16.09.1919
Neðri deild: 65. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í C-deild Alþingistíðinda. (3290)

156. mál, bannmálið

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Við flm. þessarar till. teljum okkur skylt að gera nokkra grein fyrir henni, og mun sú greinargerð einkum fólgin í því, að rekja tildrög og ástæður fyrir henni og að draga fram þær staðreyndir, sem nú eru orðnar öllum augljósar í hinu svo kallaða bannmáli.

Á Alþingi 1905 var ákveðið að bera undir atkvæði þjóðarinnar, hvort banna skyldi aðflutning á áfengi. Þessi hugmynd var í fyrstu komin fram hjá Goodtemplarareglunni hjer á landi. Þá voru þegar deildar skoðanir um það, hvort rjett væri að bera þessa hugmynd undir atkv. þjóðarinnar, og hvort heppilegt væri að leiða hana í lög. Deilan um bannið er því miklu eldri en bannlögin; hún var hafin áður en atkvgr. um bannhugsjónina fór fram, haustið 1908.

Það verður ekki um það deilt, að þeir heiðursmenn, sem fyrir bannhugsjóninni börðust, gerðu það í góðum tilgangi. Um það geta víst allir verið sammála, að æskilegt væri, að ekkert áfengi væri til í landinu, og þar af leiðandi ekkert áfengisböl. En þess ber að geta, að 1908 greiddu kjósendur atkv. um bannhugsjónina eina, en ekki um bannlögin, eða holdgun þessarar fögru hugsjónar. Jeg held, að óhætt sje að fullyrða, að ef kjósendur þá hefðu vitað, hvaða búning hugsjónin mundi fá og hvað haldgóður hann yrði, þá hefðu atkvæði orðið á aðra lund. Það er að minsta kosti víst, að sumir, sem höfðu verið hugmyndinni fylgjandi, ljetu sjer fátt finnast um búning hennar í bannlögunum. En hugsjónin var glæsileg og girnileg til reynslu. Áfengislaust land blasti við í náinni framtíð, og menn fyltust fögrum framtíðarvonum. Menn gerðu sjer vonir um batnandi siðferði í landinu. Menn gerðu sjer vonir um batnandi efnahag manna, því þeir voru því miður alt of margir, sem sökum áfengisnautnarinnar höfðu orðið ófærir til að eignast nokkuð, eða gæta efna sinna. Menn bjuggust við andlegri og tímanlegri blessun af vínbanninu.

Það var því síst að furða, að þessi hugsjón fengi marga fylgismenn og ötula, og margir greiddu atkvæði með henni. Og svo fór líka, að flokkur hinna vongóðu manna varð í meiri hluta við atkvæðagreiðsluna 1908. En þessi meiri hl. varð þó hvergi nærri eins öflugur og fylgjendur málsins höfðu gert sjer vonir um. Bannið var samþ. með að eins 3/5 hlutum kjósendanna, og á móti var harðsnúinn andstæðingaflokkur, og var þannig fyrirfram vitanleg öflug andstaða á móti lögunum. Þessi fyrsti þáttur málsins endaði þannig með vonbrigðum bannvínanna, og síðan má segja, að hver vonbrigðin hafi rekið önnur.

Þegar annar þáttur hefst, eru þegar dimm ský yfir vonargerði bannmanna. Þau ský hverfa ekki af vonarhimninum, þegar hugsjónin er holdi klædd með bannlögunum 1909. Það var fyrirfram fengin vissa fyrir því, að mikill hluti þjóðarinnar var andvígur bannlögunum, og margir ljetu í ljós þann óhug sinn bæði í ræðu og riti, og stundum með ómjúkum orðum. Lögin áttu þegar í stað ekki þau ítök í hug og hjarta þjóðarinnar, sem öllum lögum eru nauðsynleg, en þó engum eins nauðsynleg og svona lögum, sem ganga eins næri persónufrelsi einstaklinganna. Vitandi vits um þetta gekk löggjafarvaldið að þessari lagasetningu. Andstaðan varð meira að segja svo almenn, að jafnvel sumum bannmönnum hraus hugur við hugsjóninni fögru, er hún var komin í bannlagabúninginn. Mjer fór að minsta kosti svo, og sama get jeg sagt um fleiri. Mjer þótti löggjafarvaldinu ekki takast sem skyldi, þótt jeg væri þar með starfandi. Jeg get ekki áfelst það, því vissulega var ærinn vandi að smíða þessari hugsjón haldgóðan og hentugan búning, er ekki hneykslaði rjettartilfinning einstaklinganna og sjálfsagðasta athafnafrelsi þeirra.

