16.09.1919
Efri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í C-deild Alþingistíðinda. (3268)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Kristinn Daníelsson:

Jeg get ekki neitað því, að jeg undraðist nokkuð — og undraðist þó ekki — þegar jeg sá þessa till. koma fram. Jeg undraðist að sjá hana koma fram á þessum tímum, þegar engin rödd hefir komið fram um skilnað ríkis og kirkju hjá þjóðinni, á þessum tímum, þegar stór verkefni, sem bíða bráðrar úrlausnar, umkringja þingið á alla vegu, þar sem aftur á móti engum mun blandast hugur um, að enginn bagi sje, þótt þetta mál biði nokkuð. Jeg bjóst við, að ef til vildi hefðu einhverjar skilnaðarraddir komið fram í kjördæmi háttv. aðalflutnm. (G. Sv.), en þegar jeg fór að grenslast eftir því, kom í ljós, að svo hefir ekki verið þar, frekar en annarsstaðar. En hins vegar þarf það þó ekki að vera svo undarlegt, að þessi till. er komin fram. Mjer hefir skilist af blaðagreinum og ýmsum ummælum — jeg er fús að gera afsökun, ef það er misskilningur — að hv. aðalflutnm. (G. Sv.) hafi fremur ímugust á kirkjunni yfir höfuð og starfsemi hennar, og munu þar liggja orsakirnar til, að till. er fram komin. Óskirnar um skilnað ríkis og kirkju hafa aðallega komið frá þeim mönnum, sem eru fráhverfir kirkju og kristindómi, þó að stundum hafi svo undarlega við brugðið, að saman við þá hafa tekið höndum strangkirkjulegustu menn, sem mestan áhuga hafa á kirkjulegum málum, en reynst hafa einatt harðir í garð frjálslyndari hreyfinga. Andstæðurnar hafa því tekið saman um þetta mál.

Það hefir verið talin fyrsta ástæðan, að háværar óskir hafi komið fram um skilnað ríkis og kirkju, en þessar háværu óskir hefi jeg ekki orðið var við. Jeg veit ekki til, að neitt sje hægt að benda á í þá átt, nema þingsál.till., sem samþykt var á þingi 1909, um að skora á stjórnina að koma því máli á framfæri. En stjórnin hefir aldrei sint því að neinu, og ekki var áhuginn meiri en það, að enginn hefir vítt hana fyrir það, en venjulega er þó ekki legið á útásetningurinn í garð stjórnarinnar, þegar ástæða þykir til. Og annað, sem nefna má, er það, að form. kirkjumálanefndarinnar 1904 tjáði sig einn í nefndinni fylgjandi skilnaði ríkis og kirju, án þess þó að koma með neina ákveðna tillögu um það, eða að það hafi fyr nje síðar orðið tilefni til neinnar hreyfingar á málinu.

Þá á það að vera ein aðalástæða, að trúarbrögðin sjeu einkamál manna og óskyld öðrum þjóðfjelagsmálum, sem ríkisvaldið hafi afskifti af. Þessu er þá líka haldið fram nú. Í nefndaráliti meiri hl. í hv. Nd. var í ógnarlega læriföðurlegum tón reynt að sýna fram á, að trúarkend sú, sem er rót alls átrúnaðar — eins og þar stendur — sje með því eðli, að ríkisvaldið megi ekki koma þar nærri.

Þar stendur — með leyfi hæstv. forseta —: „Það gefur að skilja, að tilfinning ræður hjer mestu, en tilfinningar eru framar öllu öðru skapaðar til þess að vera einkamál manna. Einkamál krefjast frelsis; þau eru vje einstaklinganna, sem ríkisvald má ekki blanda sjer í eða leggja hömlur á.“

Hjer hefði eins mátt standa, að trúarkend og tilfinning manna eru framar öllu öðru skapaðar til að hafa áhrif á öll siðferðismál, en siðferðismál eru undirstaða mannfjelags og góðrar þjóðfjelagsskipunar. Þess vegna verður ríkisvaldið að veita þeim málum hina nákvæmustu athygli, vera viðbúið að leiða á því sviði, ekki síður en öðrum, og styðja þær stefnur, sem reynslan staðfestir og almannasamþykki viðurkennir að eru hollastar.

