22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í C-deild Alþingistíðinda. (3201)

155. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) fór ekki rjett með ummæli mín. Tilraunir hans til þess að sýna fram á, að jeg vilji ekki hafa rjettlæti í skattalöggjöfinni, eru vindhögg. Hitt er aftur rjett, að jeg hefi sagt, og nálega alt þingið virðist sammála mjer um það, að ítarleg endurskoðun á skattalöggjöfinni geti ekki orðið án langs undirbúnings. En þeirri endurskoðun verður ekki lokið fyr en eftir 2 ár, og nauðsynin er því eigi síður fyrir hendi að fá fje í landssjóðinn nú, og fyrir þeirri nauðsyn verðum vjer allir að beygja okkur. Annars þykir mjer það harla undarlegt, að hv. þm. (M. T.) skuli ámæla stjórninni fyrir hækkun á vörutolli, þar sem hann í byrjun þings kom fram með frv. um samskonar hækkun á tollinum. Öll framkoma hv. þm. (M. T.) í málinu bendir mjög fast í þá átt, að frv. hans hafi átt að vera fleygur til þess að bregða fæti fyrir stjórnarfrv., og bregður þá ekki mær vana sínum.