Annar þáttur þessa máls varð því einnig sár vonbrigði bannvínanna. Jeg ætla ekki að rekja þessa sögu mikið lengra, en hún er sannkölluð raunasaga, og „altaf bætist þar raun við raun“.

Þær glæsilegu vonir, sem komu mönnum til að greiða atkv. með hugsjóninni fögru og framkvæmd hennar í bannlögunum, hafa óneitanlega orðið sjer til skammar. En hrakspár andbanninga hafa þar á móti ræst, og það svo átakanlega, að öllum góðum mönnum, sem unna siðgæði, reglusemi og löghlýðni í landinu, er sár raun að.

Vonirnar rættust svo illa, en hrapspárnar svo átakanlega, að landið hefir ekki flotið í mjólk og hunangi siðgæðis og löghlýðni síðan bannlögin gengu í gildi, heldur í brennivíni, Whisky og Cognaci lögbrjótanna. Saga bannlaganna hefir ár frá ári orðið meiri og meiri raunasaga fyrir þjóðina.

Það, sem átti að auka þjóðarheill og þjóðarsóma, hefir reynst þjóðinni til skaða og minkunnar. Jeg tala hjer ekki af neinu ofstæki eða fer með neinar öfgar; þetta eru staðreyndir um þetta mál, sem mjer er sönn raun að þurfa að tala um.

Reynslan hefir sýnt, að siðgæðisþroski þjóðarinnar hefir ekki grætt á banlögunum, heldur stórtapað, en það eru aðrir, sem hafa grætt, grætt svo, að öllum þykir ilt til að vita, og það eru bannlagabrjótarnir. Óhlutvandir menn, útlendir og innlendir, hafa öll þessi ár rist blóðörn á baki íslensku þjóðarinnar með lögbrotum. — Í vasa þeirra kumpána hafa runnið, jeg vil ekki segja margar krónur, heldur tugir þúsunda króna; þær hefir þjóðin mist í þessa hít, lögbrjótahítina. Áður runnu margar þúsundir í áfengishítina, en menn hafa síst búist við, að þúsundirnar hjeldu áfram að renna, og hítin lengdi að eins nafn sitt í áfengislögbrjótahít.

Það er líka á annað að minnast. — Margur fáráðlingurinn svalar nú drykkjufýsn sinni í óþverra og ólyfjan, og missir fyrir það heilsu sína á skömmum tíma. Þess eru þegar dæmi, að ungir menn eru orðnir heilsulausir og óverkfærir á tveim árum og lentir á sveit sinni, vegna nautnar þeirrar áfengisólyfjanar, sem engum lifandi manni datt í hug að leggja sjer til munns áður en bannið kom til sögunnar. Jeg veit, að vinir bannlaganna reyna að gera lítið úr þessum og öðrum ósköpum, sem bannlögin hafa leitt yfir þetta land, og jeg áfelli þá ekki svo mjög fyrir það. Þeim er nokkur vorkunn, þótt þeir reyni í lengstu lög að vona betri ávaxta af bannlögunum, en jeg skal engu um það spá, hve lengi þeim tekst að vera rólegir og alls óhræddir í vonargerði sínu, en reynslan hefir þegar gert allharðar árásir á þetta vonargerði þeirra, og mörgum sýnist það þegar að falli komið.

Bannmenn halda því fram, að fylgi bannlaganna fari vaxandi. Um það skal jeg ekki deila, en ótrúleg þykir sú saga mörgum, því að fleira virðist benda á, að það fari fremur minkandi en vaxandi. Mótþrói fyrir þessum lögum og virðingarleysi fyrir þeim, sem jafnframt leiðir af sjer virðingarleysi fyrir öllum lögum, hefir farið vaxandi ár frá ári síðan þau gengu í gildi.

