12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í C-deild Alþingistíðinda. (3161)

149. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Einar Arnórsson):

Jeg bjóst nú við, að áður en jeg stæði upp aftur mundi helmingur deildarinnar vera búinn að taka til máls. En nú hafa að eins 3 hv. þm. talað á móti frv. Fyrstur reið á vaðið hv. þm. Stranda. (M. P.), svo kom hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og hv. þm. Dala. (B. J.). — Mig furðaði ekki mikið á því, þó að sá fyrsti og síðasti hv. þm. legðu ekki svo mikið upp úr sparnaðinum við þetta. — Aftur furðaði mig á, að hv. 1. þm. S.- M. (Sv. Ó.) skyldi gera lítið úr 40–50 þús. króna sparnaði á ári. Jeg man, að það var mál á döfinni hjer fyrir skömmu, launamál embættismanna, sem þessi hv. þm. (Sv. Ó.) kom fram með brtt. við, sem hafði í för með sjer 40–50 þús. kr. sparnað. Þá horfði málið þannig við, að þetta var mikið fje í hans augum. Þessi till. hans miðaði að því, að draga ranglega af starfsmönnum ríkisins launauppbót. Þar var hv. þm. (Sv. Ó.) í essinu sínu. Annars voru ástæður þær, sem þessir hv. þm. færðu fram móti frv., flestar sameiginlegar fyrir ræður þeirra allra. Jeg get því ljett af mjer því ómaki, að svara þeim, hverjum fyrir sig, orði til orðs.

Allir geta verið sammála um, að ræðurnar eru frá hendi skrifaranna venjulega hvergi nærri rjett mynd af þeim, eins og þær eru haldnar hjer á þingi. Enda játaði hv. þm. Stranda. (M. P.) það. Við vitum allir, að við breytum ræðum okkar meira og minna, og hv. þm. Stranda. (M. P.) ekki minna en hver annar, eftir því, sem jeg hefi tekið eftir.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) skaut því fram í ræðu sinni, að ekki væri víst, að sparnaður yrði svo mikill að þessu framvegis; kostnaðurinn gæti minkað, pappír lækkað og þingtíminn styst. — Það kann vel að vera, að pappír lækki eitthvað. En það er ekkert útlit fyrir, að vinnulaun muni lækka. Um þingtímann er það að segja, að það er hugsanlegt, að hann styttist eitthvað, þegar þing kemur saman á hverju ári. Það fer eftir því, hvað fjárlögin taka langan tíma. En ef þess er gætt, að á hverju einasta af undanfarandi þingum hefir tíminn verið svo naumur, að það hefir orðið að afgreiða málin í skammarlegu flaustri, þá minka nú líkindin fyrir því, að þingtíminn styttist að mun. Þegar alt er komið í eindaga, þá greiða menn atkv., bæði í fjárlögunum og öðrum málum, án þess að þeir hafi getað kynt sjer málin nokkuð til hlítar. Ef vel ætti að vera, þyrfti þingið að standa mánuði lengur en venjulegt er að það geri. Hvaða vit er t. d. að ætlast til þess, að hv. Ed. verði búin að afgreiða fjárlögin 20. sept., þegar þau fóru frá hv. Nd. 7.–9. sept.? Hv. Nd. hefir nú haft þau til meðferðar frá þingbyrjun, eða meira en 2 mánuði. Að vísu mun hv. Ed. hafa verið búin að kynna sjer frv. eitthvað áður. En það er samt ofætlun að ætla henni að ljúka því á 10–2 dögum. Hv. þm. geta ekki kynt sjer frv. sjálft og svo brtt. bæði einstakra þm. og nefndarinnar á svo skömmum tíma. Enda er ekki hægt að neita því, að alt lendir í bögli og flaustri síðustu dagana. Bæði er það, að menn vilja þá spara fje landssjóðs, og ekki síður hitt, að þá eru menn óðfúsir að komast sem fyrst heim. Verða jafnvel oft beinlínis að sæta ferðum, af því að samgöngur eru ekki eins heppilegar og nauðsynlegt væri. — Þegar þessu er nú þannig farið á hverju reglulegu þingi, þá er ekki líklegt, að þing verði mikið styttra, þótt það sje haldið árlega. T. d. er ekki loku skotið fyrir það, að þm. þættust geta betur gert við fjárlögin en gert hefir verið hingað til. — Menn mega ekki skilja orð mín svo, að jeg sje að bregða hv. fjárveitinganefnd Nd. um seinlæti í vinnubrögðum. Það er margt, sem þarf að athuga, og eykst á hverju ári. En það er spá mín, að þó að þingið verði árlega haldið, þá standi það ekki miklu skemur. Er það í samræmi við þá von mína, að þessari hroðvirkni og flaustri, sem oft á sjer stað, ljetti af.