Nei, nú á tímum ætlast enginn til, að ríkisvaldið leggi hömlur eða frelsishöft á trúarkendir manna eða átrúnað, heldur styrki hann og taki í þjónustu þjóðfjelagsins.

En því er haldið fram, að trúarbragðafrelsið sje eitthvað skert með sambandi kirkjunnar við ríkið. Það er sagt, að trúarbragðafrelsið, sem stjórnarskráin veitir með annari hendi, sje tekið með hinni. Með því að halda uppi gjaldskyldu, í sambandi við trúmálin, þá sje „ekki um trúarbragðafrelsi að ræða í rjettum skilningi“, — gjaldskyldan sje slagbrandur fyrir því frelsi. Jeg fæ nú ekki betur sjeð en að gjaldskyldan sje enginn slíkur slagbrandur, og að þetta alt sje heimildarlaus og órökrjett ályklun, — trúarbragðafrelsi tekið í röngum skilningi. — Jeg vil nú fyrst minna á það, að stjórnarskráin nefnir hvergi trúarbragðafrelsi, enda er það algerður óþarfi, því að trúarbragðafrelsið í rjettum skilningi — trúar- og hugsunarfrelsi — er nú á tímum orðin fullkomin eign allra, sem enginn getur svift þá, eins og ljósið og loftið, og margir kynnu nú að vilja bæta við vatnið, sem engum dettur í hug að meina neinum.

Hitt gerir stjórnarskráin — um leið og hún byggir á þeirri staðreynd, að lútherska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi — að hún tryggir öðrum heimild til að stofna trúarfjelög út af fyrir sig; og þau fjelög eru eigi skyld að gjalda til þjóðkirkjunnar, og hún gengur jafnvel svo langt, að þó að maður utan þjóðkirkjunnar sje í engu trúarfjelagi, skal hann samt eigi gjaldskyldur til kirkjunnar, ef það stríðir á móti sannfæringu hans.

En að menn annars verði að gjalda til stofnunar, sem þjóðin telur svo nýta, að hún vill og ákveður að halda henni uppi með slíkum hætti, sem öðrum þjóðnytjastofnunum og fyrirtækjum, það fæ jeg eigi sjeð að sje ósanngjarnt eða órjettara en að verða að gjalda skatta sína til annara þjóðnytjastofnana, vega, brúa, skóla og embættismanna, eða segjum flugvjela, þó að þeir hafi þá sjerskoðun, að eitthvað af þessu sje óþarft eða jafnvel til ógagns. Enginn meinar þeim að hafa sína skoðun, en enginn telur þó frelsi þeirra heft, þótt þeir í notum þess, að þeir njóta verndar og gæða þjóðfjelagsins, verði að láta það ráða, til hvers tillögum þeirra í þjóðfjelagsþarfir er varið.

Jeg sje eigi betur en að maður, sem ekkert vill gjalda í hreppavegasjóð, geti með sama rjetti heimtað að greiða tillag sitt í háskólasjóð.

Alt öðru máli væri að gegna, ef kirkjan væri eigi talin þjóðnýt stofnun. Þá hefði jeg ekkert að segja, enda fjelli þá alt um sjálft sig; en það dettur tillögumönnum, eða tillögumanni, alls ekki í hug. Þeir vita, að kirkjulaus yrði þjóðin ekki, en ætla að varpa á hana því feiknastarfi, — jafnvandasömu sem miklu, þegar kirkjan væri slitin úr marga alda sambandi sínu við ríkið, og óstudd af þeim skipulagsmeðulum, sem það hefir yfir að ráða — að koma frá rótum nýrri skipun á kirkjuna og ráða fram úr öllum þeim margháttuðu erfiðleikum, sem þar yrði að mæta.