Jeg skal játa það, að það, sem eðlilega vakti fyrir mjer 1909, þegar jeg greiddi atkv. með bannlögunum, var það, að þó að gamla kynslóðin yrði breysk og reyndi að fara í kringum lögin til að fullnægja fýsn sinni, þá væri yngri kynslóðinni miklu betur borgið en áður. Þetta var sú von, er mestu rjeð um atkvæði mitt með bannlögunum, en þessi von mín hefir orðið sjer til skammar.

Það verður ekki um það deilt, að það er ekki gamla kynslóðin, sem nú gengur best fram í að brjóta lögin, heldur hin yngri, og það er það sárgrætilegasta í þessu máli, og það gerir framtíð þeirra laga svo afardapurlega í mínum augum. Forboðni ávöxturinn er enn girnilegri í augum æskunnar en hinna eldri.

Vinir bannlaganna hljóta að sjá þetta, og þeir vilja eflaust reyna að bæta úr því eftir megni. En þeir hafa ekki sjeð önnur ráð en að herða öll refsiákvæði laganna. Þeir hafa fengið sektirnar hækkaðar og gert ráðstafanir til þess að ógna mönnum frá að brjóta, með afarháum sektum og jafnvel fangelsi. Hingað til hefir það ekki þótt ráð, til að hafa siðbætandi áhrif, að herða öll refsingarákvæði svo fram úr hófi, að þau stæði ekki í neinu sennilegu hlutfalli við eðli og stærð brotsins. Slík ákvæði egna heilbrigða skynsemi og heilbrigt almenningsálit upp á móti sjer. Reynslan hefir líka sýnt það, að vandræðaástandið hefir magnast við hverja herðingu laganna. Það eru til bannmenn, sem ekki vilja við þetta kannast; þeir telja ástandið betra en það er. Betur, að þeir hefðu rjett fyrir sjer. En það þýðir ekki að loka augunum fyrir augljósum staðreyndum og reyna þannig að blekkja sjálfa sig og aðra. Ástandið er og verður okkur til skammar og skaða, ef lögin eru látin standa, hve oft og mikið sem þau eru hert. — Bannmenn skella skuldinni á löggæsluna í landinu. Það er satt, að hún er magnþrota og ráðþrota í þessu máli. En er hægt að heimta af henni, að hún geti mikið meira en hún gerir? — Þó hún hefði, sem maður segir, auga á hverjum fingri, þá fengi hún ekki við ráðið. Lög, sem ríða eins átakanlega í bág við einstaklings- og athafnafrelsið eins og bannlögin, baka sjer fyrirlitningu og mótþróa góðra manna, því harðari sem þau eru og ómannúðlegri í hegningarákvæðum sínum. Þeirra laga er ómögulegt að gæta svo vel fari. Það er mannlegum mætti ofvaxið. Sæi lögreglan í gegnum holt og hæðir, eins og kerlingarnar í æfintýrum okkar, myndi hún að vísu sjá heilan „Lager“ af áfengi falið og grafið hingað og þangað í holtum og urðum umhverfis höfuðstaðinn, og jafnvel á sjávarbotninum hjer úti fyrir, en hitt læt jeg ósagt, hve vel henni tækist að handsama smyglana, sem þannig geyma vörur sínar, og þótt hún við og við næði þessum varningi, myndu nýjar birgðir koma í skarðið; svo kappsamlega er sú atvinna nú rekin.

