12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (3213)

151. mál, heimild handa landsstjórninni til að kaupa hús

Hákon Kristófersson:

Jeg þarf ekki að fjölyrða um þessa till. mína. Þó greinargerðin sje stutt, tekur hún þó fram öll atriði málsins.

Till. þessi er fram komin af því, að það er vitanlegt, að ýmsar skrifstofur og stofnanir landsins hafa verið og eru að meira eða minna leyti húsviltar eða á vergangi. Það verður að leigja handa þeim stopult húsnæði hingað og þangað fyrir ærna borgun, húsnæði, sem þar að auki er ófullkomið að ýmsu leyti fyrir margar þeirra, að dómi allra kunnugra. Þess vegna hefir verið hreyfing — og það eðlileg hreyfing — í þá átt, að æskilegt væri að reyna að safna öllum þessum dreifðu stofnunum sem mest saman, því það væri ríkinu ódýrara og starfinu hentugra, ekki síst ef ríkið ætti sjálft húsnæðið og gæti komist að því með viðunanlegum kjörum.

Þess vegna er till. komin fram um þetta hús. En eins og auðsjeð er á henni, er hjer að eins um heimild að ræða, og það verður að vera undir öllum atvikum komið, hvort stjórnin síðan notar heimildina eða ekki. Það fer vitanlega eftir því, hvort hún kemst að sanngjörnu verði, og hvort hún, eða þeir, sem hún felur meðferð málsins, álíta húsið hentugt.

Mjer er kunnugt um það, að stjórnin hefir átt kost á þessu húsi um hríð, en ekki sjálf viljað binda enda á málið, án þingheimildar, fyrst þingið sat á rökstólum. Till. er því fram borin, ef ekki eftir ósk meiri hl. hæstv. stjórnar, þá í fullu samráði við hana. Þetta hús er tvær hæðir, auk kjallara og efsta lofts, og eru sex stofur stórar á hvorri hæð. Um leigu á húsinu nú get jeg t. d. sagt það, að nýlega voru boðnar 3 þúsund kr. á ári fyrir kjallarann einan — og það fyrir mörg ár í einu. Mjer er að vísu ekki fullkunn sú upphæð, sem stjórnin verður að borga í leigu eftir hinar ýmsu skrifstofur sínar, en jeg held, að það sje ekki of frekt að telja það 12–15 þús. kr. á ári, að minsta kosti. Þar við bætist svo húsaleiga fyrir væntanlegan hæstarjett. Því vitanlega er það ekkert nema fyrirsláttur, að þessi stofnun þurfi „svo sem ekkert pláss.“ En jeg hefi fyrir mjer í því orð glöggra manna, að einmitt í þessu umrædda húsi muni hentugt rúm fyrir hæstarjett, að minsta kosti meðan menn ætla honum ekki alveg sjerstaka, stórveglega byggingu.

Um verðið á húsinu get jeg ekki sagt með vissu, en jeg hefi hjerna fyrir framan mig byggingarreikning, er nemur 172 þúsundum króna, og virðingargerð á 151 þús. kr. Jeg segi þetta þó ekki til þess, að slegið sje neinu föstu um verðið. Það yrði auðvitað samkomulagsatriði, og stjórnin keypti auðvitað að eins við sæmilegu verði.

Annars þarf jeg ekki að fjölyrða um málið. Það er einkar ljóst og einfalt og kemur sennilega engum á óvart, svo mikið sem rætt hefir verið um húsnæðisvandræðisvandræðin yfirleitt og óhagræði opinberra stofnana af þeim. Að minsta kosti mun till. ekki koma hæstv. stjórn á óvart, og býst jeg ekki við mótstöðu úr þeirri átt. Yfirleitt sje jeg ekki, að hverju mótstaðan ætti að beinast, eins og till. er hjer borin fram. Hjer er sem sje að eins um heimild að ræða, sem nota á því að eins, að góð kjör fáist, og býst jeg ekki við, að menn hafi ástæðu til þess að vantreysta stjórninni í þessu efni. Hún á auðvitað ekki að gera neitt í þessu máli, sem landssjóði yrði skaðlegt. Till. er þvert á móti komin fram til þess að reyna að bæta úr vandræðum stjórnarinnar og minka nokkuð útgjöld hennar, er til lengdar lætur að minsta kosti. Ef unt er að gera það með því, sem till. fer fram á, er sjálfsagt að veita stjórninni tækifæri til þess, en ef það er ekki unt, notar stjórnin sjer auðvitað ekki heimildina.

Vona jeg svo, að hv. deild leyfi málinu til annarar umr.