13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í C-deild Alþingistíðinda. (3231)

137. mál, skógrækt

Einar Arnórsson:

Jeg bæði bendi á að á sókn og vörn í þessu máli hafa þrír þm. sótt, en tveir varið. Býst jeg við að taka lítinn þátt í hvorutveggja. Vil jeg þó fyrst minnast nokkuð á till. sjálfa. Þó að hún fari ekki beinlínis fram á neina fjárveitingu, þá hlýtur hún að hafa hana í för með sjer. Finst mjer því, þótt ekki sjeu bein fyrirmæli um það í þingsköpunum, að hún ætti að ganga í gegnum báðar deildirnar. — Þetta mál er þannig vaxið, að það dylst engum, að verið er að gera ráðstafanir — jeg skal ekkert um það segja, hvort þær eru rjettar eða rangar — til þess, að maður, sem verið hefir í þjónustu landsins, verði sviftur stöðu sinni. Þetta er ekki svo lítilvægt fyrir þann mann, sem tillögunni er beint að; það er ekki að eins, að hann kynni að verða sviftur stöðu sinni, heldur er allfreklega ráðist á álit hans, að jeg ekki segi mannorð. Ef því svo fer, að þessi till. verður borin undir atkv., þá ætla jeg að leyfa mjer að koma fram með brtt. er fer í þá átt, að í stað Nd. komi Alþingi.

Hjer eru nú ýmsar ákærur fram fluttar á hendur skógræktarstjóra. Virðast mjer það aðallega vera þrjú atriði, sem hann er ákærður fyrir:

1. að hann hafi gert sig sekan um að fleyta skógarviði á vötnum. Fyrir mitt leyti get jeg ekki ásakað hann fyrir það, þótt hann hafi byrjað á þessu; væri trúlegra, að honum væri legið á hálsi fyrir, ef hann hefði ekki gert þessar tilraunir. Till. segir, að þessar tilraunir hafi gengið illa og að mikið fje hafi farið til þeirra; er það þá líklega að skógræktarstjóra sje legið á hálsi fyrir það, að hafa haldið þessum tilraunum of lengi áfram. Nú veit jeg ekki, hvort skógræktarstjóri hefir gert sig sekan í þessu síðan nefndarálit það, sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.) las kafla upp úr, birtist, eða, ef hann hefir gert það, hvað mikið kveði þá að þessari ávirðingu hans, og í öðru lagi, hversu stjórnin hafi brýnt það rækilega fyrir honum að halda sig eftir vilja fjárveitinganefndar. Hafi stjórnin látið þetta afskiftalaust og ekki skipað honum að fara eftir þessu, þá fæ jeg ekki sjeð, að nokkur dómstóll fái dæmt manninn frá stöðu sinni fyrir þessar sakir. Þetta býst jeg auðvitað við að hægt sje að fá upplýst hjá atvinnumálaráðuneytinu, og er sjálfsagt að afla þeirra upplýsinga.

2. ávirðingin, sem þessum manni er gefin að sök, er sú, að hann hafi tekið upp þann sið, sem jeg held að allir telji góðan og sjálfsagðan, að girða land það, sem átti að nota til skógræktunartilrauna, en hafi svo ekki sjeð um, að þeim hafi verið haldið við sem skyldi. Það er ekki óskiljanlegt, þegar litið er til þess tíma, sem við höfum lifað á síðustu árin, þó að girðingum hafi ekki verið sem best við haldið. Fjeð, sem þessi maður átti yfir að ráða, hefir verið af skornum skamti, og hefir fjárveitingin alls ekki farið hækkandi í hlutfalli við það, sem bæði girðingarefni og vinnulaun hafa hækkað. Það er því ekki óeðlilegt, þótt minna væri hægt að gera en áður.

3. ávirðingin er, að lítið hafi á unnist um skógarhöggið. Það má vel vera, að svo sje, en ástæðan til þessa er að nokkru leyti sú sama og um girðingarnar, því hvað er svo sem hægt að láta gera nú fyrir 4–5000 kr.? Viðurkenningin fyrir verðfalli peninganna er ljós í gerðum þingsins, eða hefir það ekki sjeð sig knúð til að hækka alt framlag til vega og annara framkvæmda, af því að hægt er að gera miklu minna fyrir krónuna nú heldur en áður?

