31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í C-deild Alþingistíðinda. (3110)

72. mál, hundaskattur

Magnús Pjetursson:

Hv. frsm. (E. Árna.) bar það fram, að fjárhagsnefnd hefði ekki breytt hundaskattsl. meira vegna þess, að hún hafi viljað gera svo glöggan mun þarfra og óþarfra hunda. Hefði hv. nefnd gert minstu tilraun í þá átt að gera mun á þörfu og óþörfu, þá hefði jeg getað haft samúð með henni, en svo er ekki, því hún hefir algerlega fylgt því, sem lögin leggja inn í þessi tvö hugtök, en eins og sýnt hefir verið, eru margir þeir hundar þarfir, sem lögin telja óþarfa. Hefði nefndin t. d. farið fram á, að skattur yrði lagður á hunda þannig, að hann væri lægstur af fyrsta hundinum, og hækkaði svo af hverjum hundi, sem umfram væri, þá hefði hún sýnt lit á, að hún vildi vera á rjettri leið, en það hefir hún ekki gert. Jeg er sem sje sannfærður um, að slík breyting mundi miða að því að fækka hundum á sveitabæjum, og þess gerist sjálfsagt þörf, því það er kunnara en frá þurfi að segja, að þeir eru of margir víða.

Þá vildi hv. frsm. (E. Árna.) halda því fram, að ekki væri í „praxis“ lagt á hunda í kaupstöðum, sem þarfir væru taldir. Mjer þykir það allskrítið, að hv. nefnd skuli færa það sem ástæðu fyrir, að hún breyti ekki þessum lögum, að í „praxis“ sje þeim ekki fylgt, heldur brotin. Jeg kann allilla við, að á hv. Alþingi skuli einn hv. þm. (E. Árna.) benda mönnum á að fara í kringum lög, sem það hefir samþykt, einungis til þess að þurfa ekki að hafa fyrir að leiðrjetta þau.