Nei, trúarbragðafrelsið er í engri hættu statt vegna sambands kirkjunnar við ríkið. — Fríkirkja, skilin við ríkið, tryggir ekki betur það frelsi, nema ef til vill síður sje. — Þröngsýni og hugsanaþvingun er hvergi meiri en í sumum fríkirkjusöfnuðunum.

Það er satt, að nú óska margir eftir að hafa frjálsa kirkju, það er að segja þjóðkirkju með frjálsri hugsun og eðlilegri þróun, og frelsi til að ráða sjálf málum sínum, yfirleitt frelsi, sem jeg fæ ekki sjeð, að frjálst ríki mætti telja sjer ósamboðið að styðja. En það er hinn mesti misskilningur, að slíkt frjálslyndi geti ekki átt sjer stað nema í fríkirkju. En það er einmitt talin ein aðalástæðan fyrir þessu máli af flutningsmönnum eða höfundi meiri hluta álitsins, að slíkt frjálslyndi hefir tekið að gera vart við sig.

Hann telur eina helstu ástæðuna „ástandið í kirkjunni sjálfri, sundrung og stefnubreytingar, nýjar hreyfingar og óskyldar lútherskunni, að því er flestum þykir.“ —

Í fyrsta lagi er þetta: „að flestum þykir“, ósannað mál, en úr því þessum mönnum annars er svo ant um lútherskuna, hvers vegna þá skilja? Það er í hæsta máta ólútherskt. Lúther sjálfur leitaði kirkju sinni verndar og styrks í sambandi við ríkið. Og hve nær hefir kirkjan verið svo með nokkru lífsmarki, að ekki væru nýjar hreyfingar, sem af einhverjum hafa verið taldar með öllu óskyldari hinni ríkjandi stefnu? Það hygg jeg að aldrei hafi verið, nema kann ske á allra mestu drotnunartímum kaþólskunnar. — Annars ætla jeg — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp hin ágætlega vel sögðu orð í áliti minni hl. í Nd. um ástandið: „Íslensku þjóðkirkjunni hefir aukist mjög frjálslyndi á síðustu tímum. Guðfræðisdeild háskólans hefir verið skipuð mönnum, sem hafa rýmkað sjóndeildarhring hennar. Kirkjan hefir þar með fengið lífsloft og hefir samþýðst nýrri menningu og framþróun. Ný trúarvakning hefir orðið í landinu, og margt bendir til, að nýtt líf sje að færast í kirkjuna, en það gefur aftur von um, að þjóðkirkjan muni enn geta orðið ein sterkasta stoð undir menningu þjóðarinnar. Þetta mun mega telja aðalástæðu fyrir því, að skilnaðarhugmyndin hafi mist fylgi.“

Undir þessi orð vil jeg taka og gera þau að öllu leyti að mínum orðum. Það gæti verið ástæða til að fara fleiri orðum um þessa trúarhreyfingu, en jeg býst við, að hv. deild sje mest þægð í, á þessu stigi málsins, að því sje slept. Enda vona jeg, að hún hafi þá gætni til að bera, að hún eigi samþykki jafnlítið hugsað mál og þetta.

Þá er eftir það, sem er talin ein aðalástæða þessa máls, og ef til vill er aðalástæðan, en það er kostnaðurinn. Það má til sanns vegar færa, að þetta sje, eins og í nál. segir, einmitt nú „sjerstök“ ástæða, þegar verið er að hækka laun embættismanna ríkisins, og þar á meðal prestanna, og nú í fyrsta sinn sýndur litur á að gera það, sem allar aðrar þjóðir hafa fyrir löngu gert, að láta þá njóta svipaðs rjettar sem aðra starfsmenn ríkisins. En þess ber á hinn bóginn að gæta, að þótt þessum kostnaði, launum prestastjettarinnar, væri ljett af, þá kæmi sá kostnaður á þjóðina í annari mynd, því að enginn gerir ráð fyrir, að prestastjettin hyrfi úr sögunni. Hún mundi verða við lýði eftir sem áður og þurfa sín laun og fá þau, en þau mundu koma ójafnara niður, og alt verða erfiðara viðfangs. Þar við bætist það, að hætt er við, að starfsemi prestastjettarinnar með því fyrirkomulagi yrði ávaxtarýrari fyrir andlegt líf þjóðarinnar, menningu hennar og siðgæði.

