins. Fróðum mönnum kemur saman um, að 55 ár muni of stuttur tími til þess, að um leyfi verði sótt, og því er það í landsins þágu fyrst og fremst að lengja hann.

Jeg á bágt með að skilja alt framferði háttv. þm. (B. J.) í þessu máli. Ef hann hefði komið með till. í þá átt, að landið byrjaði sjálft á vatnsvirkjun, þá hefði jeg getað skilið það, og við því væri ekkert að segja. En hver sem starfrækir fossana, hvort heldur landið, innlend eða útlend fjelög eða menn, hver sem það gerir, kemst ekki hjá því að fá fje annarsstaðar frá til stofnunar og rekstrar, og þá vitanlega erlent fje.

Undanþágan, sem heimiluð er í brtt. minni við 27. gr. frv., er mjög takmörkuð, sem að eins á að beita, ef nauðsyn ber til. Það verður vitanlega að vera á valdi stjórnarinnar í hvert sinn, hvort hún vill veita þessa undanþágu eða ekki. Jeg er ekki svo svartsýnn um framtíðarstjórn þessa lands, að jeg ekki treysti stjórninni til allrar varhygðar í þessu efni. Jeg treysti jafnvel í þessu máli stjórn, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) ætti sæti í.

Svo jeg víki aftur að leyfistímanum, þá hefir því verið haldið fram af mönnum, sem þetta mál hafa kynt sjer, að enginn muni sækja um sjerleyfi með svona takmörkuðum leyfistíma. Það borgi sig ekki nema leyfistími sje langur. Í því sambandi hafa verið nefnd 75 og upp í 99 ár. Jeg vildi fara þarna meðalveg og hafa tímann 65 ár, og sje jeg ekki, að slíkt geti valdið hneykslun. Jeg vissi það þegar í byrjun, að háttv. þm. Dala. (B. J.) mundi hneykslast, en jeg tek mjer það ekki nærri. Sá góði maður verður að fyrirgefa, þó jeg taki hann ekki til greina í þessu máli, því hann er á móti fossaiðnaði yfirleitt, af einhverjum misskildum þjóðernisrembingi. Skemtilegt væri, að þessi hv. þm. (B. J.) kæmi til dyranna eins og hann er klæddur og bæri fram frv. um að banna alla vatnsorkuiðju í þessa átt. En hitt er leiðinlegra, að berjast fyrir sjerleyfislögum, sem eru grímuklædd bannlög. Hjer ber á milli. Jeg vil ekki útiloka, en það vill háttv. þm. Hann var að reyna að festa á mjer „opingáttar“-nafn í þessu sambandi, af því jeg vil ekki loka landinu fyrir erlendu fje og áhrifum. Jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á því, að hv. þm. (B. J.) sje sá afturhaldsskrjóður, að vilja hlaða kínverskum múr um landið og gera allar framkvæmdir ómögulegar. Jeg sje ekki hvað í húfi er, þó leyft verði að virkja eitt orkuver. En jeg vil gæta þar allrar varúðar, engu síður en aðrir, og láta leyfið til þeirrar virkjunar vera takmarkað.

