12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (3163)

149. mál, þingsköp Alþingis

Gísli Sveinsson:

Það er algert að bera í bakkafullan lækinn að tala meir um málið. Mjer finst líka, að báðir hafi allmikið til síns máls. En benda má á, að þeir, sem hjer eiga um að fjalla, eða mál þetta tekur til, eru ekki einungis þingmenn. Það snertir þá auðvitað mikið, að því leyti, hve aðgengilegir eru þeir staðir, sem ræður þeirra eru geymdar á. Munu þeir að sjálfsögðu jafnan geta gengið að þeim í skjalasafni þingsins, ef þeirra væri þar vel og tryggilega gætt. Líka myndu þeir, sem ræðurnar þurfa að nota í vísindalegum tilgangi, eða til lögskýringa, geta gengið að þeim í slíku skjalasafni. Á þetta hvorttveggja hefir hjer verið minst.

En hjer er enn einn aðalaðili í þessu máli, og það er allur landslýður. Það heitir þó svo, að vjer þingmenn sjeum sendir af kjósendum, sitjum á þingi sem fulltrúar þeirra. Virðist því, sem þeir hafi nokkra heimild til að fá að vita sem gerst um framkomu vora á þingi, og ekki óeðlilegt, að þeir vildu fá að vita, hvað vjer segjum hjer um málin. Virðist mjer því virðurhlutamikið, að vjer rjúkum nú til og látum hætta að prenta þingræðurnar, án þess að þeim hafi gefist kostur á að láta uppi álit sitt um það atriði á einn eða annan hátt.

Mjer virðist, sem sje í of mikið ráðist, að ætla að fara að afnema prentun á ræðum þingmanna, og það alveg undirbúningslaust, og án þess að nokkur rödd hafi heyrst um það frá kjósendum. Þó jeg að ýmsu leyti fallist á rök þeirra hv. þm., sem að frv. standa, þá vil jeg þó ekki, að Alþingi fari að hlaupa út í þetta, svona gersamlega óundirbúið, og skal jeg því leyfa mjer að bera fram rökstudda dagskrá, er jeg nú skal lesa upp með leyfi hæstv. forseta:

Þar sem ástæða virðist til, að kjósendur landsins fái að láta álit sitt í ljós á þingmálafundum um, hvort hætta eigi algert að prenta þingræður fulltrúa þeirra, þykir deildinni ekki hlýða að samþ. fyrirliggjandi frv., og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.