Jeg held, að ekkert vinnist með því að herða lögin; reynslan hefir þar gert spádóma bannmanna að öfugmælum. Seinasta tilraunin í þá átt var hjer fyrir þingi í sumar, og jeg get að vísu ekki lofað þá meðferð, sem hún hefir fengið. Jeg er jafnvel þeirrar skoðunar, að eins og nú standa sakir, sje rjett að lofa bannmönnum að herða lögin eftir geðþótta, því hver herðing styttir lífstríð þeirra, með því að sannfæra bannmennina sjálfa um, að þau sjeu dauðadæmd. Jeg hygg, að ekki verði þess lengi að bíða, að reynslan sýni bannmönnum, í hvaða ógöngur og öngþveiti málefni þeirra er komið, og að hver herðing gerir að eins ilt verra. Eftirlitið er á þann hátt stórum torveldara. Menn verða seinni til að ljósta upp brotum um náungann, þegar menn vita, að hann á von á mörg hundruð króna sekt og jafnvel fangelsisvist fyrir ólöglega meðferð á 1 brennivínsflösku. Jeg býst við, að bannmenn sjálfir veigri sjer jafnvel við uppljóstri, þótt þeir verði lögbrjótanna varir, og þá er ekki von, að hinir sjeu fúsari, sem enga samúð eða virðingu bera fyrir lögunum, og telja brot á þeim í raun og veru alls engin brot. Þegar svo er komið, þá virðist ekki annað fyrir en að afnema lögin. Jeg held, að allir verði að játa það ofverk lögreglunnar að hafa það eftirlit með því, að þessum lögum sje hlýtt, sem að gagni má koma. Það hefir reynst lítt mögulegt, og mun reynast enn ómögulegra hjer eftir.

Bannlögin gátu ekki hafið göngu sína á hentugri tíma fyrir sæmilegt lögreglueftirlit með þeim en einmitt þessi ár síðan þau gengu algerlega í gildi. Eftir að þau gengu í gildi teptust bráðlega, sökum styrjaldarinnar, siglingar frá útlöndum til allra hafna landsins nema Reykjavíkur; það gat ekki hist betur á. Það er þó óneitanlega hægra fyrir lögregluna að hafa gott eftirlit á einum stað, og það á þeim stað, sem lögreglan er best liðuð, heldur en þegar siglingar hefjast til allra hafna landsins og aukast að miklum mun.

Vill nú þingið ár eftir ár horfa aðgerðarlaust á, að lög þess sjeu brotin eins blygðunarlaust eins og bannlögin? Það er svo fyrir mjer, og svo mun vera fyrir fleirum, að við verðum að hugsa okkur um, hvort rjett sje að horfa aðgerðarlaust á ástandið, eins og það er orðið. Jeg held, að það sje betra að stíga í eldinn en standa í honum. Fjöldi landsmanna og það þeirra, sem greiddu atkv. með bannlagahugmyndinni fögru og síðan með bannlögunum 1909, iðrast þess nú af öllu hjarta. Og þótt menn væru bjartsýnir þá, mega þeir ekki láta bjartsýnina villa sjer sjónir nú: Humanum est errare, nullius nisi insipientis in errore perseverare, eða mannlegt er að villast, en örvita eins að ana áfram á villuvegi. Hjer er orðið um sannkallað þjóðarböl að ræða, böl, sem er stærra en tárum taki. Ekki álasa jeg þeim mörgu góðu og mætu mönnum, sem börðust fyrir áfengisbanninu; þeir gerðu það í góðum tilgangi, sannfærðir um, að þeir með því mundu frelsa þjóðina frá áfengisbölinu og lyfta henni upp á æðra siðferðis- og menningarstig. En eins sannfærður er jeg nú um, að það tekst aldrei með bannlögum; þau seinka siðferðisþroska þjóðarinnar, í stað þess að flýta honum. Það verður sýnt með óhrekjandi tölum, að nautn löglegs áfengis vex hröðum fetum í landinu, og fullvíst er, að þar að auki er neytt mikils ólöglegs áfengis. Jeg get búist við að einhver áheyrandi minn muni segja við mig: Þú ert að mála vonda karlinn á vegginn. Jeg hefi enga tilhneigingu til þess; en jeg er að mála þar annan karl, sjálfan Bakkus. Við vitum, að sá vondi karl fer nú herskildi um landið, og hans bestu liðsmenn eru bannlögin; sú hersveit, sem með honum vinnur, er storkunarandi lýðsins gagnvart bannlögunum og strangleik þeirra.

