16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í C-deild Alþingistíðinda. (3279)

159. mál, ríkið nemi vatnsorku í Sogni

Sveinn Ólafsson:

Hvort er hv. þm. Dala. (B. J.) svo nær, að hann megi heyra orð mín? (B. J.: Oft er í holti heyrandi nær). Velkominn á vettvang!

Hv. þm. Dala. (B. J.) hjelt því fram, að jeg hefði viðhaft stóryrði hjer í deildinni í sambandi við þau orð, er jeg talaði út af till. á þgskj. 795. En jeg man ekki til, að jeg viðhefði nein stóryrði. Hefir hv. þm. (B. J.) líka láðst að nefna eitthvað af þeim. Jeg talaði einmitt mjög varlega og gerði mjer alt far um að styggja ekki þann hluta hv. samvinnunefndar, sem að till stendur. —

Það var eitt, sem jeg tók fram, og bersýnilega kom illa við hv. þm. (B. J.), sem sje það, að í 1. lið till. lægi skipun til stjórnarinnar um að fara ránsferð á hendur einstökum mönnum. Jeg stend við það, að eftir mínum skilningi er hjer ekki um annað að ræða, svo framarlega sem jeg skil orðið „rán“. Enda er jeg í engum vafa um, að þetta orð skilgreinir hv. þm. Dala. (B. J.) eins og jeg; við munum álíta, að það sje að taka með valdi og án endurgjalds af einhverjum það, sem er álitið hans eign. Og að óviðurkvæmilegt sje að skipa stjórninni að gera slíkt, verð jeg að standa við. Held jeg því fram, að þingið geti ekki, sóma síns vegna, látið slíka skipun til stjórnarinnar frá sjer fara.

Alveg tilefnislaust og mishepnað var það af hv. þm. Dala. (B. J.) að kasta til mín kaldyrðum um vatnsrán og reyna að telja öðrum trú um, að jeg væri sá sanni vatnsræningi. Jeg vil minna hann á, að jeg hefi ekki búið til orðið „vatnsræningi“, og það er ekki til á prenti sagt af mjer. Að aðrir hafa tekið upp þetta nafn og flimtað með það, auðvitað honum til hnjóðs, eins og eðlilegt var, eftir frammistöðu hans í þessu vatnamáli, er mjer óskylt. Þessi tilraun til að koma „vatnsræningja“- nafninu á mig, hefir því mistekist með öllu.

Þessum orðum sínum reyndi hv. þm. Dala. (B. J.) að finna stað með því, að benda til þess, að jeg hefði komið fram með sjerleyfislagafrv., en ónýtti alveg þann rjett landeigenda til vatnsins, sem jeg teldi óvefengjanlegan. Þessu geta þeir ef till trúað, sem ekki hafa lesið frv. mitt, en þeim, sem þekkja það, verður eigi talin trú um það. Þeir munu fljótt finna, að frv. felur í sjer rjettmæta takmörkun á umráðarjetti landeigenda yfir vatninu, takmörkun hliðstæða mörgum öðrum takmörkunum, sem ríkisvaldið leyfir sjer, en engan veginn verður heimfærð til sviftingar á eignarrjetti, eins og kenning hv. þm. Dala. (B. J.) um vatnsrjettindin.

Hv. þm. Dala. (B. J.) virtist vera mjög gramt í geði út af því, að jeg hafði enn einu sinni lýst yfir þeirri sannfæringu minni, að einstaklingarnir ættu vatnið á jörðum sínum. Og sjerstaklega fanst honum það bíræfin kenning af því, að ýmsir merkir menn og þar á meðal jafnvel hann sjálfur og hv. 2. þm. Árn. (E. A.), sem er prófessor í lögfræði, eru á gagnstæðri skoðun. Jeg vil nú, út af þessum digurmælum hv. þm. (B. J.), láta þess getið, að þótt jeg væri um eitt skeið í vafa um það í fossanefndinni, hver ætti umráðarjettinn yfir vatninu, þá hvarf allur sá efi, þegar jeg hafði lesið greinargerð þessara háttv. herra fyrir því, að ríkið ætti vatnsaflið. Þeir sannfærðu mig um andstæðu þess, sem þeir ætluðu að sannfæra mig um. Jeg skal þó ekki neita því, að ástæður þeirra væru skynsamlega og vel fluttar, svo illur og öfugur sem málstaðurinn var.

Og jeg kannast fúslega við, að vörn hv. 2. þm. Árn. (E. A.) fyrir þessari óverjanlegu skoðun var og er í sinni röð einskonar meistaraverk í því að rengja og flækja rjett mál. En niðurstöðumar eru rangar og ekkert annað en „Sofisteri“.

Þá vildi háttvirtur þingmaður Dalamanna (B. J.) halda því fram, að það væri eigingirnin, sem drægi mig að sjereignarkennngunni um vatnið, og átti sjálfsagt að skilja það svo, að af því að jeg ætti sjálfur land, þar sem fallvatn væri, mundi jeg halda því fram, að landeigandi ætti vatnsaflið. Jeg ætla ekki að kljást við hann um þessa kenningu. Hann hefir margjórtrað hana áður, og læt jeg mjer ekki bylt við verða. En hitt veit jafnvel hv. þm. Dala. (B. J.), að þau vatnsrjettindi, er jeg gæti átt, eru svo hverfandi lítil í samanburði við það, sem hjer er um deilt, að um þau tekur ekki að tala. Eftir sjerleyfislagafrv. því, sem borið er fram af samvinnunefnd fossamála, myndi jeg þrátt fyrir alt vera einráður yfir þeim lækjarsprænum, sem renna í mínu landi, og er því hv. þm. (B. J.) hjer að blekkja sjálfan sig og aðra.

En annars er ógnarhægt, er svo stendur á, að röksemdafátæktin er annars vegar — eins og hjá hv. þm. Dala. (B. J.) í þessum hlutum — að slá á þann strenginn, að gera mótstöðumönnunum getsakir. Jeg ætla ekki að beita þeirri aðferð við hann og engar getsakir að gera honum. En jeg lít svo á, að af því að hann, eins og öllum er kunnugt, er langmesti „idealisti“ allra þingmanna, þá sje vatnsránskenning hans eðlileg afleiðing af skáldhneigð hans og sífeldu „loftsiglingum“. En jeg endurtek það, að kenning hans í þessu máli er röng og fer í bág við landslög og rjett og rjettarmeðvitund þjóðarinnar.