Það er svo að sjá, sem flytjendur þessa máls yfirhöfuð hafi gleymt þeim tveimur höfuðatriðum: Hvað tekur við, og með hvoru fyrirkomulaginu verður trúarlífið heilbrigðara?

Enginn getur nú neitað því, að með skilnaði ríkis og kirkju er opnað hlið fyrir óhollara og óþjóðlegra kirkjulífi, en að rekja það hjer yrði of langt mál, og skal jeg því eigi fara frekar út í það.

Í nál. er vitnað til kirkjufyrirkomulangsins í öðrum löndum, en sú skýrsla er næsta óábyggileg, skýringarlítil og villandi, svo að ekki sje meira sagt. Það er alveg rjett, að mjög mikilsvert getur verið í þessu máli að hafa skýrslu um fyrirkomulagið hjá öðrum og hvernig það gefst. Það fann kirkjumálanefndin danska og hlutaðist til um samning slíkrar skýrslu; var það heil bók, rituð af lærðum sjerfræðing, um skipulagið í mótmælendakirkjum, því að af kaþólskum kirkjum getum vjer lítið haft að læra í meðferð þessa máls. Mjer hefir að vísu ekki unnist tími til að kryfja þessa skýrslu nefndarálitsins til mergjar, en jeg skal þó leyfa mjer að benda á fáein atriði.

Á kirkjufyrirkomulaginu í Vesturheimi er næsta lítið að byggja í þessu sambandi. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að þar er þjóðablendingur meiri en á sjer stað nokkursstaðar annarsstaðar um víðan heim, og þegar af þeirri ástæðu er sameinuð ríkiskirkja þar lítt hugsanleg. Á Norðurlöndum hefir samband ríkis og kirkju aldrei verið fastara en nú, og sama er að segja um Finnland, og undanskil jeg þá skoðanir jafnaðarmanna á kirkjumálum, sem jeg tel óviðkomandi í þessu máli. Á Hollandi eru prestar launaðir að mestu af ríkisfje. Í Belgíu er kirkjan að vísu mjög sjálfstæð, en er þó ríkisstofnun, og fer mjög vel á því.

Þá segir í nefndarálitinu, að menn uni vel við fyrirkomulagið á Frakklandi, síðan þar varð skilnaður ríkis og kirkju, en það er alls ósönnuð og ósennileg staðhæfing. Meira að segja er sú saga sögð, að Clemenceau hafi sagt við erkibiskupinn í París, að nú gæti verið tækifæri til að sameina aftur.

Þá er of snemt að telja daga þjóðkirkjunnar talda á Þýskalandi; enn þá er ómögulegt að gera sjer nokkra grein fyrir, hvernig fyrirkomulagið muni verða þar, en nái betri hlið þýsku þjóðarinnar yfirtökunum, eru einmitt líkur til þess, að þjóðkirkjan eigi þar langan aldur, þó að nú sje alt á ringulreið. Af ástandinu í Rússlandi og Ungverjalandi má nærri geta, að ekkert er hægt að marka, eins og alt er þar nú í uppnámi, eða yfir höfuð af því, hvað æstustu jafnaðarmenn og bolsjevikar ætla fyrir sjer um kirkjumál.