Jeg hefi fengið upplýsingar um innflutning áfengra drykkja næstu 5 árin áður en bannlögin komu, og tala þær tölur skýrara máli en jeg get mælt. Þessi innflutningur áfengis fór árlega minkandi, eins og eftirfarandi tölur sýna:

1906 voru fluttir inn 324 þús. lítrar,

1907 — — — 355 — —

1908 — — — 277 — —

1909 — — — 196 — —

1910 — — — 164 — —

Það er vel athugandi, hvílík lækkun er á innflutningi áfengis þessi árin. Síðasta árið er innfl. helmingi minni en fyrsta árið. Og hverju er þetta að þakka öðru en lofsverðri starfsemi Goodtemplara, sem árum saman höfðu unnið að því, að glæða siðferðisþroska þjóðarinnar og innræta henni viðbjóð á ofnautn víns. En svo koma bannlögin í fult gildi með árinu 1912.

Árið 1911 eru menn að búa sig undir að taka á móti bannlögunum; þá er náunginn að búa sig undir að lifa í landinu þurra, og þá flytur hann inn 935 þúsund lítra af áfengi, eða næstum því eins og inn var flutt á 4 árunum á undan 1911 samanlögðum. Þessi innflutningur sýndi þegar, hve góðar viðtökur bannlögin mundu fá, eða hitt þó heldur, og hinn sterki andróður og mótþrói gegn bannlögunum varð þegar í stað sýnilegur.

Árin 1912 og 1913 lifðu menn svo á vínbirgðunum frá 1911. Þau ár bæði til samans er áfengisinnflutningurinn 20 þúsund lítrar, eða 13000 lítrar fyrra árið, og 7000 lítrar síðara árið.

Þetta er nú góð byrjun. En þegar fer að ganga á birgðirnar, þá tekur að hýrna yfir innflutningnum:

1914 eru fluttir inn 14 þús. lítrar,

1915 — — — 21 — —

1916 — — — 28 — —

1917 — — — 31 — —

1918 — — — 57 — —

Árið 1918 er innflutningurinn orðinn fjórfaldur móts við það, sem hann var 1914. Það er svo komið, að meira en ½ líter af áfengi kemur á hvert einasta mannsbarn í landinu. Haldi svona áfram, líður ekki á löngu, að innflutningur á áfengi verði eigi minni en hann var 5 síðustu árin á undan aðflutningsbanninu.

Hverjum dettur nú í hug, að 57000 lítrar af áfengi 1918 sjeu brúkaðir eingöngu til iðnaðar og lyfja, og annað áfengi er ekki leyfilegt að flytja inn í landið?

Það var ekki kvartað yfir neinum skorti á vínanda til iðnaðar og lyfja, þegar ekki fluttist inn nema 13000 lítrar, eða heldur 1913, þegar innflutningurinn var einir 7000 lítrar. Það er þó ekki ástæða til að ætla, að iðnaðarmenn og lyfsalar hafi birgt sig upp með vínanda á árunum á undan. Samsvarandi hækkun er á vínfangatollinum, sem eðlilegt er, eins og aukning innflutningsins. Árin 1913–1917 nam vínfangatollurinn að meðaltali 43000 kr. á ári. En árið sem leið er hann kominn upp í 73000 kr.; er það allálitleg upphæð í „þurru“ landi, og bendir hún síst á, að lög þessi hafi orðið til jafnmikillar siðbótar fyrir landslýðinn sem frumkvöðlar þeirra væntu. Enda eru þess dagleg merki hjer í Reykjavík, og fleiri kaupstöðum landsins, að nautn áfengra drykkja mun ekki vera minni nú en hún var áður en bannlögin komust á.

Mjer er sagt, að varla komi sú nótt fyrir, að eigi sjeu druknir menn hýstir hjer í „Steininum“. Að vísu er hjer ekki hægt að miða beinlínis við það, sem áður var, því nú mun eftirlitið vera strangara en fyr. En það skal jeg taka fram, að þótt bannlögin verði numin úr gildi, má ekki nema burt eftirlit með druknum mönnum á almannafæri.

