28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í C-deild Alþingistíðinda. (3139)

72. mál, hundaskattur

Frsm. (Einar Árnason):

Þetta frv. er nú komið hingað aftur frá háttv. Ed., og hefir tekið þar tveim breytingum.

Önnur breytingin er sú, að inn í frv. er sett heimild handa bæjar- og sveitarstjórnum til að færa gjaldið á óþarfahundunum niður í 10 kr., ef að þeirra áliti einhver sjerstök þörf sje fyrir hundinn. Þó fjárhagsnefndin telji þetta ákvæði ekki til bóta, vill hún þó ekki gera það að ágreiningsatriði við háttv. Ed.

Öðru máli er að gegna um þá breytingu, að skattur á þarfahundum hækki upp í 4 kr. Fjárhagsnefndin telur þetta gjald koma mjög ósanngjarnlega niður og getur ekki fallist á það. Það kemur í raun og veru jafnt niður á ríkum og fátækum, sem þurfa að nota hund. Það mun hafa vakið fyrir háttv. Ed. að ná með þessu í auknar tekjur fyrir sveitarsjóðina. En það mun vera hægt að finna miklu sanngjarnari leiðir til að útvega sveitarsjóðum tekjur en þennan hundaskatt. Nefndin flytur því brtt. um að færa þennan skatt aftur niður í 2 kr. Sje jeg ekki ástæðu til að segja fleira, en legg það til, að brtt. nefndarinnar verði samþ.