22.09.1919
Neðri deild: 70. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í C-deild Alþingistíðinda. (3299)

156. mál, bannmálið

Magnús Pjetursson:

Menn þurfa ekki að vera hræddir um, að jeg verði mjög langorður. Jeg vildi að eins segja nokkur orð í sambandi við ræðu þá, sem hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) flutti hjer á dögunum, þegar tillaga þessi var hjer til umr.

Háttv. þm. (J. B.) sagði, að það væri ekki hægt að neita því, að alt það áfengi, sem flyttist til landsins og notað væri til drykkjar, væri eingöngu fengið út á lyfseðla lækna. Þessa staðhæfing vildi jeg athuga, því að jeg þykist vita, að þm. kannist jafnvel við, að þetta sje ofmælt.

Jeg vil benda honum og öðrum hv. þm. á þann misskilning, sem maður verður oft var við í blöðum og tali manna, að læknar einir láti af hendi löglegt áfengi. Jeg vil benda á alt það áfengi, sem fer til iðnaðarmanna og því um líkt. Því miður er ekki hægt að sýna skýrslur yfir áfengisnotkun þeirra, vegna þess að þeir fá sitt áfengi alt úr apótekinu. En jeg veit, að fjöldi manna kannast við þessar svonefndu áfengisbækur, sem margir iðnaðarmenn fá áfengi út á, og jeg veit, að iðnaðarmenn hafa stundum fengið fullar tunnur af áfengi út á þessar bækur. Við vitum ekki, hversu margir þessir iðnaðarmenn eru, en við vitum, að það eru trjesmiðir, úrsmiðir, myndasmiðir, skóarar o. fl. Þessir menn geta allir fengið áfengi, og þeir verða allir að leita í apótekið, í stað þess að fá áfengið hjá landsversluninni.

En þar að auki er alt kompásasprittið eða áttavitabrennivínið. Af því að jeg er læknir hefi jeg talsvert oft orðið var við það, að menn hafa komið til mín með áfengisbækur, og þóst hafa heimtingu á að fá áfengi út á þær, af því að það er löggilt. Og mjer þótti það ærið hart, að hv. 1. þm. Reykv. (J. B.) skyldi vilja eigna læknunum alt það vín, sem drukkið er hjer á landi. Það mundi engum verða kærara en einmitt læknunum, ef bannvínum tækist að sundurskilja þessi áfengiskaup á þá leið, að það kæmi skýrt fram, hvað læknar hefðu fengið og hvað hefði farið til annara stjetta.

Og enn þá er ein tegund manna, sem fá áfengi úr lyfjabúðum, og það ekki í smáum stíl. Það eru smáskamtalæknarnir. Þeir fá sumir spíritus í tugum lítra, því þeir þurfa ekki annað en fá vottorð frá hreppstjóra og sóknarpresti, um að þeir hafi rjett til að fá þetta áfengi. En bannlagavinir hafa sífelt reynt að klína þessu öllu á læknastjettina.

Annars þótti mjer vænt um að heyra eitt hjá hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), sem er nokkuð nýstárlegt að heyra. Og það var, að hann viðurkendi, að læknar hefðu haft þetta leyfi áfram, þegar aðflutningsbannslögin gengu í gildi. Þetta gladdi mig, því að hingað til hefir alt af verið miðað við árið 1915.

Annars skal jeg ekki kappræða þetta frekar. Jeg vildi að eins benda þm. á þessi atriði. Og jeg vona, að hann kannist nú við, að hann hafi mælt helst til stórt á dögunum.