28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í C-deild Alþingistíðinda. (3254)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg skal ekki fara að blanda mjer í þann meiningarmun um málið sjálft, sem er í milli hv. nefndarhluta. Jeg vil að eins leyfa mjer að skýra afstöðu mína til till. Eftir till. sjálfri er hún nokkuð öðruvísi en hv. meiri hl. skýrir hana í áliti sínu. Hv. meiri hl. hefir samið allgreinilegt nefndarálit, og gefur þar stjórninni bendingar um, hvernig að skuli fara. Sömuleiðis er það mikil framför frá till. 1909, að nú er skýrt látið í ljós álit nefndarinnar um, hvernig að skuli fara, eftir að væntanlegur skilnaður ríkis og kirkju hefir fengist framkvæmdur.

Jeg held nú, satt að segja, að það sje afarerfitt hverjum manni hjer að gera sjer í hugarlund, hver áhrif það myndi hafa á alt þjóðlífið, ef kirkjunni er þannig slept lausri, og engar kröfur eru til hennar gerðar af hálfu hins opinbera. Ef dæma á eftir því, hvernig þetta hefir reynst hjá öðrum þjóðum, á liðnum tíma, þá er óhætt að segja, að sú reynsla sje ekki góð. Að minsta kosti er í mörgum ritum alvörugefinna, hugsandi manna kvartað mjög yfir því, hver áhrif skilnaður ríkis og kirkju í Frakklandi hafi haft.

Það er sem sagt afarörðugt að dæma um þetta. Og jeg held, að þessi till. geti haft miklu alvarlegri áhrif á þjóðlífið, ef hún verður samþ. og upp úr því verður skilnaður ríkis og kirkju, en menn gera sjer alment í hugarlund. Það, sem jeg vildi aðallega sagt hafa, og get þar tekið undir með hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.), er það, að síðustu árin hefir ekki borið á neinum óskum hjá þjóðinni um að hreyfa þessu. Það var um tíma en er ekki nú. Það má auðvitað segja, að ekki sje hundrað í hættunni, þótt spurt sje, ef meiri hluti neitar. Og jeg held, að svarið sje gefið fyrirfram, að söfnuðirnir muni ekki óska skilnaðar ríkis og kirkju, og það þegar af þeirri ástæðu, sem hv. frsm. minni hl. (Þorst. J.) drap á, að jeg ímynda mjer, að söfnuðirnir muni vera hræddir við að taka á sig allan kostnaðinn við að borga prestunum, í stað þess, að ef launafrv. verður samþ., þá kemur mest af launum prestanna beint úr ríkissjóði. En ef þessi till. verður samþ., þá mun hver stjórn, er verður við völd þá, telja sjer skylt að taka málið til meðferðar og spyrja söfnuðina.

En það er að eins eitt í nál., sem mjer er ekki fyllilega ljóst, en það er þetta, að „stjórnin tekur alt málið til meðferðar og aflar sjer þeirrar aðstoðar, er hún þarfnast.“ Mjer skilst, að það sje hið fyrsta, að spyrja söfnuðina, á þann hátt, er tiltækilegt þykir, hvort þeir óski skilnaðar. Nú skyldi svarið vera þannig, að meiri hluti safnaðarmanna sje á móti. Þá skilst mjer, að stjórnin eigi ekki að gera meira. Þá verður ekki framkvæmd þessi till., eins og hún liggur fyrir. En verði aftur á móti, eins og í nál. stendur, meiri hluti atkvæða á því, að rjett sje, að skilnaður fari fram, þá fer málið eins og hjer er sagt. Þetta vildi jeg taka fram, vegna framkvæmda till., ef til kæmi síðar meir.

Jeg verð að álíta rjettara, að till. um þetta mál komi frá báðum deildum, og verð því fylgjandi þeirri brtt., sem fram er komin frá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að setja „Alþingi“ í stað „Neðri deild Alþingis“. Þetta stórmál kemur ekki síður við hv. Ed.

Ef svo skyldi fara, en það kemur nú til síðar meir, að samþyktur verði skilnaður ríkis og kirkju, og alveg látið laust og bundið, hvernig menn haga sinni prestsþjónustu, þá held jeg, að ýmsu ætti að breyta t. d. ýmsum athöfnum sem nú eru kirkjulegar, heimta t. d. altaf borgaralegt hjónaband, en svo ráði einstaklingarnir, hvort þeir vilja líka fá sjer kirkjulega vígslu. Þá fjelli burtu skírnin, sem hefir borgaralegt gildi, og líka fermingin.

Jeg er ekki viss um, að prestar kirkjunnar yrðu svo vel að sjer í trúarbrögðunum, sem hv. meiri hl. þykir æskilegt.

Það getur líka orðið dálítill vandi að koma fyrir eignum kirkjunnar. T. d. getur það orðið mikið spursmál, ef söfnuðir haldast ekki eins og þeir eru nú, hvernig fara eigi með kirkjurnar, hvernig eigi að skifta þeim milli þeirra, er myndast úr þeim eina söfnuði, er áður hafði þær til afnota.

En, sem sagt, það sem lægi fyrir stjórninni, ef till. væri samþ., er að spyrja söfnuðina fyrst og haga sjer svo eftir því, sem svarið verður. Jeg sje ekki annað en stjórnin verði að haga sjer svo, ef till. verður samþ.