16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í C-deild Alþingistíðinda. (3278)

159. mál, ríkið nemi vatnsorku í Sogni

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er svo, að jeg býst við, að hvorki jeg nje aðrir þm. geti sagt með vissu, hve löng æfi þessarar stjórnar verði úr þessu. Býst jeg fremur við, að hún verði mjög stutt.

En þó að stjórnin sitji lengur, og jeg verði áfram í stjórn, þá er það víst, að í raun og veru heyrir 1. liður þessarar till., um framkvæmdirnar, ekki undir mig, heldur aðra ráðherra í ráðuneytinu.

En annars verð jeg að telja sjálfsagt, í svo stóru máli, að ráðherrar dragi enga dul á skoðanir sínar. Verð jeg að segja, að skoðun mín er sú, að 1. liður þessar till. sje algerlega óþarfur. — Eftir að hafa kynt mjer alt, sem skrifað hefir verið um þessi mál, og þær tilvitnanir í íslensk lög, er þar koma fram, hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að landeigendur hafi eignarrjett, eða rjett, er eignarrjetti líkist, til vatns þess, er rennur um land þeirra. Persónulega er jeg ekki í nokkurri óvissu um þetta atriði.

En það er eitt atriði í þessari till., sem hjer liggur fyrir, og líka hefir komið fram í annari till. hjer í hv. deild, sem sjerstaklega hefir vakið mína ánægju. En það er það, að svo lítur út, að nálega allir háttv. þm. sjeu sammála um, að landið þurfi sem allra fyrst að ná í Sogsfossana. En það atriði skiftir að minni skoðun mjög miklu máli, því að jeg hygg það rjett vera, að engir fossar í þessu landi sjeu eins vel lagaðir til þess að koma af stað ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum.

Þess vegna er það, að hvernig sem fer um þessa till., þá vona jeg, að einhver heimild verði samþ. handa stjórninni til að ná fullum umráðum yfir þessum fossum.