16.09.1919
Efri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í C-deild Alþingistíðinda. (3270)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Eggert Pálsson:

Þó að jeg hafi beðið um orðið, er það ekki til þess að fara að halda neina dómadagsræðu um till. Hv. þm. er kunnugt um, að jeg hefi engan tíma haft til undirbúnings; tel líka óþarft að fara að halda prjedikun um það, hvort muni þjóðinni meira virði, að hafa fríkirkju eða þjóðkirkju. Jeg álít, að um slíkt eigi að deila annarsstaðar en hjer, í þessari hv. deild. Það kæmi þá fyrst til, er frv. um skilnað ríkis og kirkju stæði fyrir dyrum. En því er engan veginn svo farið.

Hvort sem jeg tel fríkirkju eða þjóðkirkju heillavænlegri með þjóðinni, get jeg greitt atkv. um till., enda finst mjer hún gefa enga ástæðu til að kveða upp með það, hvort fyrirkomulagið þm. telji betra.

Sumir af flm. till. telja sjálfsagt fríkirkju hollari, en jeg er ekki í vafa um, að sumir af þeim hv. þm. í Nd., sem greiddu till. atkv., munu ekki líta svo á, að þjóðkirkjan sje búin að spilla svo fyrir sjer, eða vinna sjer svo til óhelgi, að hún eigi ekki rjett á sjer. En ef helmingur þjóðkjörinni þm. væri þeirrar skoðunar, að best væri að losna við kirkjuna, er sennilegt, að þjóðin væri svipaðrar skoðunar. En jeg býst frekar við, að enn sem komið er sje hvorki þing nje þjóð þeirrar skoðunar, og þykist enda viss um, að margir háttv. þm., sem greitt hafa atkv. með till., líta svo á, að þjóðkirkja sje engu síðri en fríkirkja.

En því verður ekki neitað, að oft hefir andað kalt í garð þjóðkirkjunnar, bæði utan þings og innan. Hvernig meiri hl. þjóðarinnar lítur á málið, ef um skilnað ríkis og kirkju væri að tefla, hefir verið og er enn deilt um. En væri svona till. borin upp fyrir þjóðinni, væri hún neydd til að taka afstöðu í málinu. Þá yrði hún að gera sjer skýra grein fyrir því, hvort hún telur kirkjur og presta nauðsynlega eða ekki. Þetta tel jeg mikils um vert.

Væri þessi till. borin upp fyrir þjóðinni, þannig, að hún fengi ljósan skilning á því, að um tvent væri að velja annaðhvort að hafa áfram ríkiskirkju með þeim kostnaði, sem hún óhjákvæmilega hlýtur að hafa í för með sjer, eða fríkirkju, sem ljetta mundi á landssjóðnum gjöldum, hvort sem það fyrirkomulag yrði henni í sjálfu sjer kostnaðarminna en það, sem er, þá teldi jeg mikið unnið. Með því móti kæmi skýrast í ljós, hvern hug hún bæri til kirkjunnar og þar með prestastjettar landsins.

Fjelli úrskurður hennar á þá leið, að hún vildi skilnaðinn, benti það í þá átt, að kirkjan, eins og henni nú er háttað, gerði, að hennar áliti, mjög lítið gagn.

Yrði hin skoðunin ofan á, mundi þjóðin, fyrir atkvæðagreiðsluna, bindast þjóðkirkjunni enn fastar en nú er, og þá um leið vera bundin til þess að styðja hana og meta þjóna hennar meira í framtíðinni en nú á sjer stað.

Jeg er ekki í vafa um, að væri um kristindómsfjendur að ræða, myndu þeir ekki óska, að slík till. sem þessi væri nú borin upp fyrir þjóðinni. Frá þeirra sjónarmiði er hentugasta aðferðin til þess að ná takmarkinu, sem þeir stefna að, sú, að fara sem verst með kirkjuna, kvelja presta hennar sem mest og koma henni í sem mesta niðurlægingu. Þess vegna hygg jeg gróða fyrir kirkjuna, að þjóðin sje strax spurð þessarar spurningar, í stað þess, að beðið sje með hana og haldið áfram ríkiskirkju undir stimpli lítilsvirðingar og vanrækslu frá þjóðarinnar og löggjafarvaldsins hálfu, þar til svo væri komið, að kirkjan ætti fáa menn í þjónustu sinni, sem verulegrar virðingar gætu notið.