06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (3120)

72. mál, hundaskattur

Bjarni Jónsson:

Mjer hefir helst skilist, að tilgangur þessa frv. væri sá, að koma í veg fyrir heilsuspilli þann, sem af hundum getur stafað. Þá verða fyrir tvær spurningar, sem jeg vil beina til háttv. deildarmanna. Hvers vegna er ekki algerlega bannað að halda aðra hunda en þá, sem þarfir teljast? Eða hvers vegna er ekki lagt svo hátt gjald á óþarfahunda, að flestum verði ómögulegt að halda þá? Tekjurnar, sem þetta frv. fer fram á, verða svo litlar, að þær geta engu valdið um gang málsins. Tilgangurinn er greinilega það, að útrýma þessum hundum. En hins vegar er hægt að líta á það, að það er hart fyrir ríkan mann, sem vill halda hund, að mega það ekki, ef hann vill borga 1000 kr. í skatt fyrir hann. Mjer skilst, að það hefði átt að taka þetta mál út af dagskrá og leita upplýsinga um það, hvaða skaða þessir hundar valda og hvaða ráð sjeu til að fyrirbyggja hann. Þegar þær upplýsingar væru fengnar, þá væri hægt, samkvæmt þeim, að velja einhverja af þeim leiðum, að banna algerlega hundahald, nema á þörfum hundum, að setja svo háan skatt á óþarfahunda, að enginn vildi til vinna að halda þá, eða að láta málið eiga sig.

Það var að eins þessu, sem jeg vildi skjóta til deildarinnar.