12.09.1919
Neðri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (3214)

151. mál, heimild handa landsstjórninni til að kaupa hús

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Af því þetta mál snertir nokkuð atvinnumáladeild stjórnarráðsins vil jeg segja um það nokkur orð, eins og hv. flm. (H. K.) gaf tilefni til.

Það skiftir minstu máli hjer, hvort stjórnin er sammála eða ekki. En jeg vil leggja áherslu á það, að málinu verði vísað til fjárhagsnefndar til athugunar undir aðra umr.

Að því er snertir hrakninga stjórnarskrifstofanna skal jeg geta þess, að tvent er til þess að bæta úr þeim, að gera leigusamning til langs tíma, eða byggja sjerstakt hús, eða í samráði við einhverja aðra stofnun. Nú hefi jeg fyrir satt, að einn kaupmaður hjer, sem nú er að byggja, sje fús til að leigja um nokkurn tíma. Í öðru lagi vil jeg geta þess, að landssíminn þarf að láta byggja hús, og ef hann fær bankarústirnar, mætti hafa það svo stórt, að þessar skrifstofur kæmust þar líka.

Jeg vil að eins minna á þetta til skýringar, þó jeg hafi ekki atkv. um það hjer í deildinni.