13.09.1919
Neðri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (3234)

137. mál, skógrækt

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg veit, að skógræktarstjóri hefir haldið fleytingu áfram, og um árangurinn er það að segja, að skógræktarstjóri hefir lært af reynslunni, og hefir nú fleytt viði, svo að það hefir borgað sig.

Viðvíkjandi því, hvort stjórnin hafi tilkynt skógræktarstjóra niðurstöðu nefndarinnar, þá man jeg ekki eftir, að sent hafi verið brjef eða annað þess háttar. Það hefir farist fyrir. En jeg hefi talað við skógræktarstjóra um þetta, minst á það munnlega, og er ekki svo, að hann hafi lofað bót og betrun.

Annars þarf jeg ekki miklu að svara hv. frsm. (S. S.) Hann gerði lítið úr því, sem jeg hafði til brunns að bera í þessu máli, en jeg hefi ekki heldur gumað af því. Jeg býst við, að þekking mín á þessu máli standi í rjettu hlutfalli við það, sem jeg hefi látið uppi. En jeg veit ekki, hvort sama verður sagt um hv. frsm. (S. S.), en jeg vil þó ekki fara að skjóta neinum hníflum að honum.

Háttv. frsm. (S. S.) vildi láta stjórnina velja sjerfróða menn til þessarar annsóknar, og er það auðvitað hægt, en jeg efast um, að sá árangur verði af því starfi, sem ætlast er til.

Jeg varð að ganga upp í Ed. og vera við atkvgr. þar, og heyrði því ekki alla ræðu hv. þm. N.-Þ. (B. Sv.), en mjer heyrðist hann tala um, að árangur væri lítill af starfi skógræktarstjóra. Þessi skógmál eru þau mál, sem mjer eru einna kærust, og hefi jeg því reynt að fylgjast með framkvæmdum í þeim. Jeg hefi athugað nokkra bletti á ára fresti, og mjer til gleði hefi jeg orðið var við, að þeir eru fegurri nú og í mikilli framför. Að vísu hefir árferði verið gott, og má eflaust þakka því mikið. (S. S.: Eingöngu árferði að þakka). Nei, ekki eingöngu. Tilfinning manna hefir vaknað, að fara vel með skóga, og eins má mikið þakka aðgerðum skógræktarstjóra. Hann sagði fyrstur manna fyrir um meðferð skóga, grisjun og fleira, og hefir á margan hátt unnið að framför skóganna. Jeg skal játa það, að mistök hafa átt sjer stað, en fyrir því má ekki telja manninn ófæran, því margt hefir honum hepnast, og margt hefir hann vel gert. Jeg hygg, að önnur ráð sjeu til að bæta vöxt og viðgang skóga en að svifta þennan mann embætti.