13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í C-deild Alþingistíðinda. (3226)

137. mál, skógrækt

Bjarni Jónsson:

Jeg átti von á því, að lítið yrði úr því höggi, sem hátt var reitt. Hjer er ein skógarhrísla erlend, sem reitt hefir verið hátt til höggs við, þó hún eigi sjer engan verjanda nje griðastað. Satt að segja finst mjer það undarlegt, að heil nefnd skuli veitast að þessum manni, með því að bera fram slíka tillögu. Það hefir ekkert það komið fram, sem sýni rjettmæti þess, að skipa rannsókn á þennan mann. Það mundi sjálfsagt mega finna að fleiru hjer, með sömu rökum og færð voru í þessu máli, t. d. Búnaðarfjelaginu. — Það var hlálegt af hv. þm. (S. S.) að fara að telja upp, hvað mikið hafði farið í ferðakostnað og laun af veitingunni til skógræktar. Það er ekki verið að tala um það, hvort þessi maður hefði nú nægilega há laun, eða hvort þau væru of lág, eins og oft vill verða.

Það getur hver maður sjeð, og mjer finst blátt áfram hlægilegt að reikna það þessum manni til sektar, þó hann hafi eytt í bæði laun handa sjer og ferðakostnað 8000 krónum.

Þetta verður að skoðast sem óþörf málsýfing og ofsókn á hendur manni, sem ekkert hefir til saka unnið, og er því verri, sem maðurinn er erlendur og á hjer formælendur fá. Jeg þekki manninn lítið, en till. þessi ber ekki með sjer, að sekt hans sje mikil, heldur að hjer muni að ófyrirsynju reitt hátt til höggs.