Nú er ekki svo, að hið löglega áfengi sje eina áfengið, sem drukkið er í landinu. Þingið í ár hefir talið sig neytt til að leggja toll á brensluspíritus, allskonar hármeðul og ilmvötn, og af hverju? Af því fólkið er farið að drekka þessa vökva. Þetta er ekki skemtilegt í þurru landi; en fleira verður að gera en gott þykir. Brensluspíritus er með þessum tolli gerður svo dýr, að fátæku fólki er nær ómögulegt að kaupa hann til að hita sjer við hann kaffisopa; það verður að kaupa kol fyrir 30–40 krónur skippundið. En þingið hefir neyðst til að gera fleira, sem er bein afleiðing af bannlögunum.

Af því að það var ekki svo fyrirhyggjusamt og viturt, að hafa fundið hagkvæman og rjettlátan toll, er koma skyldi í stað áfengistollsins, þá hefir það orðið að grípa til þess áð leggja allháan toll á allar innfluttar nauðsynjavörur, toll, sem hækkaður hefir verið hvað eftir annað. Nú er svo komið, að fátæklingurinn getur ekki látið upp í sig brauðbita án þess að gjalda toll af honum, ekki eignast spýtu í kofann sinn, ekki dúkpjötlu í spjör handa sjer, ekki sementslúku, ekki salthnefa nje kolamola eða gaddavír. Má vera, að þessi tollur, vörutollurinn, verði áfram, en fyrsta tilefni til hans var, að landið misti tolltekjur af áfengi, er bannlögin voru lögleidd.

En það er meira blóð í kúnni. Auk þess áfengis, sem inn í landið er flutt, eru Íslendingar sjálfir farnir að brugga áfengi og það, að sögn, ekki af betra endanum. Þetta fer fram rjett undir handarjaðrinum á sjálfri lögreglunni, og með sínum besta vilja fær hún ekki að gert.

En hjer er fleira ljótt á seiði. Óleyfilegur innflutningur á áfengi vex hröðum fetum, og er að líkindum orðinn meiri en sá löglegi, eða er á góðri leið að verða það. Það ganga sögur um stórar vínbirgðir, fluttar hingað frá Spáni og öðrum löndum. Þetta er svo sótt á bátum í skipin úti í Flóa, eða því jafnvel sökt á sjávarbotn, til að geymast þar þangað til færi gefst að fiska það upp aftur þaðan. Þegar í land kemur, er það svo falið í afkimum og skúmaskotum, eða geymt uppi í holtum.

Þegar áfengi hefir streymt svo á stríðsárunum inn í hina einu höfn, sem samgöngur við útlönd hafa nær eingöngu verið bundnar við og þar sem lögreglueftirlitið er langöflugast, þá er hægt að gera sjer í hugarlund, hvernig ólöglegt áfengi muni fossa inn í landið, þegar skip taka aftur að sigla inn á hvern vog og vík umhverfis alt landið, þar sem engu eftirliti verður við komið og engin lögreglugæsla er. Þar geta smyglararnir í næði rekið atvinnu sína, sem þeir þegar hafa byrjað á.

Þessi þokkalega verslun er þegar orðin mesti gróðavegurinn í þessu „þurra landi“. Lögbrjótarnir verða stórríkir menn á fáum árum; en þeir, sem við þá versla, eru fjeflettir eftir nótum. — Áfengislíterinn, sem keyptur er fyrir fáa aura suður á Spáni, í Bretlandi, Ameríku eða annarsstaðar, er seldur fyrir alt að 30–10 kr., þegar hingað kemur. Þetta er hörmulegt ástand.

Þingið streitist við að leggja háa skatta á allar nauðsynjar og löglegan og heiðarlegan atvinnurekstur, þjóðfjelaginu til uppbyggingar, en þessar þúsundir fara allar fram hjá því, af því að þær eru fengnar í skúmaskotum lögbrotanna, sem knúin eru fram af óeðlilegum höftum á frelsi einstaklinganna.

Bannlögin hafa ekki náð tilgangi sínum, hversu góður sem hann var, og ná honum aldrei, hvorki siðbótartilganginum nje fjárhagsbótar.