En hitt er víst, að við þurfum meira ljós, meiri hita og meiri áburð, en alt þetta getum við fengið, ef fossaiðnaður rís hjer upp. Kol eru dýr, og munu verða það áfram. Mórinn er á þrotum, og steinolían er í höndum stórgróðahrings, þar sem við eigum undir högg að sækja með verð og birgðir. Áburðarskorturinn stendur í vegi fyrir, að við getum ráðist í almenn og stór jarðyrkjufyrirtæki. Hvað ætti þá að vera móti því, að vjer ljetum fossana vinna handa okkur ljós og hita, og vatnsorkuna greina sundur efni loftsins og búa svo til áburð úr köfnunarefni þess. Það má nú vera, að ef við tökum að reka fossaiðnað, og hagnýtum til þess t. d. einar 100,000 hestorkur af vatnsaflinu, þá þurfum við að fá eitthvað af útlendum verkalýð. En við það er jeg ekki jafnhræddur háttv. þm. Dala. (B. J.). Þungamiðjan hjá honum í öllum afskiftum hans af fossamálinu er ótti hans um, að við glötum tungu og þjóðerni, ef nokkuð að mun kemur hingað af útlendingum. Hv. þm. (B. J.) benti mjer á, að fossanefndin hefði athugað þetta atriði málsins vendilega og hefði komist að þeirri niðurstöðu, að hjer gæti verið mikil hætta á ferðum. Það má vera að svo sje, ef mörg þúsund manna flykkjast hjer inn á skömmum tíma. En fyrir því þarf alls ekki að gera ráð, þótt tekið yrði að virkja Sogsfossana. Til þess starfa mundi varla þurfa nema fá hundruð manna í viðbót við mannafla hjer heima. Og að líkindum yrði það einkum einhleypir menn er kæmu, og flestir mundu hverfa heim til sín aftur, þegar búið væri að koma á fót orkuverinu. Þegar síminn var lagður um landið hjer á árunum, unnu að því nokkur hundruð Norðmanna. En þegar því starfi var lokið, fóru þeir flestir heim til sín aftur. Hefi jeg ekki orðið var við neinar vondar afleiðingar af komu þessara manna, hvorki fyrir þjóðerni okkar nje tungu. Þó að fossanefndin hafi unnið mikið, þá hefir hún ekki unnið vel að sama skapi, nje heldur gengið svo frá þessu vandamáli, að vel sje við unandi. Hún hefir stofnað til þess glundroða í því, sem ekki þektist áður. Og hefi jeg það fyrir satt, að hv. þm. Dala. (B. J.) eigi sinn drjúga þátt í því.

Jeg lít nú svo á, að þjóðerni okkar sje svo sterkt og þroskamikið, að það verði því ekki að aldurtila, þótt við fáum að sjá framan í nokkur hundruð útlendinga. Jeg veit, að hv. þm. (B. J.) trúir því ekki sjálfur. Hann gerir hjer úlfalda úr mýflugu. Þegar um stóriðnað er að ræða, þá er ekki sama, hvernig hann er rekinn. Það hefir enginn talað um það hjer eða haldið því fram, að hjer ætti að fara að virkja mörg orkuver í einu, með mörgum þúsundum erlendra verkamanna. Flestir hafa talið það heppilegast að byrja á því að koma upp að eins einu orkuveri, til þess að útvega Reykjavík, Hafnarfirði og sveitunum austanfjalls ljós og hita, áburð og afl til smáiðnaðarrekstrar. Þetta er alt og sumt. Hv. þm. (B. J.) tók það fram í gær, að ef slíkur iðnaður væri settur á fót, þá mundi hann draga fólk frá bændum. En hitt veifið gerir hv. þm. (B. J.) ráð fyrir, að útlendingar mundu streyma hópum saman inn í landið til að stunda fossaiðnaðinn. Verði hann sannspár um það, þá mega bændur vera rólegir og óhræddir við að missa fólk frá sjer í þessa atvinnu. Það bar annars ekki á þessum ótta hjá hv. þm. (B. J.), þegar hann vildi láta landið, hjer um árið, taka 20 miljóna kr. lán til að kaupa fossa og koma upp fossaiðnaði. Hv. þm. (B. J.) gerir mikið úr því, hvílík trygging væri í því, að kosningar færu fram, áður en gert væri út um sjerleyfisbeiðni til fossavirkjunar og leyfið væri veitt. En sje svo, eins og kom fram hjá hv. þm. (B. J.), að allir, og jafnvel bændur, ljetu kaupa sig fyrir fje til málafylgis, þá getur hann ekki gert mikið úr þeirri tryggingu, sem fólgin eigi að vera í nýjum kosningum, eða í þessum margbrotna undirbúningi sínum undir sjerleyfisveitinguna. Því ef hægt er að kaupa menn hópum saman til fylgis, þá má vænta, að til þess verði stofnað af þeim, er að leyfisumsókninni standa. Og þá ekki ólíklegt, að umsækjendur leyfis geti þokað kosningunum sjer í vil. Og hvað verður þá úr tryggingunni, sem þær eiga að veita landinu.

