19.09.1919
Neðri deild: 68. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í C-deild Alþingistíðinda. (3297)

156. mál, bannmálið

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi stundum sagt það við tillögumenn og þá aðra, sem fella vilja bannlögin, að jeg mundi verða þeim fylgjandi, ef heimtuð væri ný atkvgr. Mjer þótti fylgið alt of lítið, þegar lögin voru sett á í fyrstu. En jeg sagði það strax þá, og hefi altaf haldið fast við það, að þjóðin, en ekki kjósendur einir, ættu að greiða atkv. um þetta mál.

Þetta sagði jeg hv. flm. (S. St.), sem nú var að gæða mönnum á víni í stað vatnsins, sem bragðaðist honum svo illa í dag, að jeg mundi hafa fylgt till., ef svo væri ákveðið, að allir, sem 18 ára eru eða eldri, greiddu atkv.

En jeg get ekki verið með því, að undanskilja alla á aldrinum frá 18–25 ára, og auk þess allar konur, sem eftir stjórnarskránni hafa ekki atkvæðisrjett.

Jeg verð því að vera á móti till. þessari, af þessari ástæðu, að flm. hennar hafa ekki viljað orða hana svo, að hægt sje að vera með henni.