28.07.1919
Efri deild: 16. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

33. mál, tollalög

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er sannleikur, sem er á allra vitorði, að bannlögin eru brotin. Jeg hefi ekki tekið að mjer stjórn þessa lands með því skilyrði, að hætta að segja sannleikann. En ef jeg væri deigur við að segja það, að bannlögin væru brotin, og það úr ráðherrastólnum, þá væri jeg farinn að sniðganga sannleikann allmikið. Mjer er það mikið óánægju efni að þurfa að segja þetta, en örðugt er það fyrir stjórnina að varna því, að lög sjeu brotin, enda batnar ekki við það, þó ekki sje tekið á hlutunum eins og þeir eru. En vitanlega bendir þetta alt á, að skarpara eftirlit þarf að hafa með bannlögunum.