Hv. þm. segja, að þessi sparnaður, sem af frv. leiðir, sje á kostnað alþjóðar. Það er nú fyrst, að jeg heyri því haldið fram, að þingtíðindin sjeu alment lesin. Þegar jeg hefi sjeð Alþingistíðindin upp til sveita, þá hafa þau oftast legið samanbögluð og rifin í einhverju stofuhorninu. Jeg hugsa, að það sje teljandi, þar sem þeim er haldið saman. Jeg held, að það sje líkt með þau og Stjórnartíðindin. Þó er það svo með Stjórnartíðindin, að sumir þurfa á þeim að halda, og gæta þeirra. En það þýðir ekki að draga dulur á það, að Alþingistíðindunum er mjög lítið haldið saman. Þótt þau sjeu í upphafi prentuð í nokkuð hundruð eintökum, þá er það orðin sjaldsjeð bók eftir stuttan tíma. Og mjer er nær að halda, að þau sjeu ekki miklu meira notuð en þótt að eins eitt handrit væri geymt á skjalasafni.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagði, að þótt ræður þingmanna væru ekki prentaðar eins og þær væru talaðar á þingi, þá væri þó meiningunni ekki hallað, þannig, að það kæmi fram í ræðunni, sem þm. vildi sagt hafa. En því fer fjarri, að svo sje. Það eru fáir svo skilagóðir skrifarar, að þeir geti náð ræðunum, ekki einungis eins og þær eru talaðar, eða að þeir nái því, sem þm. vildi sagt hafa, heldur eru ræðurnar, þegar þær koma, meira og minna brenglaðar og bæklaðar, bæði að efni og meðferð. Þingmenn hafa þá um tvent að velja, annaðhvort að láta þær standa, eða stryka alt út. Þeir þm. eru teljandi, er gefa sjer tíma til að umskrifa þær eins og þeir vildu. Aðalreglan er sú, að menn láta sjer nægja að leiðrjetta helstu meiningarskekkjurnar.

Vitanlega er hægt að nota handrit af þingræðum, alveg eins og hvert annað handrit, í skjalasafni. En jeg verð að segja fyrir mig, að það hefir ekki oft komið fyrir, að jeg hafi orðið að fletta upp í umr. í Alþingistíðindunum. Það kann að vera af því, að jeg sje ekki jafnrýninn í þá hluti og aðrir. — Ef handritin eru vel skrifuð, má vafalaust nota þau eins og prentað mál. Auðvitað dugir ekki, að hafa öll handritin í einni möppu. Það verður að fylgja þeim glögg skrá með merkjum, þar sem efninu er raðað niður eftir málum. Það yrði skrifstofa Alþingis eða skjalavörður að sjá um.

Þá er hættan á því, að þetta skjalasafn brynni. Slíkt getur auðvitað hent. En það er ekkert sjerstakt fyrir þetta skjalasafn. Það getur eins komið fyrir önnur skjala- og bókasöfn; þau gætu líka brunnið. — Annars eru menn nú á dögum farnir að gera sjer far um að geyma áríðandi skjöl á þeim stað, sem þau eru tryggilega varin fyrir eldsvoða. Það hefir komið fram í ræðum hv. þm. hjer, að þeir halda, að þetta sje einsdæmi, að þingtíðindin sjeu ekki prentuð. En það mun ekki vera gert alstaðar annarsstaðar. Ef eitthvert er það sjerstakt mál, sem þm. vilja láta alþjóð vita um, þá er aðferðin sú, að láta ræðurnar birtast í blöðum. Jeg las nýlega ræðu, prentaða í einu blaði hjer, sem hv. þm. Dala. (B. J.) hafði haldið. Af hverju skyldu þm. láta blöðin taka ræðurnar upp, nema af því, að þeir vita, að með því móti eru þær lesnar af þúsund sinnum fleiri mönnum heldur en í Alþingistíðindunum?

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) vildi láta vísa þessu máli til stjórnarinnar. — Það finst mjer óviðkunnanlegt að vísa máli til stjórnarinnar, sem er einskonar „collegialt“ þingmál. Jeg veit ekki, hvað stjórnin ætti að undirbúa það betur. Ætti hún má ske að undirbúa geymslu ræðnanna? Jeg held, að það sje langt um rjettara, ef meiri hl. hv. deildar er á móti frv., að láta það ekki ná fram að ganga, heldur fella það hreinlega. Hitt er bara apaháttur, að vísa því til stjórnarinnar.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að það væri margt fleira, sem mætti spara. Þær frjettir þurfti jeg nú ekki að fá frá honum. Jeg vissi það sjálfur. En mjer fanst hann ekki geta bent á annað, er með góðu móti mætti spara. Því að mjer finst ekki gerlegt að banna mönnum að tala hjer á þingi. Þó get jeg tekið undir það með hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að lítið væri mist, þótt haldnar væru hjer færri og styttri ræður. Það mun vera einsdæmi hjer, hve margir þingmenn tala í hverju máli. Annarsstaðar er það svo, að að hver flokkur velur framsögumann, til að hafa orð fyrir flokknum um hvert mál. (S. S.: Hjer er ekki því að heilsa). Nei.

