31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 441 í C-deild Alþingistíðinda. (3107)

72. mál, hundaskattur

Einar Arnórsson:

Þótt háttv. þm. Stranda. (M. P.) víki aðallega orðum að mjer, þá eru það þó ekki nema örfá atriði, sem jeg þarf að svara í ræðu hans.

Það má vel vera, að sumir hundar í kaupstöðum og annarsstaðar sjeu góðir til fylgdar, en þeir munu þó vera svo hverfandi fáir, að þeirra gæti ekki að nokkrum mun. Mætti eins vel segja, að þar sem það hefði komið fyrir, að brennivínsflaska hefði bjargað lífi manna uppi á heiðum að vetrarlagi, þá væri brennivín nauðsynleg vara. Og ef einhver hundur væri sjerstaklega kunnur að því að vera góður til fylgdar, þá gæti sveitar- eða bæjarstjórn undanskilið hann skattinum.

Um heilbrigðis- og þrifnaðarráðstöfunina, sem fólgin á að vera í þessu frv., þarf ekki að deila við hann, því mjer skilst, að hann, sem læknir, ætti og geti ekki verið því mótfallinn að takmarka hundahald, enda fanst mjer háttv. þm. (M. P.) ekki vera heldur mjög fastur á, að hætta gæti ekki stafað af hundum. (M. P.: Jeg vil halda því fram, að meiri hætta stafaði af hundum í sveitum heldur en í kaupstöðum). Það má vel vera, en þar eru þeir nauðsynlegir til þess að verja tún og engjar og gæta fjenaðar. Og mjer er nær að halda, að bændur sjeu svo miklir ráðdeildarmenn, að þeir hafi ekki fleiri hunda en þeir nauðsynlega þurfa. Annað mál er það, að þetta er ekki stórvægilegt, og síst frá tekjuhliðinni, en mjer finst, að úr því að verið er að hreyfa við lögunum, þá beri að gera það af viti.