06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (3122)

72. mál, hundaskattur

Sveinn Ólafsson:

Ef litið er á þetta frv., þá kemur það fram, að tilgangur þess er tvöfaldur, sá, að draga úr sýkingarhættu, sem stafar af hundahaldi, og sá, að afla sveitarsjóðum meiri tekna. Hvorttveggja þetta er gott og blessað, en jeg held, að því verði ekki náð nema með gagngerðum breytingum á lögunum frá 1890. Það er auðvitað sjálfsagt að minka sýkingarhættuna með því að lækna hunda, en það liggur líka í augum uppi, að hún er því minni, sem hundarnir eru færri. Þess vegna tel jeg rjettustu leiðina að vinna að útrýmingu óþarfahunda. Það hefir verið bent á það, að land vort hafi áður verið þekt eða alræmt vegna sullaveiki, sem nú sje mjög í rjenun. Þetta mun satt vera, en mikið skortir á, að hættan á sullaveiki sje horfin, þótt hún hafi rjenað í mönnum; tómlæti um lækningu hundanna virðist ágerast og hættan aftur að færast nær síðustu árin. Því til sönnunar skal jeg benda á atvik frá Austurlandi nýskeð. Þar fórust á annað hundrað kindur af höfuðsótt næstl. ár á einu heimili, sem liggur í þjóðbraut, og er það miklu meira en þektist áður. Hjer getur tæpast öðru verið til að dreifa en sýkingu frá þeim fjölda hunda, sem þarna fer um með ferðamönnum og saurgar engi og haga. En þessi sýking getur einnig fljótlega borist í menn. Hjer er svo sem með lögunum frá 1890 umráð jarðarparts látin rjettlæta hundahald, jafnvel svo, að undir því yfirskyni, að hafa jarðarpart, geta menn haft heilan her af hundum. Í því held jeg að lögunum frá 1890 sje mest ábótavant, að engin takmörk eru sett um hundafjölda hjá þeim, sem á jörðu búa. Það hefir gefið tilefni til þess, að allsendis óþarfir hundar hafa verið taldir fram af jarðarábúendum, þótt aðrir hafi átt þá. Fyrir þessa skuld þyrfti miklu ítarlegri breytingu á nefndum lögum en hjer eru á ferð, en af því að frv. þetta miðar þó að því að takmarka óþarft hundahald og draga úr sýkingarhættunni, sem af hundunum stafar, þá vil jeg styðja að framgangi þess, þótt mjer þyki það fara of skamt.