17.09.1919
Neðri deild: 66. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (3178)

149. mál, þingsköp Alþingis

Einar Jónsson:

Það er að vísu búið að ræða margt um þetta efni, en það er rjett, sem hv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók fram, að þessar umr. hafa lítið gildi.

Því hefir verið haldið fram af þeim, sem hafa sett sig á móti frv., að þingtíðindin væru mikið lesin. Jeg hefi ekki heyrt menn nefna neinar tölur, þessari staðhæfingu til sönnunar. En jeg hefi kynt mjer dálítið þetta atriði, þar sem jeg er kunnugur í Rangárvallasýslu, og jeg veit, að þar eru þau lítið lesin. Auk þess sem þau eru send hverjum hreppstjóra og hreppsnefndaroddvita, sýslumönnum og þingm., ýmsum opinberum starfsmönnum og stofnunum. t. d. háskólakennurunum, stjórnarráðinu, póststjórninni, landsyfirdóminum, símastjórninni, Vífilsstaðahælinu o. fl., þá eru keypt um 60 eintök úti um land. Jeg játa, að þessi eintök, sem send eru gefins af ríkinu, eru lesin af fleirum en þessum sjerstöku mönnum, og þá sjerstaklega þau eintök, sem oddvitunum eru send. Þau eintök munu vera látin ganga til þeirra, sem óska að lesa þau, þangað til þau endast ekki lengur og eru orðin ólesandi. Þau munu yfirleitt ekki endast lengi. Eftir tölum þessum eru þingtíðindin lítið lesin, og þau eru yfirleitt óáreiðanleg bók, því að ræðurnar eru oft styttar, auknar eða breyttar á ýmsa vegu frá því, sem þær voru. Þegar það er nú sannanlegt, að ræðurnar tefja þingið og að þær kosta ærið fje, þá álít jeg betra að verja þessu fje til þess að styrkja fátæka og efnilega menn til þess að auka kunnáttu sína.

Jeg veit, að hver maður hlýtur að játa, sem átt hefir sæti á Alþingi, að margar ræðurnar, sem hjer eru haldnar, eru fremur haldnar fyrir þingtíðindin heldur en málin sjálf. Og það er ekki sagt, að þeir, sem halda lengstu ræðurnar, starfi mest. Og mjer finst ræðusnild vera að dofna í þinginu. Áður voru hjer miklir mælskumenn, sem fluttu stuttar og gagnorðar ræður. Jeg minnist manna, sem var viðbrugðið fyrir mælsku, eins og t. d. Benedikts Sveinssonar, sem var að vísu ekki svo stuttorður eða gagnorður, en var mælskumaður mikill. Þá má nefna Magnús Stephensen, sem var bæði gagnorður og stuttorður. Og í minni tíð get jeg nefnt Björn Jónsson, Hannes Hafstein, Jón Jónsson í Múla og Skúla Thoroddsen. Þetta voru alt betri ræðumenn en nú sitja á þingi, þó að hjer sjeu nú menn, sem mega teljast allgóðir ræðumenn. Það er sannarlega þörf á að gæta hverra 40–50 þús. kr., þegar eina ráðið til þess að fá tekjur er að tolla alt, hversu nauðsynlegt sem það er.

Hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hjelt, að það yrðu vonbrigði fyrir þjóðina, ef þessi stefna væri tekin. En jeg hygg, að þetta sje ekki rjett. Margir eru orðnir mjög óánægðir yfir því, hversu þingtíðindin eru orðin þykk bók og að mörgu leyti leiðinleg.

Jeg hygg, að sú leiðin væri betri, að stytta þau. Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) taldi vandkvæði á að koma skipulagi á þetta. En jeg held, að það sje mjög einfalt mál, og mundi ekki verða óvinsælt. Til þess mætti fá svo hæfan mann, að aðalefninu væri náð úr ræðunum í stuttum útdrætti. Með því móti mætti spara þingskrifara að nokkru leyti og prentun og pappír.

Það er nú að vísu svo, að Alþingi er álitið að vera einhver merkasti fundurinn, sem haldinn er á þessu landi. En þess ber þó að gæta, að ýmsir fleiri merkilegir fundir eru haldnir, og það er ekki venja að skrifa hvert orð, sem þar er sagt, heldur að eins stuttan útdrátt úr ræðu hvers einstaks. Eins mætti vel fara að á Alþingi. Með því móti mætti fá stutt og glögt yfirlit yfir skoðanir þm. á þeim málum, sem þeir hafa haft til meðferðar.

Af því að umr. eru orðnar langar, ætla jeg ekki að fjölyrða frekar. Jeg er fylgjandi frv., en á móti brtt. á þgskj. 819. (B. J.: Aldrei talaði Benedikt svona vel).