12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í C-deild Alþingistíðinda. (3166)

149. mál, þingsköp Alþingis

Bjarni Jónsson:

Voðalegur er þessi sessunautur minn (E. A.), og er ekki von, að við huglitlir þorum að tala. — Sparnaðurinn er, eins og háttv. þm. Stranda. (M. P.) sagði, mjög vafasamur, og hygg jeg, að hans reikningur reynist sannari en reikningur hv. 2. þm. Árn. (E. A.). Hann sagði, að það væri ekki sannað, að nefndarálit og greinargerðir yrðu lengri, þótt hætt yrði að prenta ræðurnar. Auðvitað er ekki hægt að sanna það, því það heyrir til framtíðinni. En á hinn bóginn mæla allar líkur með, að þar sem hv. þm. yrði varnað máls, þá myndu þeir skrifa, ef þeir gætu, og tækifæri gæfist, svo að litlar líkur eru til, að þingtíðindin yrðu neitt styttri, þótt ræðurnar yrðu ekki prentaðar. Hugsanlegt væri aftur á móti, að ræðurnar yrðu betur hugsaðar, en sparnaðurinn er tvísýnn. Jeg ætla ekki að reka þessi ræðuhöld lengi fram og aftur, en þó vil jeg benda hv. þm. á, að þeim fjelögunum, hæstv. forsætisráðherra (J. M.) og hv. 2. þm. Árn. (E. A.), fer líkt og þeim, sem sjá flísina í auga bróður síns, en ekki bjálkann í sínu eigin, því þeir tala fyrst og fremst alls ekki minna hjer á þingi heldur en aðrir þm., og í öðru lagi hafði hv. sessunautur minn (E. A.) alt það upp aftur, er hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði. Þá undruðust þeir bardagabræður (J. M. og E. A.) það, að þm. töluðu og lýstu skoðun sinni í þessu máli, og sögðu, að það tíðkaðist hvergi á þingum annara þjóða, því þar talaði einn maður fyrir hönd hvers flokks. Jeg veit ekki betur en að hjer sje alveg því sama til að dreifa, og veit jeg, að þeir sjá það, þegar þeir athuga málið. Hjer tala jeg fyrir hönd míns flokks. hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) fyrir hönd síns flokks og hv. þm. Stranda (M. P.) fyrir sinn flokk. (E. A.: Jeg átti ekki við þetta mál eingöngu). Það er altaf hægt að afsaka eftir á, þegar menn sjá, að þeir hafa farið með rangt mál. Það er þá ekki heldur að furða, að þegar saman hlaupa ellefu menn, þá hafi þeir einhverja skoðun og vilji gjarnan lýsa henni, en það er altaf furðulegt, að sumir háttv. þm., og það hæstv. forsætisráðh., skuli leyfa sjer að tala um málæði þm. (Forsætisráðh.: Jeg sagði ekki málæði, heldur vaðal). Hverjir eru þessir menn? Eru þeir svo sem kjörnir til að vera siðameistarar hjer? Ekki hefi jeg orðið var við, að þeim hafi verið veitt svo veglegt embætti. Jeg hygg, að það sje naumast þinglegt að standa upp og halda slíkar ræður.

Ef jeg ætti að fara eftir mínum hagsmunum í þessu máli, þá liggur mjer fyrir mitt leyti í ljettu rúmi, hvort ofan á verður í þessu máli, hvort ræðurnar verða prentaðar eða ekki prentaðar; jeg mundi ávalt finna leið til að koma skoðunum mínum til kjósenda, þótt þessi væri mjer meinuð. En það er vegna kjósendanna í landinu, að jeg er málinu mótsnúinn, því hætt er við því, að þegar þm. sjá, að kjósendur geta ekki fylgst lengur með því, hvað þeir aðhafast á þinginu, hvort þeir eru trúir þjónar eða ekki, þá muni sú hvöt þeirra rjena, að vera trúir kjósendum. — Þá vil jeg drepa á það, þótt áður hafi verið drepið á það, að það mundi ekki þykja virðulegt þing, sem haldið væri fyrir lokuðum dyrum, en að hætta að prenta ræðurnar er sama og að loka þinginu fyrir landsmönnum, að undanteknum þeim fáu Reykvíkingum, sem rúmast geta á þessum pallholum. — Jeg mun því greiða atkv. með öllum þeim till., sem fram eru komnar, en á móti frv.