18.08.1919
Efri deild: 33. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (3136)

72. mál, hundaskattur

Guðjón Guðlaugsson:

Mjer er vitanlega ekki mikið kappsmál, að brtt. 401 nái fram að ganga. En mjer virtist 4 kr. skattur fullmikill á dýrum, sem eru nauðsynleg, en þó arðlaus. Hundar eru nauðsynleg verkfæri til að stjórna búfje, og er því rjett að fara vægt í sakirnar. Þess ber að gæta, að hundarnir þurfa dýrara fæði en önnur húsdýr. Þeir þurfa næstum mannamat, ef þeir eiga ekki að vera húsbændum sínum til háðungar. Og það er víst, að hundar jeta ekkert, sem ekki væri líka hægt að nota öðrum húsdýrum til fóðurs. Það er því mikill kostnaður við að hafa hunda, og enginn skynsamur maður hefir fleiri en hann þarf á að halda. Mjer finst því rjett að fara ekki hátt í skattaálögum á hunda, en mun þó greiða atkvæði með 4 kr. skatti, ef brtt. um 3 kr. fellur.

Jeg álít, að 50 krónur sje alt of hár skattur. Það ætti að vera nægileg hvöt á menn til að hafa ekki hunda að óþörfu, að láta þá gjalda 30 krónur. Jeg verð að taka fram, að jeg legg langtum meiri áherslu á þetta atriði en hið fyrra.