28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í C-deild Alþingistíðinda. (3260)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Sigurður Sigurðsson:

Jeg verð að gera stutta athugasemd í þessu máli. — Jeg viðurkenni, að aðskilnaður ríkis og kirkju er í sjálfu sjer stórmál; og þarf því engan að undra það, þó að mikið sje um það rætt hjer á þingi. Það er mál, sem hefir margar hliðar, og er margt, sem athuga þarf því til undirbúnings. En að svo komnu skal jeg ekki fara út í það. Það hefir að vísu margt verið sagt hjer í umræðunum, sem ástæða væri til að svara. En jeg ætla ekki að eltast við það, heldur að eins drepa á örfá atriði. Jeg geri ráð fyrir, að hv. frsm. (G. Sv.) taki það nánar til bænar.

Það er eitt atriði, sem margir hafa lagt áherslu á í umr., sem sje það, að ef aðskilnaður ríkis og kirkju yrði lögleiddur, mundi leiða af því, að hjer kæmu fram leikpredikarar í landinu, og talið það ver farið. En þótt svo kynni að fara, þá sje jeg ekki, hvað væri hættulegt við það. Jeg hefi sjálfur átt kost á að heyra leikprjedikara tala erlendis oftar en einu sinni, og jeg get ekki annað sagt en að þeir sumir hjeldu góðar ræður, sem stóðu ekki að baki mörgu því, sem jeg hefi heyrt flutt úr prjedikunarstól hjer heima. Enda er það ekki að furða, því margir leikprjedikaranna eru vel mentaðir menn og gáfaðir. Jeg skal auðvitað ekki fortaka, að hið gagnstæða geti ekki átt sjer stað, þannig, að leikprjedikarar geri lítið gott. En hinu verður heldur ekki neitað, að sumir þeirra hafa verið með mestu þjóðnytjamönnum, eins og t. d. Niels Hauge, sem svo að segja endurvakti og umskapaði kirkjulegan áhuga í Noregi á sinni tíð. Og mætti nefna fleiri slíka.

Þá hafa sumir borið kvíðboga fyrir því, en aftur aðrir hlakkað yfir, að ekki mundi vera neinn verulegur áhugi í landinu fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Um það skal jeg engu spá. Hins vegar játa jeg, að ekki hefir borið neitt á slíkum áhuga hjá þjóðinni í blaðagreinum síðustu 10–20 árin. En eins og jeg gat um við 1. umr. þessa máls, þá virðist mjer nú svo komið hjer á landi, að áhugi allur á kirkjumálum sje mjög af skornum skamti. Menn eru fallnir í einskonar andlegt mók eða dvala, og ekki er útlit fyrir, að þeir vakni af þeim svefni fyrst um sinn. — Það kann nú að vera, að slík till., sem hjer er á ferð, geti eitthvað rumskað við mönnum, svo að þeir vöknuðu og færu að gefa gaum að, hvert stefndi. Jeg leyfi mjer að fullyrða, að áhugi á kirkju og hennar málum sje mjög daufur hjá þjóðinni, má ske svo daufur, eins og hæstv. forsætisráðherra (J. M.) komst að orði, að menn mundu alment snúast móti skilnaðinum vegna þess, að þá þyrftu þeir sjálfir að sjá sjer fyrir prestum og annast öll mál kirkjunnar Ef þetta er ekki andleg deyfð, þá veit jeg ekki hvað það er.

Áhugi í kirkjumálum og trúmálum er sáralítill. Því verður ekki neitað. Og hvernig á annað að vera? Sumstaðar á landinu er ástandið þannig, að ekki er messað nema 2–3 sinnum á ári. Húsvitjanir leggjast niður, og altarisgöngur eru orðnar mjög fátíðar. En alt hefir sínar orsakir, og eins er með þetta. Ræður sumra prestanna okkar eru blátt áfram sagt hreinasta andlegt gutl, hvorki til uppbyggingar þjóðlífinu eða kirkjulífinu, nje ánægju fyrir nokkurn mann að hlusta á. Meðan þessu heldur áfram „fljóta menn sofandi að feigðarósi“.

Athugasemd sú, sem jeg vildi gera m. a., er við niðurlagsatriði í nál. meiri hl., um það, hvernig fjárhagnum skuli fyrir komið. Af því að jeg er aðaltill. samþykkur, eins og hún er í eðli sínu, þá er jeg hins vegar algerlega mótfallinn þessu niðurlagsatriði hjá nefndinni, um skifting kirkjueignanna.

Í 1. lið á bls. 6 í nál. er sem sje gert ráð fyrir því, að kirkjurnar skuli afhentar söfnuðunum til eignar og afnota, jafnskjótt og skilnaður kemst á. — Jeg er ósamþykkur þessu. Sumstaðar færi svo, að ekki væri fyr búið að afhenda kirkjuna heldur en hún væri rifin niður til grunna, og viðurinn síðan seldur hæstbjóðanda. Eða þá hitt, að hún fengi að standa að vísu, en væri notuð fyrir fundahús, geymslu, skemmu eða annað þvílíkt. Það kemur því ekki til nokkurra mála að afhenda kirkjurnar til fullrar eignar og umráða. — Annað mál er það, ef ríkið segði við söfnuðina: „Nú lánum við ykkur þessa kirkju gegn því, að henni sje haldið við, til afnota við guðsþjónustur.“ — í öðru lagi er jeg alveg mótfallinn því, að söfnuðunum sje afhentur einhver hluti af eignum kirkjunnar. Vitanlega á ríkið eitt að hafa full umráð yfir öllum eignunum. Hitt gæti komið til mála, að aðalkirkjufjelagið (hin evangeliska lútherska kirkja), eða jafnvel fleiri kirkjufjelög, sem kynnu að verða stofnsett, nytu einhverra hlunninda eða vaxta af eignum kirkjunnar, annaðhvort um óákveðinn tíma eða tiltekið áraskeið. En lengra er ekki hægt að fara í þessu efni. Það er fráleitt í alla staði að búta eignirnar í sundur og afhenda nokkurn hluta þeirra söfnuðunum til fullrar eignar. Auk þess er aðgætandi, að þótt aldrei nema meiri hl. þjóðarinnar aðhyltist aðskilnað ríkis og kirkju nú sem stæði, og hann kæmist til framkvæmda, þá er engan veginn gefið og sagt, að það skipulag hjeldist um aldur og æfi. Alt er breytingum undirorpið í þessum heimi. Og þeir tímar geta komið, að þjóðin æski annars skipulags á þessum málum, sem jafnvel gæti farið í þá átt, að sameina aftur ríki og kirkju. Jeg get heldur ekki sjeð neina ástæðu til, að þetta yrði að ósamkomulagsatriði. Jeg skil ekki, að ríki og kirkja þyrflu að standa í neinu stímabraki, þó að hluti af eignunum verði ekki afhentur. Að endingu vil jeg lýsa því yfir, að mjer finst það eðlilegast, að ríki og kirkja væru aðskilin. — Ef hin kristna kirkja væri það, sem hún gefur sig út fyrir að vera, og á að vera í eðli sínu, þá ætti hún að geta sagt með Kristi: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“