Hjer er ekki því að heilsa, en ætti þó að vera. Við erum sammála um það, háttv. samþm. minn og jeg, að þetta er ókostur. Hjer er það svo, að hver tekur það upp, sem annar hefir áður sagt. Og vjer höfum hjer eitt dæmi fyrir okkur. Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og hv. þm. Dala. (B. J.) töluðu hjer báðir á eftir hv. þm. Stranda. (M. P.), og sögðu þeir nauðalítið annað að efni til en hann hafði áður sagt. En þetta er ekki einsdæmi. Það kveður venjulega við hjer í upphafi hverrar ræðu: „Hv. þm. N. N. er búinn að taka flest af því fram, sem jeg vildi sagt hafa, en jeg vildi þó bæta við fáeinum athugasemdum.“ — Og svo koma þessar athugasemdir. Og það er þá vanalega ekkert nýtt, heldur „kopi“ af því, sem hinn hv. þm. hefir sagt. En það er enginn einn öðrum fremur sekur um þetta. Vjer erum það allir meira og minna.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, að margt fleira mætti spara. Satt er það. En það er engin röksemd móti þessu frv., sem miðar að sparnaði, að fleira mætti spara. Komi hv. þm. með till. um að spara eitthvað fleira! Það getur vel verið, að jeg verði því fylgjandi. En jeg tel ekki víst, að jafnhægt sje að spara neitt sem prentun á ræðunum.

Menn hafa talað hjer um, að þetta yrði ilt verk vegna sagnfræðinganna. Var það sjerstaklega hv. þm. Dala. (B. J.), sem talaði um það, að það gæti orðið ilt fyrir sagnfræðingana, ef ræðurnar væru ekki prentaðar. Þeir myndu ekki geta fengið fræðslu, eða aflað sjer skilnings á málefnum og mönnum, ef ræðurnar væru ekki prentaðar. Þar til er því að svara, að þeir fáu menn, er þau fræði stunda, munu að sjálfsögðu geta fengið aðgang að skjalasöfnum þingsins. Og jeg skal viðurkenna, að allar þessar þingræður eru að vísu góðar að því leyti, að af þeim geta menn oft fengið „karikatur“ — skrípamynd — af manninum sjálfum og skoðunum hans, vegna þess, hve ræðan er úr garði gerð. Og ræðurnar eru líka oft vottur um það, hve maðurinn hefir haldið fram fráleitum skoðunum, eða rjettum skoðunum, eftir því, hver maðurinn er. Það er því ekki hægt að neita því, að þegar um manninn á að dæma, geta ræðurnar verið dálítil leiðbeining. En annað mál er það, hve gott er að byggja á þeim dóm um það, hvað hann hafi sagt og hvernig hann hefir sagt það.

Ef ræður væru til frá Alþingi hinu forna, þá væri það að vísu skemtilegt. Sjálfsagt hafa verið haldnar ræður þar. Fyrir því eru góðar heimildir. Skal jeg játa með hv. þm. Dala. (B. J.), að skemtilegt gæti verið að hafa þær. En jeg vildi sjá þann mann, sem entist til að fara í gegnum þær allar, ef þeim svipaði eitthvað til þingræðna þeirra, sem haldnar hafa verið síðasta mannsaldurinn. Það fjósaverk vildi jeg ekki taka að mjer.

Þá hafa menn talað um, að þessar þingræður væru einstaklega mikilsverðar fyrir kjósendur landsins. Má vel vera, að það geti komið fyrir, að nauðsynlegt sje að geta kastað því í nasir frambjóðanda á þingmálafundi, hvað hann hafi sagt á þingfundi um þetta og þetta mál. Það getur margt verið vel til þess fallið að snupra menn með eða reka í vörðurnar. En spurningin er, hvort þetta sje svo mikils virði, út af fyrir sig, að kastandi sje út fyrir það svo mikilli fjárfúlgu á hverju ári. Ræðurnar verða flestar ekki meira virði en hver blaðagrein. Þær lifa í hæsta lagi nokkra mánuði, og svo gleymast þær, alveg eins og hver blaðagrein, rjett strax, er menn hafa gleypt þær í sig. Nema þá rjett einstöku þingræður, sem menn kæra sig um að muna. Þær gleymast ekki fyrsta árið, en svo falla þær, eins og alt hitt, í gleymsku og dá fyrir fólki.

Hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að hann vildi ekki eiga mannorð sitt undir blöðunum. Get jeg vel skilið, að hann vilji það ekki, og eru vafalaust fleiri líkrar skoðunar og hann um það atriði. En jeg efast mjög mikið um, að þingtíðindin sjeu mikil vernd mannorði manna gegn blöðunum, af þeirri ástæðu, sem jeg nefndi áðan, að það er aldrei nema örlítið brot landsmanna, sem les þingræður. En menn hafa aðra stórum öruggari mannorðsvernd gagnvart blöðunum en þingtíðindin, sem menn annaðhvort halda ekki saman, eða þá geyma úti í horni, hlaðin ryki, eins og einhverja forngripi, sem aldrei er snert á — ef þeir þá kaupa eða lesa þau. En sú vernd er að verja sig sjálfur á annan hátt gegn árásum blaðanna. Sú vernd getur ýmist verið fólgin í því, að menn skrifa sjálfir, ef þeim þykir það vert, sóma síns vegna, eða þá að menn láta prenta þau orð sín og ummæli, sem blöðin hafa afskræmt og fært á verri veg. Það er þetta sem menn gera. Menn eru ekki oft að vísa í þingtíðindin, er þeir eru að verja sig. Menn fara hina leiðina, að birta í blöðunum það, er lýtur að framkomu þeirra í málunum, eða skrifa sjálfir leiðrjettingu. Það er að segja þeir, er telja það ómaksins vert. Sumir eru alveg hættir að fást um það, hvað um þá stendur í blöðunum. Mjer var t. d. borinn ½ milj. kr. þjófnaður á brýn í einu blaði. Mjer datt ekki í hug að leiðrjetta það, því að jeg vissi, að það myndi koma í ljós á sínum tíma, að það voru álygar.

Um spádóm hv. þm. Dala. (B. J.) um dóm þjóðarinnar í þessu máli skal jeg ekki segja. Jeg er jafnófróður um, hvernig það myndi fara, og hv. þm. Dala. En mjer er þó nær að halda, að mikill meiri hluti yrði með því að hætta að prenta ræðurnar, þar sem það eru ekki nema örfáir menn í hverjum hreppi, er ræðusafn þetta fá að sjá.

Svo virðist mjer, sem menn gleymi einu. En það er, að við ætlumst til, að nefndarálitin verði prentuð eftir sem áður. Nú hefir sá óvani færst mjög í vöxt á þingi, að skrifa stutt nefndarálit, en vísa svo til framsöguræðu, sem annaðhvort aldrei er haldin, eða er ómerkileg og lítt til að upplýsa málið.

Jeg hefði viljað óska, að nefndarálitin væru töluvert rækilegri en nú gerist því að í raun og veru eru það nefndarálitin ein, sem á má marka það, sem menn vilja. Nefndarálitin eru alveg ósvikin og óbjöguð. Það eru þau, sem allir nefndarmenn skrifa undir, og hver þingmaður getur fundið aðalatriði og rök í án fyrirhafnar.

En af því að allir vita, að það er nokkurn veginn óhamlað, hve segja megi mikið, er málin koma fyrir í deildinni, kæra menn sig ekki um að gera nefndarálitin svo rækilega úr garði, sem vera ætti.

Það er satt, að ef nefndarálitin yrðu rækilegri, myndi skjalaparturinn aukast við það lítið eitt, en það yrði ekki svo, að neinu næmi. (Sv. Ó.: Tvöfaldast). Jeg vildi vinna það til, að skjalaparturinn tvöfaldaðist, ef maður gæti þá losnað við að lesa ræður manna á þingi. Því að ef menn vilja beita lögum og vilja leita sjer upplýsinga um einhver atriði þeirra, þá er það hreinasta undantekning, ef menn græða nokkurn skapaðan hlut á því að lesa alt það málæði, er átt hefir sjer stað um málið á þingi. Ef það er nokkuð, sem menn geta grætt á, þá eru það helst nefndarálitin, en einkum þó athugasemdir stjórnarfrumvarpa. En ákvæðið í 19. gr. þingskapanna: „Hverju frv. skal fylgja stutt greinargerð fyrir tilgangi þess yfirleitt og skýring á höfuðákvæðum“, er að engu gert í framkvæmdinni, því að greinargerð frv. hjer á þingi eru vanalega annaðhvort engar eða mjög ljelegar. (M. P.: Hana vantaði hjá fossanefnd). Þingmaðurinn ætti ekki að tala svo, því að með fáum frv. mun hafa komið ítarlegri greinargerð. En hafi hana vantað, er það að eins sönnun fyrir því, sem jeg hefi haldið fram, að menn hafi fótum troðið það ákvæði þingskapanna, að frv. skuli fylgja greinargerð.