03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Jón Jónsson:

Það var við byrjun þessarar umr. minst á, hvaða stefnu bæri að taka í þeim málum, sem nú liggja fyrir, fjármálunum. Háttv. framsm. (M. P.) skýrði málið frá sjónarmiði nefndarinnar og benti á þá leið, sem hún vildi halda.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) andmælti þeirri ræðu og mjer fanst á honum, að hann liti öðrum augum en nefndin á stefnuna og teldi stefnu nefndarinnar varhugaverða og fyrirhyggjulitla. Hann varaði við að fara eins geyst og nefndin hafði lagt til og benti í því sambandi á þær skuldir, er hvíla á okkur nú. Það er alveg rjett, að við skuldum, en þá er að athuga, hvort þær skuldir stafi af óhóflegri meðferð á fje landsins, eða af öðrum ástæðum. Við verðum að athuga þá tíma, sem við lifum á, og ef það er gert, þá verða skuldirnar skiljanlegri.

Jeg undraðist, þegar jeg sá frv. stjórnarinnar. Þar voru ýmsar upphæðir til framkvæmda látnar standa óbreyttar frá því, sem var fyrir stríð, þrátt fyrir það að peningar hafa fallið í verði að miklum mun. Ef litið er á gildi peninganna en ekki starblínt á fjárupphæðir á pappírnum, þá sjest, að stjórnin vill nú verja þrisvar sinnum minna til framkvæmda en áður. Og stjórnin hefir ekki látið sjer þetta nægja. Hún hefir meira að segja kipt að sjer hendinni um ýmsar framkvæmdir. Þetta er sparnaðarstefna, eða rjettara sagt kyrstöðustefna, því nauðsynlegar framkvæmdir eiga að bíða, eða útgjöld til þeirra verða klipin svo við neglur, að að litlu haldi kemur. Jeg hjelt, að stjórnin hefði að eins gert þetta til að fara varlega í sakirnar og ýta ekki undir þingmenn um bruðlun. Jeg hjelt, að henni væri þetta ekkert kappsmál. hún ljeti það alveg á þingsins valdi. En mjer hefir skjátlast. Stjórninni virðist alvara með afturhaldið, hún ætlar að verja sparnaðinn með oddi og egg. Þetta er skýr stefna hennar, svo ekki er um að villast. Mjer þykir þetta einkennilegt með hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), því jeg hjelt hann framsækinn og frjáslyndan. Mjer þykir leitt að láta af því áliti, en jeg sje mjer ekki annað fært.

Þó þetta virðist stefna stjórnarinnar, þá er svo ekki í öllum greinum, og brestur sumstaðar á samræmið. Stjórnin hefir lagt með því, að embættismönnum yrði launað sómasamlega, og er það í framsóknaráttina. Ef stjórnin vildi vera sjálfri sjer samkvæm, þá ætti hún samhliða þessu að leggja með framförum og framkvæmdum á öðrum sviðum. En það láist henni; hún berst á móti þeim með hnúum og hnefum. Stjórnin er því bæði framsækin og íhaldssöm, bæði fugl og fiskur, eða flugfiskur.

Brtt. þær, sem fara fram á að auka útgjöldin, eru að eins óhjákvæmilegar afleiðingar af dýrtíðinni, en engin bruðlun eða fjárglæfrar. Jeg get ekki talið það óhóf, þó atvinnuvegirnir sjeu ekki látnir sitja á hakanum, þó eitthvað sje gert til að gera þá færa til að svara þeim sköttum, sem ríkinu eru nauðsynlegir.

Það hafa komið hjer fram tvö frv., sem hafa lán og skuldir í för með sjer, frv. um húsabyggingar og brúargerðir. Þau eru að eins fram komin í því skyni, að dreifa kostnaðinum á fleiri ár, því um framkvæmdir er að ræða, sem eftirkomendurnir njóta jafnt og við, sem nú lifum. Þetta álít jeg skynsamlega stefnu, því við getum ekki varið það fyrir sjálfum okkur að slá hendinni af þessum framkvæmdum. Jeg áleit það skyldu stjórnarinnar að reyna að sjá fyrir tekjum, sem nauðsynlegar væru til þess að forðast kyrstöðu. Stjórnin hefir ekki orðið við þessu, og skal jeg játa, að það er hægra sagt en gert. En þrátt fyrir það megum við ekki láta framkvæmdir liggja í láginni, heldur reyna að halda í horfinu. Stjórnin lítur öðruvísi á. Hún treystist ekki til að halda í horfinu; hún hefir tekið upp íhaldsstefnu á þessu sviði.

Það er blað hjer í bænum, sem hefir gert það sjer til dægrastyttingar og til eyðufyllis, að reyna að skifta þinginu í flokka. Flokkaskifting þess hefir verið þannig, að þeir, sem höfðu velþóknun blaðsins, eru kallaðir vinstrimenn, en hinir hægrimenn eða íhaldsmenn. Þetta blað, sem er Tíminn, hittir ekki altaf naglann á höfuðið, og hefir líka orðið klámhögt í þetta skifti. Við getum að minsta kosti sannfært okkur um, að í fjármálunum hafa nöfnin ekki reynst samkvæm sannleikanum, því ekki veit jeg, hvað kallast á íhald ef ekki það, að vilja draga úr öllum nauðsynlegum framkvæmdum landsins. Annars eru svona sleggjudómar að engu hafandi. Flokkaskifting eftir framsókn og íhaldi er ekki orðin skýr enn þá, sem ekki er von. Gömlu flokkarnir hafa ekki enn skipað sjer um ný mál, enda hefir varla unnist tími til þess. Í málum eins og þessum kemur fram framsókn eða íhald manna, án tillits til þess, hvaða flokksnafni þeir nefnast. Ef á því mætti marka önnur mál, þá yrði hæstv. stjórn að teljast íhaldssöm. Jeg veit að vísu ekki, hvort hún er hjer öll á einu máli, en hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hefir ekki reynt að draga dul á skoðanir sínar. Hinir hæstv. ráðherrar hafa ekki andmælt og þá samþ. með þögninni.

Jeg gat þess áðan, að jeg hefði ekki haldið hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) íhaldssaman, og á jeg því bágt með að skilja afstöðu hans. Hún getur ekki verið mótuð af vilja kjósenda, því þeir ætlast til, að nú sje tekið til óspiltra mála eftir kyrstöðu ófriðaráranna. Jeg býst við, að ef við sáum íhaldi, uppskerum við óþökk kjósenda, auk þess sem við setjum blett á sjálfa okkur. Þinginu getur heldur ekki talist vansalaust íhaldsafskifti af framkvæmdamálum þjóðarinnar. Jeg býst við, að sá blettur sæist á blaðsíðum sögunnar, síðar meir. Hjer þýðir ekki að tala um sparnað og skuldir, við verðum að treysta framtíðinni, því henni vinnum við. Þjóðin lifir ekki á sparnaði, heldur framkvæmdum.