22.09.1919
Neðri deild: 70. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í C-deild Alþingistíðinda. (3302)

156. mál, bannmálið

Hákon Kristófersson:

Jeg á brtt. á þgskj. 824. Hún fer í þá átt, að atkvgr. fari fram um leið og næstu kosningar til Alþingis, í staðinn fyrir „á komandi vori, eins og gert var ráð fyrir í aðaltill. Jeg get ekki sjeð betur en það komi alveg í sama stað niður, hvort kosningarnar fara fram að vori eða á komandi hausti. Fyrir mjer vakti það, að það væri óheppilegra, að kosningar færu fram að vorinu, þar sem öll líkindi eru til, að færri kjósendur mundu greiða atkvæði um þann tíma árs. Og enn fremur vil jeg benda á það, að kostnaðurinn yrði minni, ef atkvæðagreiðslan yrði samferða Alþingiskosningunum.

Jeg geri ráð fyrir, að þeir, sem verða á öndverðum meiði við till. á þgskj. 791, verði sömu mennirnir og stutt hafa andbanninga. En jeg læt hvern um þann dóm, sem hafa vill. Með till. er ekki farið fram á annað en það, að þjóðin skeri úr því, hvort hún vill búa framvegis við það ástand, sem er, eða ekki. En þrátt fyrir það, að bannlögin hafa ekki náð tilgangi sínum, þá lít jeg svo á, að þjóðin vilji hafa þau áfram. Hvorki mjer nje öðrum hefir nokkurn tíma komið til hugar, að bannlög yrðu ekki brotin. En jeg hafði ekki búist við, að brotin yrðu eins mikil og raun hefir á orðið. Og jeg leyfi mjer að lýsa yfir því, að allir eru ekki jafnir fyrir þessum lögum.

Því hefir verið slegið fram, að menn mundu iðrast eftir að hafa fylgt aðflutningsbannslögunum. En þetta hygg jeg að sje tómur framsláttur. Jeg hygg, að menn hafi fylgt þeim í þeirri trú, að þau myndu leiða gott af sjer, bæta eitthvað úr ástandinu, sem var í sumum kaupstöðum landsins.

Þessu vil jeg því mótmæla, um leið og jeg lýsi yfir því, að till. er ekki fram borin af fjandskap við bannlögin. Og jeg get ekki heldur fallist á þá staðhæfingu, að hún sje borin fram í því skyni, að gefa mönnum undir fótinn með að afnema bannlögin.

Það hygg jeg líka vera orðum aukið hjá hv. þm. N.-Ísf. (S. St.), að kompásar sjómanna sjeu orðnir einhverjir verstu fylliraftarnir. Jeg held, að það áfengi fari miklu fremur ofan í einhverjar lifandi verur, heldur en að áttavitarnir neyti þess.

Jeg hygg, að það sje ekki að ófyrirsynju, að atkvæðagreiðsla fari fram um þetta mál. Það hafa heyrst raddir um, að þjóðin sje orðin andvíg bannlögunum. Ef þetta er rjett, eiga lögin ekki að vera í gildi framvegis. En ef þjóðin vill hafa lögin framvegis, virðist mjer, að það ætti að gefa þingi og stjórn ástæðu til að leggja meiri rækt við það, að lögunum verði framfylgt, heldur en verið hefir hingað til.

Þess vegna sje jeg ekkert móti því, að till. á þgskj. 791 verði samþ., enda þótt jeg fyrir mitt leyti hefði ekki komið fram með hana, ef jeg væri andvígur bannlögunum. Jeg býst við, að aðrar hvatir liggi til grundvallar hjá hv. þm. (B. Sv.), sem er flm. till. Það mun tæplega hægt að gera hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) nokkrar getsakir. Hann er enn þá vafalaust stuðningsmaður bannlaganna.

Enda hefir hann lýst því yfir, að hann væri óánægður með, hvernig lögunum væri framfylgt.