Hv. þm. (B. J.) þótti það illa farið, ef frv. þetta yrði ekki afgreitt frá þinginu í ár. En benda vil jeg honum á, að ef engin sjerleyfislög eru til, þá verða engin sjerleyfi heldur veitt, og held jeg, að honum þætti það vel farið. Hv. þm. (B. J.) hjelt, að sjerleyfislög mundu draga úr fossabraskinu. Það fer nú eftir því, hvernig lögin eru. En vera má þó, að það gerði það í svip. En sannleikurinn er sá, að þegar fór að kvísast frá fossanefndinni, að hún mundi hafa einhverjar sjerkreddur um eignarrjett á vatni, þá varð það nóg til þess að ýta undir fossabraskið. Það hefir aldrei verið meira um fossabrask en einmitt á meðan fossanefndin sat að störfum. Hv. þm. (B. J.) gat þess, að fossanefndin hefði farið fram á við stjórnina að hefta fossabraskið, en hún ekki sint því. Það tel jeg illa farið. En hvers vegna flutti hv. þm. (B. J.) ekki frv. um þetta á síðasta þingi? Honum var það innan handar, ef hann hefði viljað og hann þá talið þess þörf.

Það þýðir annars lítið að vera að rökræða þetta mál við hv. þm. (B. J.). Það er orðið honum of mikið kappsmál til þess. Það lítur svo út, að jafnskjótt sem minst er á vatnamálið þá fari skap hans úr lagi, og er það leitt mjög, að svo skuli vera. Annars býst jeg við, að geðvonska hans í gærkveldi hafi stafað að einhverju leyti af því, að hann hafi verið nýbúinn að lesa pólitískt blað eitt hjer í bænum, sem honum kvað ekki vera sjerlega vel við, og sjeð þar minst á sig. Hafi hann svo látið vonskuna yfir því bitna á mjer. — En hvað sem því líður, þá tel jeg það vel farið, að flett sje ofan af því hjá hv. þm. (B. J.), sem miður fer, alveg eins og hjá hverjum öðrum, og er undarlegt, að hann skuli kippa sjer upp við það. Jeg get varla fengið af mjer að svara hrakspám hv. þm. (B. J.) um, að stórbændur austur í Árnessýslu og víðar mundu láta kaupa sig upp af jörðum sínum og gerast leiguþjónar og kúasmalar útlendinga. (B. J.: Ekki rjett hermt). Þetta situr því ver á hv. þm. (B. J.), sem hann þykist vilja halda uppi heiðri íslenskra bænda og íslenskrar alþjóðar, þótt sumum finnist honum þó að vísu einatt kippa í kyn til lýðskrumara. Eftir þessar getsakir ættu bændur að geta dæmt um, hve öruggan skjaldsvein þeir eiga, þar sem hv. þm. (B. J.) er.

Í gær dró hv. þm. (B. J.) engar dulur á, að þeir, sem eigi væru á hans skoðun um þetta vatnamál, vildu gera lög þessi aðgengileg fyrir þá, sem ætla sjer að sækja um sjerleyfi til að reka hjer fossaiðnað, og að þeir hinu sömu væru í vasa fossabraskara. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. (B. J.) hafi beint þessu til mín, ekki síður en annara, sem ekki eru jábræður hv. þm. (B. J.) í máli þessu. Háttv. þm. (B. J.) getur, ef honum þóknast, ferðast um alt landið og prjedikað fyrir lýðnum, leynt og ljóst, að jeg sje leiguþý fossabraskara, eða fossabraskari sjálfur. Það er lýgi, sem enginn trúir. Og hver er svo þessi maður, sem ber slíkt upp á aðra? Það er maðurinn, sem öllum öðrum fremur hefir notað sjer þingmannsstöðuna til þess að skara eld að sinni köku. Það er maðurinn, sem hefir látið stofna allsendis óþarft embætti handa sjer til lífsframfæris. Þessi maður talar um, að aðrir láti kaupa sig. Ef það er satt, sem sagt er, að árstekjur hans nemi yfir 20000 kr., þá er hjer maður, sem ekki klígjar við fje. — Og mikið af þessu fje þiggur hann af dönsku auðmannafjelagi, sem rekur atvinnu hjer á landi. (B. J.: Það er best, að hv. þm. (S. S.) skýri frá, við hvað hann á). Jeg á við Íslandsbanka. Ofan á alt þetta hefir hv. þm. (B. J.), hollvinur Dana, látið dönsku stjórnina prýða sig með dennebrogskrossi. Þetta er honum líkt, því að hann hefir aldrei verið, og verður aldrei, annað en pólitískur loddari.