12.07.1919
Efri deild: 7. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (3088)

46. mál, hafnarlög fyrir Ísafjörð

Flm. (Magnús Torfason):

Frv. þetta er gamall kunningi frá því á þinginu 1917. Hv. deild samþykti það þá einróma, svo jeg þykist ekki þurfa að fara um það mörgum orðum. Jeg vil að eins geta þess, að frv. var líka samþ. einróma í Nd., við tvær fyrri umræðurnar, eftir að sjávarútvegsnefnd hafði veitt því stuðning sinn. En við 3. umr. var það drepið, án þess að nokkur þingdm. mælti því í gegn. Jeg skal ekki vera fjölorður um þetta athæfi, en um það mundu allir hv. þingdeildarbræður mínir vera mjer sammála, að hjer hafi ekki verið farið sjerlega þinglega að. Og þá sjerstaklega vegna þess, að hjer er um lög að ræða, sem áttu að verða nauðsynleg undirstaða meðferðar á hafnarmálum í einum helsta kaupstað landsins. Slík lög sem þessi hafa ekki einungis aðrir kaupstaðir fengið afgreidd af þinginu, heldur og ýms minni kauptún.

Jeg treysti því fyllilega, að frv. fái jafngóðan byr í hv. deild og áður. Legg svo til, að því verði vísað til sjávarútvegsnefndar að umr. lokinni.