Þó því svo megi vera, að hægt sje að finna eitthvað að við þennan mann, og það er enginn sá maður til, síst opinber starfsmaður, sem ekki er hægt að finna að við, þá er það vafalaust svo, að honum, persónulega, mun ekki alt að kenna. Það verða allir að viðurkenna, að fjeð, sem lagt hefir verið til þessa skógræktarmáls úr landssjóði, hafi verið af skornum skamti; verður því kostnaðurinn við hana aldrei mikill. Hitt munu menn og verða sammála um, að þessi maður hefir altaf sýnt óvenjumikinn áhuga á starfi sínu. Hygg jeg, að ekki sjeu honum margir útlendingar jafnfærir í íslenskri tungu, bæði í að tala hana og skrifa, Það má nú vel svara þessu með því, að þetta hafi verið skylda hans, og kannast jeg við það, en þótt það hafi verið jöfn skylda sumra annara, þá hafa þeir ekki leikið þetta eftir honum. — Maðurinn kemur hingað í ókunnugt land og er ókunnugur öllum staðháttum og hugsunarhætti þjóðarinnar. Hann á því mjög erfitt fyrst um sinn, en nú hygg jeg, að hann hafi lifað sig svo inn í hugsunarhátt þjóðarinnar og kynst svo staðháttum hjer á landi, að hann geti farið að beita sjer. Gömul regla segir, að menn viti, hverju þeir sleppi, en ekki hvað þeir hreppi. Þessi regla er sönn, og veit jeg því ekki hvort rjett er að setja þennan mann af embætti nú, þar sem hann hefir gegnt stöðunni lengi og er orðinn starfinu kunnur, því að það getur verið, að síðari villan verði verri hinni fyrri.

Það er alkunnugt, að andstaða hefir verið gegn þessum manni, og það um atriði, sem honum eru ósjálfráð. En það er ekki mikið á því að græða, þótt sleggjudómar hafi verið upp kveðnir. Það má auðvitað nefna dæmi, og þau ekki svo fá, þar sem starfsmenn landsins hafa orðið fyrir mismunandi ummælum. Sjerstaklega er sagt um þá, sem um landið ferðast til að leiðbeina mönnum, t. d. ráðunautum Búnaðarfjelags Íslands, að það sje þarfleysa ein, og það gengur svo langt, að mönnum þessum er brugðið um það, að þeir kunni ekkert til þeirra verka, sem þeir eiga að hafa forsögn á. Það sæmir síst heilli þingdeild, og henni háttv., að hnýta sig aftan í almannaróminn og hlaupa eftir Gróusögum og illmælum, sem dreift er út um hina og þessa.

Ef till. verður samþ., þá er auðvitað, að stjórnin geri sjer far um að framkvæma það, er hún mælir fyrir, og yrði það þá helst gert á þann hátt, að nefnd væri skipuð til að rannsaka allar gerðir og líklega líka skap skógræktarstjórans. Það mætti segja, að þessi nefnd yrði sett til höfuðs honum. Ef rösklega væri að unnið og alt rannsakað út í æsar, þá gæti eins mikið farið til þess og veitt er til skógræktar á einu fjárhagstímabili. Jeg býst við, að þessir menn yrðu að ferðast um landið og skoða þá staði, sem skógræktarstjóri hefir unnið að, og eins hina, sem hann hefir vanrækt að þeirra áliti.

Jeg veit ekki, hvort stjórnin á völ á mönnum, sem færir eru að takast á hendur þessa rannsókn. Jeg veit ekki, hvort hún á völ á mönnum, sem eru eins vel að sjer og maðurinn, sem þeir eiga að dæma, hvað þá heldur að þeir sjeu betur að sjer, en það þyrftu þeir helst að vera. Og ef till. verður samþ., þá verður stjórnin að gæta þess vel að velja óvilhalla menn og menn, sem ekki hefðu hag af því, að niðurstaðan yrði á ákveðinn hátt. Það yrðu að vera ráðdeildarmenn, og þeir yrðu að hafa til að bera meiri þekkingu en sá, sem þeir eru settir til höfuðs. En eru þeir til?

Sú aðferð, sem þingleg er, og sú eina, sem rjett er að fara, er sú, að stjórninni væri falið að fara með þetta mál eins og önnur lík, þegar eitthvað er aðfinsluvert í fari embættis- og starfsmanna landsins. Þar á stjórnin að taka í taumana, og ef hún gerir það ekki, þá er að vita hana, en ekki manninn. Með þeim formála, að stjórnin taki til þeirra löglegu ráða, sem hún hefir vald til að beita, þá legg jeg til, að málinu verði vísað til hennar.