19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (3073)

157. mál, vatnsorkusérleyfi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal þegar taka það fram, að jeg á, að svo stöddu, bágt með að segja nokkuð ákveðið í þessu máli. Jeg hafði að vísu snemma á þingtímanum sjeð fyrri hl. álits fossanefndar og frv. þau, sem borin voru fram af hennar hálfu, og er þar sjálfsagt mikinn fróðleik að finna. En jeg hafði geymt mjer að athuga grandgæfilega málið, þangað til niðurlagið af áliti meiri hl. fossanefndarar væri komið fram. Þessi síðari hluti er nú að vísu fyrir skömmu kominn; en síðan hefir verið svo mikið að gera, að hlýða á ræður — þarfar og óþarfar — að jeg hefi ekki haft tíma til að athuga frv. vandlega, og því ekki getað til fullnustu áttað sig á einstökum atriðum frv. þessa. Má vera, að aðrir hv. þingdm. hafi síðan 12. þ. m. getað kynt sjer það svo, að þeir treysti sjer til að dæma um það og taka afstöðu til þess.

Þetta segi jeg til þess að skýra hv. deild frá því, að hún má ekki búast við, að jeg fari langt út í málið. Jeg ætla að eins að leyfa mjer að beina enni fyrirspurn til hv. frsm. (G. Sv.), út af einni frvgr., sem töluvert hefir verið talað um, og líklega að einhverju leyti verið misskilin; jeg á þar við 27. grein.

Mjer skilst, að það sje augljóst, að ef ákvæði eru um það, hverjir megi leggja fje í fyrirtæki, þá sje og eðlilegt og sjálfsagt, að það sje trygt, að það komist ekki umsvifalaust á annara hendur, þegar um innlent fje er að ræða. En jeg vildi spyrja, ef það er hugsanlegt, að útlent fjelag fengi sjerleyfi hjer, á þá að fylgja sömu reglum um hið útlenda fje, og má ekki selja þau hlutabrjef eða eignaskírteini eða afhenda nema hjer á landi og eftir ákvæðum 27. gr.? Það sýnist nefnilega eðlilegt, að ef fjeð er útlent, þá megi það halda áfram að vera það, þó með eftirliti; enda er svo um mælt í 38. gr., þar sem um sjerleyfi til útlendra manna er að ræða, að farið skuli eftir fyrirmælum 3. kafla frv., og þar á meðal 27. gr., „að svo miklu leyti, sem við getur átt.“ Nú vildi jeg fá að vita, hvort þetta mundi geta orðið að samningamáli, þegar leyfið er veitt. Ef sá skilningur yrði lagður í þetta, má vera, að eitthvert útlent fjelag bæði um leyfi til fossavirkjunar hjer á landi. En ef það er útilokað, að útlendingar, sem kynnu að leggja fje í fossafyrirtæki hjer á landi, megi selja hlutabrjef sín á útlendum markaði, hvernig sem á stendur, þá þarf víst ekki að gera ráð fyrir, að þeir sæki um nokkurt leyfi hjer.

Mjer sýnist annars, að það muni verða örðugt að átta sig á sjerleyfislögum, nema menn sjeu áður búnir að gera upp með sjer margt annað, sem um er deilt. Mjer finst t. d., að stjórnin verði að gera upp með sjer, áður en hún tekur ákveðna afstöðu í málinu, hvaða rjett ríkið hafi yfir vatni í landinu. Jeg sje líka, að nefndin í fossamálinu hefir viljað hafa þessa aðferð, og því skil jeg ekki, hví hv. þm. Dala. (B. J.) er nú svo æstur og ákafur, að berja þetta frv. í gegn.

Þá skal jeg minnast lítið eitt á vatnastjórann, sem háttv. samvinnunefnd vill að skipaður sje, og vatnastjórn meiri hl. milliþinganefndarinnar. Það er harla mikill munur á þessu tvennu, hvort sett er þriggja manna nefnd stjórninni til aðstoðar og ráðuneytis í vatnamálum, eða að einum manni, með alræðisvaldi, sje falin öll umsjón vatnamála, og hann í raun rjettri settur yfir landsstjórnina í þeim málum. Það mun heldur varla þörf á þessum vatnastjóra, þar sem ráðuneytið á hvort sem er ekki að hafa síðasta orðið eða úrskurðarvald, þegar um öll stærri vatnsorkusjerleyfi er að ræða, heldur á það að koma undir þing, um veiting eða synjun slíkra sjerleyfa. Jeg sje ekki betur en að þessi eins manns stjórn sje ófær; en við þriggja manna stjórn vatnamálanna gæti jeg felt mig, eins og gert er ráð fyrir henni í frv. fossanefndar. Kostnaðarmunurinn yrði lítill, þar sem þar er gert ráð fyrir einum formanni með fullum launum og tveimur öðrum með mjög litlum launum. Í mínum augum er það dálítið broslegt, að þar sem samvinnunefndin gerir sjerleyfisskilyrðin svo ströng, að varla má gera ráð fyrir, að nokkur útlendingur sæki um slíkt leyfi, þá hefir hún eigi að síður tekið það upp úr frv. minni hl., að tvö þing skuli þurfa að samþ. öll meiri háttar sjerleyfi. Á þann hátt þarf leyfisbeiðandi að bíða alt að 3–4 árum eftir því að fá vissu um, hvort leyfið muni fást eða ekki, og verður það síst til að ýta undir menn til að sækja um leyfi þessi. Þetta er spaugilegt meðal annars af því, að eitt þing getur ekki bundið annað, nema stjórnarskrárþing sje. Ef endilega ætti að halda þessu, þá þyrfti að bæta ákvæði um það inn í stjórnarskrána. Þetta er að vísu aukaatriði. Aðalatriðið fyrir mjer er, að mjer sýnist ekki hægt fyrir þingið að ganga frá neinum sjerleyfislögum, nema ákveðið hafi verið áður um vatnsrjettindin, hver þau eigi að hafa. Ef niðurstaðan verður sú, að ríkið eigi vatnsrjettindin, þá verður að orða sjerleyfislögin öðruvísi en ef þau eru eign einstaklinga.

Fyrir mjer stendur málið þannig, að þingið sje skyldugt til að gera út um rjettarspurninguna, áður en það samþ. nokkur sjerleyfislög.

En hjer þýðir ekki að vera með neina útúrdúra. Og þetta tal er með öllu þýðingarlaust. Það er ekki til annars en að eyða tímanum í óþarfahjal, og það þeim tíma, sem nota hefði mátt annars í þarfir málsins.

En því miður hefir þetta mál farið í mola, og lítur því ekki út fyrir annað en að þingið verði að skilja við það hálfkarrað, ef ekki verður úr annað verra.