18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (3135)

72. mál, hundaskattur

Eggert Pálsson:

Jeg á brtt. á þgskj. 399. Mjer virtist svo, að vert væri að athuga þetta mál nánar, úr því deildin á annað borð væri komin í hundana. Núgildandi lög um hundaskatt eru frá 1890. Þá var 2 kr. skattur talinn hæfilegur, en síðan eru liðin 29 ár. 2 kr. mega því teljast mjög lágur skattur nú, þegar tillit er tekið til þess verðfalls, sem orðið hefir á peningum. Jeg tel víst, að skattur þessi hafi verið settur í þeim tilgangi að hamla mönnum frá að hafa óþarfa hunda, og vafalaust hefir hann þá gert gagn í þá átt. En nú getur hann ekki gert sama gagn, nema því að eins, að skattupphæðin svari nokkurn veginn til peningaverðfallsins. Nú eru 2 kr. ekki meira en 50–75 aurar voru þá, þegar skatturinn var ákveðinn. Úr því nú er verið að breyta þessum lögum á annað borð, virðist því rjett að breyta skattinum svo, að hann komi að tilætluðum notum.

Það má og segja, að annar tilgangur hundaskattsins hafi verið sá, að útvega hreppssjóðum nokkrar tekjur. Nú munar hreppssjóð tiltölulega minna um þessa tekjubót, ef skatturinn er ekki hækkaður, en hann gerði það fyr á tímum. Enn fremur má segja, að talsverð ástæða sje til að hækka hundaskattinn, þar sem allmikil útgjöld hafa verið lögð á hreppa og sýslusjóði vegna hundanna. Eftirlitsmenn hafa verið settir, sem verður að gjalda nokkurt kaup, og sumstaðar hafa verið bygð sjerstök hús í þeim tilgangi að hreinsa í hundana. Og viðbúið, að þessi útgjöld, eins og önnur, vaxi fremur en minki. — Við þessa brtt. mína hefir komið brtt. frá hv. 4. landsk. þm. (G. G.) á þgskj. 401. Það má sjá, að hann er sömu skoðunar og jeg um, að hækka beri nokkuð skatt þennan, þó hann hins vegar ekki vilji fara hærra en í 3 kr. Mjer er vitanlega ekki kappsmál, hvor brtt. verður samþykt. Jeg vildi að eins benda á, að þetta atriði bæri að taka með, fyrst verið væri að breyta lögunum á annað borð.