28.07.1919
Efri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

33. mál, tollalög

Halldór Steinsson:

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hjelt því fram, að mikill meiri hluti víns, sem flutt væri inn í landið til lyfja, væri ekki notað á löglegan hátt. Jeg vil segja, að þessi árás á stjórnina fyrir að láta brjóta bannlögin komi úr hörðustu átt. Auðvitað er það landsstjórnin, sem á að gæta bannlaganna, sem annara laga. Það situr því síst á henni að vera að koma hjer á þingi með getsakir um brot á lögum, sem hún samkvæmt embættisskyldu sinni á að sjá um að sjeu haldin. Fjármálaráðh. (S. E.) hefir líklega ætlað að skjóta þessari ör til læknastjettarinnar, en hún hitti þó stjórnina og hann sjálfan.