22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 514 í C-deild Alþingistíðinda. (3199)

155. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg býst við því, að hv. deild kannist við það, að jeg tók það fram, er vörutollsfrv. stjórnarinnar var hjer til umr., að stjórninni hefði ekki þótt ástæða til þess að lappa upp á vörutollslögin, enda búist við því, ef nú væri farið að breyta flokkunum, að deilan um það mundi verða svo mikil, að frv. næði ekki að ganga fram. Reynslan hefir sýnt það, að slíkar tilraunir hafa sætt mótspyrnu. Tilraunir hv. þm. Ísaf. (M. T.) um að hækka suma flokkana meira en aðra munu áreiðanlega verða til þess að sundra samkomulaginu um málið. Stuttur tími er eftir af þinginu og því engir möguleikar á því, að samkomulag náist um mismunandi hækkanir á hinum ýmsu flokkum, því skoðanir manna eru svo á reiki í því efni. Ef hv. deild fellst því ekki á frv. stjórnarinnar óbreytt, sem hefir nálega alla hv. Nd. að baki sjer, þá segir mjer svo hugur um, að ekkert vörutollsfrumv. verði samþ.