Í nál. er því haldið fram, að reynslan sýni, að trúmálaáhugi glæðist við aðskilnað ríkis og kirkju, en það get jeg alls ekki fallist á. Mjer kemur ekki til hugar að neita því, að skilnaðurinn yrði sumum mönnum hvöt til þess að gefa sig meira við trúmálum en þeir gera meðan alt er í sínum gömlu skorðum, en það mundu að eins verða undantekningar, og jeg hygg, að verkunin af skilnaðinum mundi einmitt verða alveg gagnstæð. En annars er alt, sem um þetta er sagt, einberar staðhæfingar, því að engum sönnunum er til að dreifa.

Ef í þessu efni ætti eftir nokkru að fara, þá væri rjettara að marka vora eigin reynslu, og hún bendir alls ekki á, að staðhæfing meirihl. nefndarálitsins sje á rökum bygð, því að því fer fjarri, að trúmálaáhugi fríkirkjusafnaðanna hjer á landi hafi reynst meiri en í söfnuðum þjóðkirkjunnar. Af vorri eigin reynslu virðist því þvert á móti mega draga þá ályktun, að skilnaðurinn mundi alls ekki draga úr þeirri deyfð í trúmálalífi þjóðarinnar, sem mörgum er svo tíðrætt um, en jeg get tekið undir með minni hl. og sagt, að alls ekki er eins mikil og orð er gert á.

Í nál. meiri hl. er því haldið fram, að engin knýjandi þörf sje til þess, að ríkið fyrirskipi sjerstök trúarbrögð. En þetta er hreint og beint villandi. Það veit hvert barn, að ríkið fyrirskipar ekkert um trúarbrögðin. En jeg skal fúslega kannast við, að jeg tel fulla þörf á því, að ríkið hafi hönd í bagga með þeirri kirkju, sem á að gagnsýra þjóðlífið, enda hefir sjálf nefndin sjeð þetta, því að hún ætlast þó til, þrátt fyrir alt, að ríkið eigi að sjá henni fyrir háskólamentuðum prestum, og tel jeg henni það til gildis, þótt það samrýmist ekki röksemdum hennar, ef þær eru raktar til rótar.

Jeg bið hv. þingdm. afsökunar á því, að jeg hefi orðið svo fjölorður, en mjer finst, að jeg hefði þurft að segja þúsund sinnum fleira um þetta mikla mál, þegar með ljettúðugri hendi á að slíta aldagömul bönd, sem svo margar af bestu og mestu endurminningum þjóðarinnar eru tengdar við.

Jeg ætla ekki að svo stöddu að fara út í fyrirhugaða framkvæmd málsins; til þess er ekki tími, og varla tilefni, að þessu sinni.

Í hv. Nd. vantaði eitt atkv. til þess, að till. væri feld. Jeg leyfi mjer að leggja til og vona, að þessi hv. deild leggi það til, sem á vantaði þar, og málið sje þar með úr sögunni um sinn.

Til stuðnings því, að till. sje ekki leyft fram að ganga, skal jeg leyfa mjer að taka fram, að þjóðin hefir enga ósk látið í ljós um skilnað ríkis og kirkju, að skilnaðurinn mundi leggja þjóðinni ósegjanlegan vanda á herðar og að hann mundi, að minni skoðun, vafalaust valda afturför fyrir andlegt líf þjóðarinnar, og ef til vill óbætanlegu tjóni, ef hann næði fram að ganga.

Það getur ekki verið nægileg ástæða til þess að greiða atkv. með þessari till., að þjóðin fái með því móti tækifæri til þess að láta skoðanir sínar í ljós og kveða niður þær raddir, sem hafa heyrst um skilnað ríkis og kirkju, svo ekki sje verið að ympra á því máli í óþökk hennar, því atkv. þm. með till. verður ekki lagt öðruvísi út en svo, að hann sje málinu fylgjandi, og sje hann það ekki, getur hann ekki heldur greitt till. atkv. sitt. Í þessu máli á það ekki að vera þingið, sem kemur þjóðinni af stað, heldur þjóðin, sem kemur þinginu til þess að hefjast handa. En það er á allra vitorði, að hún hefir ekkert slíkt gert.