31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (3105)

72. mál, hundaskattur

Einar Arnórsson:

Þetta mál er ekki þannig vaxið, að það skifti bæjarsjóði miklu, hvort gjaldið er 50 eða 100 kr. En það er ýmislegt annað í því athugavert.

Háttv. fjárhagsnefnd er mjög undarleg, og heilastarfsemi hennar lítt skiljanleg.

Hún er með því að margfalda toll á ýmsum nauðsynjavörum. Hún er með vörutolli, stimpilgjaldi, sem er almennur viðskiftatollur, og hún er með tolli á þrifnaðarvöru, svo sem hárvatni. Þá er hún líka með tolli á suðuvínanda, sem hún veit þó að alment er notaður til eldsneytis.

Þetta alt vill hún tolla hátt.

Eitt dæmi má taka enn. Hún vill tolla þá, sem ferðast á bifreið, því auðvitað lendir sá skattur ekki á bifreiðaeigendum.

Þetta alt gerir hún án þess að depla auga.

En þegar um óþarfa hunda er að ræða, þá má ekki fara fram úr 50 kr., af því að það á að svara til 10 kr. 1890.

Það getur vel verið, að sá samanburður sje rjettur.

En þess ber að gæta, að hjer er um „luxus“-skatt að ræða, sem miðar að því að útrýma óþarfaskepnum, sem eru til óþrifa og leiðinda og ef til vill sýkja okkar góða hundakyn.

Mig furðar stórlega á því, að hv. frsm. (E. Árna.), sem líka er flm. frv., skyldi víkja frá algerlega rjettu máli fyrir lokleysur nefndarinnar.

Tollurinn var síst of hár; hann hefði þvert á móti átt að vera miklu hærri en frv. tekur til.

Það eru ekki aðallega íslenskir hundar, sem hjer eru til óþarfa, heldur kaupstaðarhundarnir. Og þeir eru til lítilla þrifa. Þeir ata út götur, gelta að fólki og glepsa í menn.

Og þar sem allri reglu og hirðingu er ábótavant, þá kemur það oft fyrir, að þeir gelta og spangóla fram á nætur og halda vöku bæði fyrir veikum mönnum og heilbrigðum.

En þessi kvikindi má ekki tolla of hátt, og á þeim hygst háttv. fjárhagsnefnd að „brilliera“ í sanngirni. Hún hefir þó ekki gert það fyr á þessu þingi. Jeg vil því eindregið leggja það til, að brtt. nefndarinnar verði feld, en frv. samþ. óbreytt. Og mjer þykir gaman að sjá framan í háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.), þegar hann fer að greiða atkv. á móti sínum eigin till.