Þetta eru tildrögin til þingsál.till.; þetta eru ástæðurnar fyrir henni. Af því að bannlagahugmyndin var borin undir atkvæði þjóðarinnar áður en bannlögin voru samþ., viljum við nú spyrja hana aftur, hvort hún vilji lifa áfram undir þessum lögum; þó ekki af því, að við teljum ekki þingið hafa fullan rjett til að afnema þau án þess að atkvæðis þjóðarinnar sje leitað um það, heldur af því, að við viljum ekki, að sagt verði, að farið hafi verið hvatvíslega að afnámi þeirra. Þjóðin sjálf hefir aldrei samþykt bannlögin, heldur hugsjónina, sem þau bygðust á, þá fögru hugsjón, sem nú er að verða að örgustu ófreskju. Þetta segi jeg af því að jeg álít ekki öll sund lokuð, þótt þjóðin sje ekki með afnámi bannlaganna að þessu sinni. En auðvitað er, að sje þjóðin enn ekki svo vitkuð í þessu máli, og heldur ekki þingið, að það sjái hvílíkt þjóðarböl hjer er á ferðinni, þá nær það ekki lengra. Ástandið þarf enn að versna, til þess að augu manna opnist, og því miður er ekki útlit fyrir annað en að það versni stórum.

Sumir vilja bíða og sjá, hvort ekki batnar; aðrir vilja bíða til þess, að enn betur sjáist, hve óþolandi ástandið er. En við viljum ekki bíða; hvert árið er fyrir okkur löng bið, og þraut að horfa á siðspillandi áhrif laga þessara, sjáandi það, að virðingarleysið fyrir þeim vekur og magnar virðingarleysi fyrir öðrum lögum. Úr því að engin von sýnist um, að unt verði að stemma stigu fyrir lögbrotum og smyglun áfengis, þá er nær, að landið, en ekki óhlutvandir menn, hafi ágóða af áfengisversluninni; og þjóðin vill eflaust heldur, að hár skattur sje lagður á vínföng, en á mestu lífsnauðsynjar hennar.

En vilji þjóðin ljetta af sjer þessum ófagnaði, þá mundi hollast, að ríkið tæki að sjer innflutning áfengis; með því mundi meiri trygging fyrir, að eigi flyttist inn í landið allskonar ólyfjan, sem fólk er nú orðið vant að drekka. Yfir höfuð mundi vera hægt að fá meiri trygging gegn ýmsum þeim hættum, sem vínföngum og vínfangaverslun fylgja, án þess þó að ganga of nærri persónufrelsi manna, ef ríkið tæki að sjer umsjón með innflutningi og áfengisverslun í landinu. Á þann hátt mundi og ríkið hafa mestar tekjur af vínföngunum, tekjur, sem gætu skift hundruðum þúsunda á ári eða meira; og það jafnvel án þess, að innflutningur vínfanga ykist nokkuð verulega frá því, sem nú er; hann yrði að eins sýnilegur og löglegur.

Ekki ætti þessi tekjuauki að vera fráfælandi nú á þessum tímum, þegar jafntilfinnanlegur tekjuskortur er sem nú, og menn standa ráðþrota að finna eitthvað til að fylla upp í tekjuhallaskörðin.

Þótt búast megi við, að menn haldi ekki einkasölulögin sem skyldi og reynt verði að smygla inn áfengi, þá munu áreiðanlega ekki verða eins mikil brögð að því sem nú. Einkasölulögin mundu vekja samhygð góðra manna, og það mundi fara líkt eins og í Danmörku, er menn töldu það þjóðræknisskyldu að drekka Gamla Carlsberg, af því að eigandi ölgerðarinnnar gæfi svo mikið fje til eflingar menta og lista. Eins mundu margir hjer fremur vilja drekka ósmyglað en smyglað áfengi, af því að þeir vildu heldur, að ágóðinn af sölu þess rynni í ríkissjóð, en í vasa smyglaranna.

Hv. deild ræður nú, hvað hún gerir við málið. Þótt hún felli það, kemur sú tíðin, að það verður ekki talið heppilega ráðið.